Hegningarlagabrotum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði í júní frá fyrri mánuði og fjölgar þeim einnig miðað við bæði sex og tólf mánaða meðaltal. Alls voru skráð 801 hegningarlagabrot í síðasta mánuði, borið saman við 701 brot í maí. Fjöldi hegningarlagabrota það sem af er ári er öllu minni en meðaltal síðustu þriggja ára, en það helgast þó einkum af því að fjöldi þeirra árið 2021 var markvert meiri en árin 2020 og 2022.
Flest brotin áttu sér stað á svæði lögreglustöðvar 1, í Miðborg, Vesturbæ, Seltjarnarnes, Háaleiti, Hlíðar og Laugardal. Alls bárust 117 tilkynningar um ofbeldisbrot í júní. Tilkynningar um heimilisofbeldi fjölgaði nokkuð á milli mánaða og fóru úr 55 tilkynningum í maí í 72 tilkynningar í júní. Það sem af er ári hafa borist um tíu prósent færri tilkynningar um heimilisofbeldi samanborið við meðalfjölda sama tímabils síðustu þrjú ár á undan.
164
Alls bárust lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu 38 tilkynningar um kynferðisbrot í júní, um 16 þeirra tilkynninga voru vegna brota sem áttu sér stað í júní. Er þetta nokkur fjölgun tilkynninga miðað við meðaltal síðustu sex og síðustu 12 mánuði á undan. Hins vegar hafa, það sem af er ári, verið skráð um 14 prósent færri kynferðisbrot en voru skráð að meðaltali á sama tímabili síðustu þrjú ár þar á undan. Alls hafa verið skráð 164 kynferðisbrot á fyrri helmingi ársins. Á sama tímabili í fyrra voru þau 190 talsins, 229 talsins árið 2021 en 153 árið 2020.
Alls bárust 25 beiðnir um leit að börnum og ungmennum í júní. Ekki hafa borist fleiri beiðnir um leit að börnum og ungmennum síðan í júní 2020 þegar 25 beiðnir bárust.
Skráðum fíkniefnabrotum fjölgaði á milli mánaða og voru skráð þrjú stórfellt fíkniefnabrot í júní. Heilt yfir hafa þó verið skráð um 33 prósent færri fíkniefnabrot á höfuðborgarsvæðinu en voru skráð að meðaltali á sama tímabili síðustu þrjú ár á undan.
Athugasemdir