Ekki er útlit fyrir að langreyðarveiðar fari fram í sumar, í kjölfar þess að Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra tók ákvörðun um að fresta upphafi vertíðarinnar til 31. ágúst, í kjölfar þess að hún fékk í hendur álit frá fagráði um dýravelferð. Ráðherrann hefur lýst álitinu sem svo afdráttarlausu og afgerandi að hún hafi orðið að bregðast við, í þágu dýravelferðar.
Þeir sem horfðu fram á uppgripavinnu hjá Hval hf. í sumar, vel launaða erfiðisvinnu við að veiða hval eða gera að honum í hvalstöðinni í Hvalfirði, eru þeir sem helst finna fyrir þessari ákvörðun ráðherra og hafa lýst yfir mikilli óánægju, meðal annars á fjölmennum fundi sem fram fór á Akranesi á vegum Verkalýðsfélags Akraness á fimmtudagskvöld.
Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem hvalveiðivertíð er slaufað með fremur skömmum fyrirvara, þó fyrirvarinn sé vissulega afar skammur nú. Það var gert fyrir 11 árum, eða árið 2012. Þá var það hins vegar ekki „öfgafullur kommúnisti“ í matvælaráðuneytinu sem tók þá ákvörðun, svo notuð séu orð Kristjáns Loftssonar um Svandísi Svavarsdóttur, heldur Kristján sjálfur, einn helsti kapítalisti landsins, í kjölfar deilu við Sjómannafélag Íslands vegna launa háseta á hvalveiðibátunum.
Sjómannafélagið gerði kröfu um að Hvalur hf. bætti hásetunum upp þá skerðingu sem hafði nýlega orðið á sjómannaafslættinum. Þá ákvað Kristján að betur væri heima setið en af stað haldið, þrátt fyrir að kostnaður við að bæta sjómönnum upp sjómannaafsláttinn væri ekki stórkostlegur. Samkvæmt forsíðufrétt Morgunblaðsins um málið frá 8. maí 2012 var áætlað að um 100 manns fengju vinnu við úthaldið í þrjá til fjóra mánuði. Til stóð að veiða um 60 til 70 langreyðar þetta sumar, en ekkert varð af því.
Ekki háar tölur, heldur prinsipp Kristjáns
Bergur Þorkelsson er í dag formaður Sjómannafélags Íslands, en var á árum áður starfsmaður á skrifstofunni hjá félaginu og segist muna nokkuð vel eftir þessari deilu við Kristján.
„Hann [Kristján Loftsson] kom með samning sem var keimlíkur þeim sem hafði verið árið á undan með einhverjum hækkunum. Jónas Garðarson var formaður þá og sagði að þetta dygði ekki til, hann yrði að koma með sjómannaafsláttinn ofan á þetta. Það voru ekkert svakalega háar tölur en það var eitthvað prinsipp hjá honum og hann fór ekki á hvalveiðar það árið. Síðan hefur ekki verið gerður kjarasamningur við okkur,“ segir Bergur við Heimildina.
Sjómannaafslátturinn, skattaafsláttur fyrir sjómenn sem nam rúmum 900 krónum fyrir hvern dag á sjó, alls að hámarki rúmlega 500 þúsund krónur yfir árið, var afnuminn í tíð ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna.
„Steingrímur [J. Sigfússon] tók þetta af og sagði að sjómannafélögin þyrftu bara að sækja þetta í útgerðarmenn. Það hefur ekki tekist í fiskiríinu, og Kristján vildi ekki bæta þetta, en við höfum náð þessu hjá Gæslunni og Hafró, hjá ríkinu, og hjá ferjunum og fraktskipunum, en ekki annarsstaðar. Útgerðarmennirnir segja að þetta sé bara á milli okkar og ríkisins,“ segir Bergur.
Efast um að þetta hafi verið raunverulega ástæðan
Hann segist stórefa að sjómannaafslátturinn hafi verið raunveruleg ástæða þess að Hvalur hf. hélt ekki til langreyðarveiða árið 2012, en fyrirtækið hafði ekki heldur farið til veiðanna árið 2011. „Hann hefur viljað kenna einhverjum öðrum um þetta,“ segir Bergur um Kristján og kímir.
„En þetta er skrítin staða núna. Þessir sjómenn sem voru búnir að ráða sig núna til Hvals voru búnir að taka sér frí, ég veit um þrjá sem eru á frystitogurum sem voru búnir að taka sér frí tímabundið úr þeim plássum, en þeir voru ekki komnir með ráðningarsamninga við Hval svo þeir eru ekki með neitt í höndunum,“ segir Bergur.
Málið kom aldrei inn á borð Vilhjálms og VLFA
Verkalýðsfélag Akraness hefur beitt sér af hörku fyrir hönd félagsmanna sinna vegna ákvörðunar matvælaráðherra nú og segir formaður þess, Vilhjálmur Birgisson, að hann telji um stórhættulega stjórnsýslu að ræða, sem hafi miklar afleiðingar fyrir hans félagsmenn.
Blaðamaður ræddi við Vilhjálm um það þegar Hvalur hélt ekki á vertíð árið 2012, af þeirri ástæðu, sem áður segir, að Sjómannafélagið gerði kröfu um launauppbót vegna afnáms sjómannaafsláttarins.
„Þegar þú ert að tala um 2012 og sjómennina, þá eru þeir ekki í VLFA heldur í sjómannafélögunum. Ég á alveg fullt í fangi með að verja afkomu minna félagsmanna og tek ekki að mér að verja hagsmuni þeirra sem tilheyra öðrum stéttarfélögum. Það er þeirra að gera það,“ segir Vilhjálmur.
Blaðamaður benti á að þetta tengdist nú saman, menn fengju ekki vinnu í landi nema haldið væri til sjós.
Vilhjálmur segir hins vegar að þetta mál, og vertíðarslúttið hjá Hval árið 2012, hafi aldrei komið inn á hans borð og hann þekki það lítið.
Hefur tekið harða slagi við Kristján og tekur nú slag við ráðherra
Hann rifjar hins vegar upp að hann hafi tekið harða slagi við Kristján Loftsson og Hval hf. og m.a. farið með fyrirtækið fyrir dómstóla árin 2017-18 vegna ágreining um ráðningarkjör.
„Það mál var leitt til lykta á öllum dómstigum, alveg upp í Hæstarétt, og við unnum það mál og síðan hafa launin tekið mið af þeim dómum sem þar féllu og hækkuðu launin allverulega og Hvalur þurfti að greiða til baka. Það sýnir að hlutverk VLFA í þessu máli er alltaf nr. 1, 2 og 3 fyrir hagsmunum félagsmanna og þessi barátta okkar núna lýtur að þessum hagsmunum. Það er bara þannig.“
Vilhjálmur lýsir því að þeir sem höfðu ráðið sig á vertíð í ár hafi gert ýmsar ráðstafanir, um að taka frí úr annarri vinnu, segja jafnvel upp annarri vinnu, og leigja út húsnæði sitt tímabundið, því þeim stendur til boða að búa frítt í hvalstöðinni. „En þá kemur bara einhver ráðherra sem er búinn að sturta meðalhófinu í klósettið. Svona komum við ekki fram við fólk og lífsafkomu þeirra,“ segir Vilhjálmur Birgisson.
Athugasemdir (2)