Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

ÚTSALA HEIMILDARINNAR! EINUNGIS Í DAG! SMELLTU HÉR

ÚTSALA HEIMILDARINNAR! EINUNGIS Í DAG! SMELLTU HÉR

Virkaði þessi fyrirsögn? Hélstu að mögulega væri verið að bjóða upp á einhverskonar tilboð? Eða hugsaðir þú með þér hvern djöfulinn þessir ungu blaðamenn væru að gera með því að menga fréttaflóruna af svona rugl fyrirsögnum sem þeim einum finnst sniðugar?

Hvað um það, þá er þetta svona sem útsölur virka. Við sjáum eitt, tvö eða þrjú orð sem öskra á okkur að þessu tilboði megum við sko aldeilis ekki missa af. Tilboðum fylgir líka yfirleitt einhverskonar tímapressa. Annaðhvort er tilboðið bara í dag af því að það er hátíðisdagur, þriðjudagur eða dagur einhleypra. Eða það nær yfir ákveðið tímabil eins og sumarútsölur gera. Ef neytandi ætlar að næla sér í vöru á ódýrara verði þá þarf að taka ákvörðun hratt. Upp með veskið strax. 

Handbendi Satans

Nútímahátæknisamfélagi fylgja ýmsar kvaðir. Tæknin veitir vissulega aðgengi að allskyns upplýsingum og þjónustu en í skiptum samþykkja flestir notendur að fyrirtæki megi safna um þau gögnum sem er síðan hægt að nota til að selja þeim vörur.

Breki Karlsson er formaður Neytendasamtakana en þau hafa vakið athygli á þeirri smásjá sem internet-notendur eru undir. „Það er komin ný starfsgrein í viðskiptum fyrir upplýsingamangara (e. data brokers) sem fylgjast með öllu sem við gerum á netinu til þess að búa til einhverskonar mynd af okkur. Síðan er þessi mynd seld áfram til stórfyrirtækja eins og Google Analytics. Þau safna þessum upplýsingum og selja til þriðja aðila sem eru upplýsingamangararnir.“ Hlutverk upplýsingamangarana er að selja fyrirtækjum aðgengi að ákveðnum hópi neytenda. Fyrirtæki senda síðan skilaboð til þeirra neytenda í gegnum auglýsingar.

Breki KarlssonTelur upplýsingaöflun geta ýtt undir skautun innan samfélagsins.

Breki segir þessar upplýsingar ekki einungis notaðar til að auglýsa skyrtur heldur líka til þess að skapa skautun milli þegna samfélagsins. „Við sjáum það hér heima og erlendis að stundum virðist fólk varla geta talað eðlilega saman heldur er það á háa C-inu. Annaðhvort ertu með mér í liði eða þú ert handbendi Satans.“

„Við erum náttúrulega mjög einfaldar verur að eðlisfari. Með útsölum er verið að höfða til skorts, því að við séum hrædd um að missa af." Breki nefnir FOMO eða hræðsluna við að missa af og segir hana „djúpstæða í okkur. Við viljum afla okkur matar og öryggis og það er bara harðvírað í DNA-inu okkar að leita að bestu leiðinni til þess að fá hluti. Tilboð og auglýsingar gera út á það.“

Neytendum er sagt að í örstutta stund sé þeim fært að nálgast bestu kaup sem kostur er á. Að mati Breka er stundum hægt að gera góð kaup en „oft lendum við í því að kaupa hluti sem okkur langar ekki í, fyrir peninga sem við eigum ekki, til að ganga í augun á fólki sem við þekkjum ekki.“ 

Fylgifiskur markaðshagkerfis

Allskonar aðferðir eru notaðar til þess að láta neytenda líða eins og hún hafi gert stórkaup. Til dæmis með því að auglýsa útsöluverð frekar í prósentum ef varan er undir ákveðnu verði, og svo í þúsund króna ef það hljómar betur. Annað trikk er að skrifa ávinning útsölunnar í stórum stöfum en upprunalegt verð hennar smátt til þess að neytandi sé nógu meðvitaður um að hér sé hann að græða. Á vefsíðunni Boozt.com er afsláttur auglýstur af útsölu.

BooztBýður aukaafslátt af útsöluvörum.

Þekkt er að vörur séu auglýstar á verði sem endar á tölunum 99, 95 eða 90. Þetta eykur líkur á að neytandi upplifi kaupin sem ávinning frekar en að verðið sé námundað upp í heila tölu. Önnur leið til að ná athygli tilvonandi neytenda er að nota áberandi liti eins og rauðan til að auglýsa útsölu en liturinn er gjarnan tengdur við ástríðu. Þá getur ókeypis sendingarkostnaður einnig sannfært neytenda um að kaupin séu þess virði.

Svokölluð leyfisáhrif (e. licensing effect) eiga við þegar að fólk leyfir sér að gera eitthvað slæmt eftir að hafa gert góðverk. Nokkrar fataverslanir bjóða upp á þann valmöguleika að fólk mæti með poka af gömlum fötum í búðirnar í þágu umhverfismála. Þannig getur fyrirtækið endurnýtt efnið og neytandi fær inneign í búðina til að versla meira. Þó að það sé ekki slæmt í eðli sínu að versla föt þá getur þessi hringrás virkað sem hvatning til að versla meira, jafnvel þó að einstaklingur þurfi þess ekki.

Svo eru tilboð eins og 3 fyrir 2 sem virka vel ef kaupa á þrjá nýja stuttermaboli en fyrir þann aðila sem ætlaði að kaupa sér einn á 1000 krónur en labbar út úr búðinni með þrjá á 2000 krónur er ávinningurinn lítill. Þúsund krónur farnar af bankareikningnum fyrir tvo boli sem var ekki þörf fyrir. 

Aðspurður hvort að hægt sé að komast hjá slíkum brögðum þegar við búum í markaðshagkerfi segir Breki að svo sé ekki enda sé það gott ef fyrirtæki geti boðið neytendum betri kjör á vörum sem eru að hætta í sölu eða eitthvað slíkt. „En auðvitað í fullkomnum heimi væru allar vörur alltaf á lægsta verði.“

Algengt er að Neytendasamtökunum berist tilkynningar um verslanir hækki verð áður en það er lækkað aftur fyrir útsölu. „Oft á tíðum reynist það satt. Verslanir nýta sér þann slagkraft sem felst í því að höfða til okkar hvata sem er að safna að okkur aðföngum á sem hagkvæmastan hátt.“ 

Nýlega fjallaði Heimildin um væntanlega Evrópureglugerð sem gæti breytt stöðu neytenda á markaði en Breki segir hana eiga að auka gagnsæi. „Ekki kaupa óþarfa og vertu viss hvað það er sem þú þarft. Það er mikilvægt að skilja muninn á milli langana og þarfa.“ 

Kjósa
16
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár