Nefndarmenn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fengu útprentað afrit af skýrslu Sigurðar Þórðarsonar, fyrrverandi setts ríkisendurskoðanda, um Lindarhvol í pósthólf sín í morgun. Birgir Ármannsson, forseti Alþingis og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, telur að það hafi ekki þýtt að trúnaði yfir skýrslunni hafi verið aflétt.
Píratar birtu skýrsluna á vefsíðu sinni fyrr í dag en mikil leynd hefur hvílt yfir henni síðan árið 2018.
„Jafnvel þó Sigurður hafi sent eintak á nefndarmenn hvern fyrir sig þá sýnist mér í fljótu bragði ekki að greinargerðin verði lögum samkvæmt opinber eða birting þess heimiluð,“ segir Birgir í samtali við Heimildina. „Ég lít þannig á að það hafi enn þá verið trúnaður á þessu.“
Almenningur leit skýrsluna fyrst augum í dag en nefndarmenn stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hafa haft aðgang að henni í sérstöku trúnaðarherbergi á þessu kjörtímabili og því síðasta.
Fara yfir málið í þinginu
Umboðsmaður Alþingis óskaði eftir því í mars síðastliðnum að fjármála- og efnahagsráðuneytið skýrði fullyrðingar sínar um að ólöglegt væri að gera skýrsluna, sem líka hefur verið kölluð vinnuskjal, opinbera.
„Sé það afstaða ráðuneytisins að birting vinnuskjala ríkisendurskoðanda sé almennt óheimil, og þá án þess að mat fari fram á atvikum vegna hvers og eins skjals, er óskað skýringa á þeim lagasjónarmiðum sem þar búi að baki,“ sagði í fyrirspurn umboðsmannsins.
Birgir segir ágreininginn hafa snúist um það hvort og þá hvernig fara skyldi að birtingu skýrslunnar. Í framhaldinu verður farið yfir það í þinginu hvort opinber birting skýrslunnar stangist á við meðferð trúnaðarupplýsinga.
„Í fljótu bragði sýnist mér að svo sé en ég hef ekki haft tækifæri til þess að skoða það í kjölinn.“
Hverjar geta afleiðingar trúnaðarbrots verið?
„Það er ekki um að ræða nein viðurlög við slíku.“
Athugasemdir (5)