Eitt sinn fyrir löngu skrifaði ég ritgerð í námi mínu í alþjóðastjórnmálum um viðhorfsbreytingu gagnvart hvalveiðum. Þar var meðal annars fjallað um tilfinninganlegan viðsnúningi viðhorfa fólks frá ímynd hins ógnvænlega Moby Dick til hins glaðbeitta og blíða Free Willy.
Í ritgerðinni vísaði ég í tvenn andstæð viðhorf gagnvart hvölum. Annað er að finna í vinsælu bókmenntaverki frá 1851 og hitt í kvikmynd frá 1992 en bæði endurspegla viðhorf almennings á sínum tíma og hafa um leið mikil áhrif á viðhorfin. Í sögufrægu bókmenntaverki Hermanns Ville rífur háhyrningurinn Moby Dick annan fótlegginn af skipstjóranum Ahab. Skipstjórinn reynir allt sem hann getur til að ná fram hefndum en ekki tekst betur til en svo að hvalurinn drepur hann. Þessu til viðbótar grandar hann í bræðiskenndu sporðakasti allri áhöfn skipsins að einu sjónarvitni undanskildu, unga sjómanninum Ísmael sem er sögumaður bókarinnar.
Í frétt Morgunblaðsins frá 1955 er því lýst hvernig bandarískt varðskip kemur íslenskum síldarsjómönnum til aðstoðar við að hrekja háhyrninga á brott frá netum bátanna. Vísað er í dýrin sem illhveli. Þess má geta að á ensku kallast háhyrningur Killer Whale eða drápshvalur.
Í kvikmyndinni Free Willy verður annar háhyrningur fyrir mátt ímyndunaraflsins besti vinur munaðarlauss 12 ára stráks. Bókmenntaverkið og síðar kvikmyndin endurspegla með einföldum hætti þá skautun sem orðið hefur á viðhorfum manneskjunnar gagnvart hvölum og þar með hvalveiðum: Stórhveli sem talin voru ógnvekjandi og stórhættuleg manninum og af þeim sökum réttdræp eru síðara skilgreind sem viti bornar verur sem geta þróað tilfinningasamband við mannlega veru, barn á viðkvæmu þroskaskeiði. Hugarfarsbreytingin endurspeglar einnig þróun okkar sem tegundar með háþróaðan skipaflota og öfluga veiðitækni. Nútímamaðurinn er kominn á þann stað að hafa yfirhöndina gagnvart stórskepnum hafsins og er þar með gefið guðs val(d): Að drepa skepnuna eða veita henni grið.
Fiskveiðar, hvalveiðar og Keikó
Fyrir einskæra tilviljun fékk ég tækifæri til að sjá með eigin augum háhyrninginn sem „fór með hlutverk“ Free Willy. Var það í framhaldi þess að bandarískur auðkýfingur bjargaði honum úr dýragarði í Mexíkó og flutt hann með ærinni fyrirhöfn og kostnaði til Vestmannaeyja. Með skepnunni heppnu í för kom fjöldi bandarískra sérfræðinga til að hugsa um og „endurhæfa“ Willý eða Keikó eins og hann var nefndur.
Markmiðið var að hann gæti orðið aftur sjálfbjarga í náttúrunni. Vandamálið var að hann var kominn úr allri æfingu eftir langan og giftusamlegan feril sem kvikmyndastjarna. Fékk Keikó reglulega að fara út úr sjókví sinni og „æfa sig“ að synda frjáls sem fuglinn á opnu hafi. Sérfræðingaherinn fylgdi ferðum hans eftir úr þyrlu. Eftir að kvikmyndastjarnan endurheimti loks frelsi sitt og synti á vit náttúrunnar og örlöganna urðu sorgleg endalok hins frjálsa Keikó að finnast fljótlega örendur á norskri strönd.
Ég fór ásamt bandarískri sendinefnd að sjá Keikó árið 1999 en sendifulltrúarnir voru á landinu til að eiga fyrstu tvíhliða viðræður við íslensk stjórnvöld um sjávarútvegsmál. Til þessa höfðu allar slíkar viðræður strandað á mismunandi afstöðu til hvalveiða í atvinnuskyni. Í þetta sinnið var ákveðið að vera sammála um að vera ósammála enda höfðu bandarísk stjórnvöld m.a. mikinn áhuga á íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu.
„En viti menn: Ég féll kylliflöt fyrir hvalnum líkt og um krúttlegan hvolp væri að ræða!“
Starfs míns vegna fór ég með sendinefndinni til Vestmannaeyja til að skoða hinn heimsfræga hval. Viðhorf mitt gagnvart björgun Keikó og heimsókninni til hans var litað kaldhæðni svo ekki sé meira sagt en viti menn: Ég féll kylliflöt fyrir hvalnum líkt og um krúttlegan hvolp væri að ræða!
Keikó lék listir sínar af hinni mestu fimi en það gerði hann í undantekningartilvikum þegar gesti bar að garði að sögn umsjónamanna sinna. Eftir að hafa stokkið hæð sína í lofti og snúið sér eins og fimleikastjarna í hringi synti hann að kerbakkanum. Þangað kominn lyfti hann hausnum í átt að okkur og opnaði munninn einhvern veginn á þann hátt að helst leit út hann væri að skælbrosa til mín. Ég klappaði honum blíðlega á trýnið og vangann. Það tísti í mér og það hríslaðist um mig einhvers konar fögnuður yfir sköpunarverkinu. Við horfðumst í augu – ég og Keikó...Willy. Hann var vissulega risastór en alls ekki ógnvænlegur. Þvert á móti var hann ofursætur og vinalegur! Ég var uppnumin.
Sjálfbærar veiðar eða verndun
Þrátt fyrir örkynni mín af hinum yndislega Keikó var ég áfram hlynnt sjálfbærum veiðum úr hvalastofnum. Hélt áfram að halda þeim sjónarmiðum á lofti. Hafði alist upp við að borða hrefnukjöt og fannst það herramannsmatur líkt og íslenskt lambakjöt. Sá heldur engan mun á því að veiða og borða hrefnukjöt frekar en slátra lömbum að hausti og leggja mér til munns. Mér hafði fundist illa farið með veiðiríkið Ísland þegar stjórnvöld samþykktu tímabundið bann Alþjóðahvalveiðiráðsins við veiðum í atvinnuskyni árið 1982. Það var gert í þeirri góðu trú að sú takmörkun yrði endurskoðuð árið 1990 eða öllu heldur afnumin sem ekki varð úr.
Ég skildi ástæðuna fyrir því að Ísland sagði sig úr ráðinu árið 1991 í mótmælaskyni þegar bannið var ekki endurskoðað eða afnumið heldur áframhaldið. Ísland hafði verið aðili að ráðinu frá stofnun þess árið 1946 og stundað hvalveiðar frá árinu 1948 en það sama ár voru sett fyrstu lögin um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins á Íslandi. Ég skildi jafnframt harða gagnrýni íslenskra stjórnvalda þess efnis ráðið væri ekki að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Þvert á móti væri það fyrst og fremst að að stuðla að verndun og friðun í stað þess að tryggja að veiðar væru sjálfbærar. Ég skildi ennfremur ástæðuna fyrir því að Ísland stofnaði Atlantshafssjávarspendýraráðið við úrsögn sína úr Hvalveiðiráðinu ásamt Noregi, Færeyjum og Grænlandi. Það var gert til að undirstrika að Ísland væri ekki að segja sig úr lögum við aðrar þjóðir heldur mundi það áfram „uppfylla skyldur sínar samkvæmt 65. gr. hafréttarsamningsins um samstarf á vettvangi viðeigandi alþjóðastofnana um verndun hvala, stjórnun veiða á þeim og rannsóknir á þeim.“
Aðdragandi bannsins um hvalveiðar í atvinnuskyni
Aðdragandi banns Alþjóðahvalveiðiráðsins við veiðum í atvinnuskyni kom til sögunnar vegna ábendinga vísindamanna á 7. áratugnum um hættuna á ofveiði sumra hvalastofna. Fyrr hafði mikið verið sótt í olíuna og hvalalýsið til smurningar og lýsingar áður en steinolía kom til sögunnar. Tegundir eins og steypireyður eða bláhvalur voru nýttir með margvíslegum hætti þ.m.t. í snyrtivöruframleiðslu og voru í raunverulegri hættu á að deyja út vegna ofveiði.
Samhliða fóru dýraverndunarsinna að láta til sín taka sem leiddi til aukinna krafna um verndun og friðun. Tveir atburðir áttu síðan mestan þátt í því að bann Alþjóðahvalveiðiráðsins gekk í gildi. Hinn fyrri var umhverfisráðstefna Sameinuðu þjóðanna árið 1972 sem var haldin í Stokkhólmi. Sú ráðstefnan er talin marka upphaf samvinnu um umhverfismál á vegum Sameinuðu þjóðanna en alls tóku 113 lönd tóku þátt í henni auk fjölda félagasamtaka. Þar var m.a. rætt um dýr í útrýmingarhættu, sem hvalurinn verður táknmynd fyrir, og ályktun samþykkt um að stöðva allar hvalveiðar í 10 ár. Um leið verður hvalurinn að nokkurs konar táknmynd fyrir dýra- og umhverfisvernd.
Hinn vatnaskils atburðurinn varð síðar hið sama ár en þá gengu í gildi bandarísk lög um hvalveiðar í atvinnuskyni. Það sem er markvert við þau lög er að þau kveða á um möguleikann á að banna hvalveiðar út frá siðferðilegum eða tilfinningalegum rökum þrátt fyrir að vísindaleg rök finnist fyrir veiðum. Með gildistöku laganna var komið á móts við skoðun þeirra sem fannst dráp á hvölum óréttlætanleg með öllu. Um leið voru forsendur skapaðar fyrir því að flest ef ekki öll umræða um hvalveiðar yrði að sjóðheitu svart-hvítu álitamáli eins og sagan hefur svo sýnt.
Ályktun umhverfisráðstefnunnar og bandarísku lögin höfðu mótandi áhrif á Alþjóðahvalveiðiráðið. Tímabundið veiðibann var kynnt til sögunar árið 1982, eins og fyrr sagði, sem náði til allra hvalastofna. Rökin fyrir því að láta bannið ná til allra hvalastofna voru að það væri í varúðarskyni. Nefna má að það eru um 23 mismunandi hvalategundir að finna innan íslensku efnahagslögsögunnar sem veiddar hafa verið og nýttar í mismunandi mæli í gegnum tíðina sbr. hrefna, langreyður og sandreyður. Bannið gekk í gildi árið 1986 fyrir öll aðildarríki Alþjóðahvalveiðiráðsins nema þær stöku þjóðir sem nýttu sér rétt sinn til mótmæla.
Íslensk stjórnvöld höfðu andmælt banninu í umræðunni en samþykktu það annars vegar í þeirri góðu trú að bannið yrði endurskoðað eins og til stóð árið 1990 og hins vegar vegna þrýstings helst frá bandarískum stjórnvöldum er leiddi til ótta um lokun markaða fyrir sjávarafurðir frá Íslandi. Einu undantekningar frá banninu voru svokallaðar frumbyggjaveiðar og vísindalegar veiðar. Í kjölfarið kynntu íslensk stjórnvöld áætlun um vísindaveiðar frá árinu 1986-1989.
Árið 1990 þegar kom að endurskoðun bannsins árið 1990 hafði almenningsálitið víðsvegar í hinum vestræna heimi snúist enn meira gegn hvalveiðum frá því sem var á 8. og 9. áratugnum. Boðskapur kvikmynda eins og Free Willy frá árinu 1992 áttu þátt í því að festa veiðibannið enn frekar í sessi. Hinn óraunsæi vinskapur með stórhvelinu Willy og hinum 12 ára munaðarlausa dreng Jesse átti sinn þátt í þeirri hugarfarsbreytingu sem varð gagnvart hvölum og () hvalveiðum. Tuskudýr og annað dót í hvalsmynd höfðu verið framleidd í hundraðþúsundavís fyrir börn og unglinga til að undirstrika sérstöðu hvala í dýraríkinu. Mikið var vísað í meinta greind og vitsmuni þeirra og þar með líkindi þeirra með mannskepnunni undirstrikuð.
Í sama mund fór hið sama að gilda almennt um dráp á vitsmunaverum þ.e. jafnt mönnum og hvölum. Það þótti ekki siðlegt að drepa hval. Slíkt væri villimannslegt athæfi sviðað og um manndráp væri að ræða. Þar með var tóninn endanlega sleginn og hvalveiðar í atvinnuskyni voru meira og minna bannaðar alþjóðlega.
Tilfinningaleg og siðferðileg rök, óháð atriðum eins og stofnstærð og sjálfbærni veiða, höfðu fest rætur. Hins vegar nýttu Bandaríkin og nokkur önnur ríki heimild ráðsins til að leyfa frumbyggjum að veiða hvali með vísan til þess að um sjálfbærar veiðar til lífsviðurværis og viðhald menningararfleifðar væri að ræða. Heildarkvóti hvers árs er ákveðinn af Alþjóðahvalveiðiráðinu. Með undanþágunni má því segja að litið sé á samfélög frumbyggja sem frumstæð í einhvers konar félagslegum og siðferðilegum skilningi. Fara veiðar þeirra fram með fornum aðferðum sem falla ekki endilega að skilyrðum dýraverndar sem eru orðin, sem kunnugt er, helstu rökin fyrir afnámi allra veiða hérlendis.
Fortíðin og framtíðin
Árið 2001 gekk Ísland aftur í Alþjóðahvalveiðiráðið með fyrirvara um hinn svokallað núllkvóta frá 1982 en ástæða endurinngöngu var þróun innan ráðsins sem litið var á sem jákvæðar fyrir afstöðu og hagsmuni Íslands. Lutu þær breytingar m.a. að stjórn veiðanna. Árið 2006 voru atvinnuveiðar á hrefnu og langreyð hafnar að nýju á Íslandi á grundvelli fyrirvarans við endurinngöngu árið 2001 eftir að vísindaveiðar höfðu eingöngu verið stundaðar frá því að hvalveiðibannið tók gildi 1986. Hrefnuveiðar hafa meira og minna lagst af en eftir standa veiðarnar á langreyð sem hafa verið mikið í umræðunni og mótmælt undanfarið m.a. með þeim rökum að veiðarnar séu ómannúðlegar og óarðbærar. Í kjölfarið vaknar sú spurning hvers vegna íslensk stjórnvöld sýna mótþróa og heimila veiðar stórhvela þrátt fyrir að meirihluti almennings á Íslandi og alþjóðlega sé mótfallin þeim? Af hverju eru hvalveiðar ekki endanlega gefnar upp á bátinn?
Rökin með og á móti hvalveiðum: Hagsmunamat
Það eru bæði sögulegar og í raun tilfinningalegar ástæður fyrir „þvermóðskufullum“ stuðningi íslenskra stjórnvalda við hvalveiðar. Fjórum árum eftir að Ísland varð fullvalda ríki voru fyrstu lögin um vernd fiskistofna við strendur Íslands samþykkt eins og fyrr segir. Sama ár hófust hvalveiðar Íslendinga en fram að þeim tíma höfðu veiðar við Ísland verið stundaðar af öðrum þjóðum. Tilkoma laganna um vernd fiskistofna við strendur Íslands var vegna þess að Íslendingar áttuðu sig auðvitað á því að fullveldi þjóðarinnar yrði ekki tryggt nema það væri tryggt efnahagslega.
Árið 1952 var fiskveiðilögsagan færð út í 4 sjómílur. Það var gert til að varna ásókn erlendra fiskskipa og leiddi til vopnaðra átaka við breska heimsveldið allt til ársins 1976. Átökin um miðin voru kölluð þorskastríðið eða landhelgisstríðið og gengu út á að tryggja yfirráð hins fullvalda ríkis yfir sjávarauðlindum landsins. Þetta var í raun og veru hin raunverulega fullveldisbarátta Íslands að eftir að það varð formlega og stjórnmálalega sjálfstætt.
Fyrrgreindu lauk, ef svo má að orði komast, með fullnaðarsigri Íslands þegar Hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna gekk í gildi árið 1994. Í ljósi sögunnar hafa hvalveiðarnar einnig verið liður í því að undirstrika rétt fullvalda ríkisins Íslands til að taka sjálfstæðar ákvarðanir um sjálfbærar veiðar úr nytjastofnun innan sinnar eigin efnahagslögsögu. Árið 1986 má segja að hvalveiðistríð hafi brotist út þegar hvalfriðunarsinninn Paul Watson og samtök hans Sea Shepherd sökktu tveimur skipum Hvals til að mótmæla vísindaveiðum Íslendinga.
Munurinn á þorskastríðinu og „hvalveiðistríðinu“ er hins vegar sá að þorskastríðið leiddi til gerðar alþjóðasamnings, Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem tryggði mikilvæga lífshagsmuni Íslands á meðan ákvarðanir um hvalveiðar innan Alþjóðahvalveiðiráðsins, sem var sett á fót með alþjóðasamningi um stjórnun hvalveiða árið 1946, gróf undan þessu sömu hagsmunum frá og með 1982. Þessi breyting á meirihlutaafstöðu innan Alþjóðahvalveiðiráðsins var því alvarlegt mál í hugum íslenskra stjórnvalda enda litið á þessa kúvendingu sem nokkurs konar tilvistarógn sem væri bæði í mótsögn við samninginn sem liggur til grundvallar ráðinu og Hafréttarsáttmálann.
Smáríki eins og Ísland, sem á mikið undir því að bæði bókstafur og andi alþjóðasamninga sé virtur, hefur jafnframt óttast að bann á hvalveiðum í nýtingarskyni úr stofnun, sem þola veiðar, gæti skapað fordæmi fyrir aðrar veiðar. Skáldað dæmi væri að almenningur alþjóðlega og smásaman hérlendis vildi alfarið vernda þorsk vegna ofveiði einhvers staðar í heiminum. Yrði það að endingu til þess að tímabundið alþjóðlegt bann er sett á þorskveiðar. Það myndi gera það að verkum að framboðið er minna og grafið er undan mörkuðum sem leiðir til þess að veiðarnar hætta að vera arðbærar vegna minna framboðs og neyslu á þorski sem í auknum mæli er litið á sem „forboðna fæðu“. Þar með væri dregnið enn meira úr eftirspurn eftir þorski og lokun markaða að endingu óháð stofnstærð þorksins. Það er ekki líklegt að þetta gerist en þetta er hugsunarhátturinn og það sem hefur gerst í raun eftir að hvalveiðar í atvinnuskyni voru bannaðar af Alþjóðahvalveiðiráðinu.
Þannig má færa rök fyrir því að þetta sé ein meginástæðan fyrir stuðningi stjórnvalda við „málamyndaveiðar“ útgerðarinnar Hvals. Þær veiðar eru reknar með stórfelldu tapi ár eftir ár enda er enginn markaður eftir nema í Japan sem sagði sig úr Alþjóðahvalveiðiráðinu árið 2019 til að geta hafið atvinnuveiðar.
Meginreglan um réttinn til sjálfbærra veiða í ljósi annarra lífshagsmuna
Verndun sjálfsákvörðunarréttar til sjálfbærra veiða nytjastofna innan eigin efnahagslögsögu er aðalástæða þess að stjórnvöld láta engan segja sér fyrir verkum þegar kemur að hvalveiðum. Sá réttur er og hefur verið heilagur síðan árið 1948. Það er mikilvægt að standa vörð um þann rétt en stóra spurningin er hvort það þarf að vera án undantekninga. Undantekningin frá meginreglunni væru afnám veiða úr hvalastofnun. Til að bjarga sér frá því að skapa slæmt fordæmi gætu rökin fyrir afnámi hvalveiða verið aðrir hagsmunir sem vega hugsanlega meira en rétturinn til veiða og hvaða hagsmunir væru það?.
Samkeppni milli hvala og fiska
Eins og hefur komið fram í umræðunni undanfarið þá hefur jafnvægi í lífkerfi hafsins verið notað sem rök fyrir hvalveiðum. Því hefur verið haldið fram að ef hvalir séu ekki veiddir þá borði þeir „allan fiskinn“ sem hefur neikvæð áhrif á stærð annarra nytjastofna og þar með fiskveiðar og afkomu sjávarútvegsins.
Rannsóknir hafa hins vegar sýnt fram á að hvalir hafa mikilvægu hlutverki að gegna við að auka fæðuframboð fiska: „Hvalir munu ekki éta allan fiskinn í sjónum verði veiðum á þeim hætt. Rannsóknir sýna reyndar hið gagnstæða enda leika þeir lykilhlutverk í því að auka fæðuframboð fiska.“ Þar með er ein röksemdanna fyrir hvalveiðum fallin.
Hlýnun jarðar og kolefnisjöfnun
Í dag er komin til sögunnar alþjóðleg verslun með kolefniskvóta innan og utan viðskiptakerfis Evrópusambandsins um losunarheimildir. Hérlendis hefur Skógræktin verið í samstarfi við fyrirtækið Land Life um endurreisn skóga til kolefnisjöfnunar. Á vef Skógræktarinnar segir að fyrirtækið „fjármagni skógrækt á Íslandi“ en hið rétta er að önnur fyrirtæki greiða Land Life fyrir að halda utan um kolefnisjöfnun þeirra með skógrækt sbr. það sem segir um þjónustu Land Life á vefsíðu þess.
Skógrækt er vanalega litin jákvæðum augum en á sama tíma breytir gróðursetning mismunandi trjátegunda ásýnd landsins svo um munar. Sum svæði eru orðin eins og maður með blettaskalla enda skógræktarreiti að finna hér og þar innan um ósnortna náttúru fjalla og heiða. Fyrir þau okkar sem setja spurningarmerki við „skógræktaræðið“ í nafni kolefnisjöfnunar er sú uppgötvun sjávarlíffræðinga að hvalir, sérstaklega stórhveli, hafi mikil áhrif á föngun kolefnis úr andrúmsloftinu mikið gleðiefni. „Hvalir fanga að jafnaði 33 tonn af kolefni í skrokknum yfir æviskeiðið, á meðan tré á Íslandi fangar um 100 kíló á líftíma sínum. En það er ekki allt því hvalir hafa jákvæð áhrif á plöntusvif í hafi... en það er einmitt plöntusvif í hafi sem framleiðir helming þess súrefnis sem við öndum að okkur.“
Þetta er sérstaklega áhugavert í ljósi þess að hvölum hefði hugsanlega verið útrýmt ef steinolía hefði ekki komið til sögunnar og leyst hvalalýsi af hólmi. Steinolía hefur síðan átt sinn þátt í því ásamt notkun annars konar jarðefnaeldsneytis að gera jörðina mun óbyggilegri. Núna er bent á að í ljósi beinnar kolefnisupptöku hvala og óbeinnar súrefnisframleiðslu gangi hvalveiðar þvert á þjóðréttarlegar skuldbindingar sem leiða af EES-samningnum um loftslagsaðgerðir. Þær skuldbindingar eru mikilvægar og spurning hvort afnám hvalveiða gæti verið liður í því að efna þær og slá þar með tvær flugur í einu höggi og bæta orðspor landsins um leið?
Mannúðlegar veiðar – dýravernd
Þau sem hafa verið í forsvari fyrir herferðina Hvalir – Kvalir hafa bent á að hvalveiðar uppfylli ekki skilyrði dýraverndar með vísun til þess hversu kvalarfull og þar með ómannúðleg dráp hafa átt sér stað á stórhvelum, nánar tiltekið langreyðum, hér við Íslandsstrendur.
Að undangenginni skýrslu Matvælastofnunar (MATS) um framgang veiða á langreyðum og að beiðni MATS framkvæmdi fagráð um velferð dýra mat á því hvort sú veiðiaðferð sem beitt er við veiðar á stórhvelum samræmist ákvæðum laga nr. 55/2013 um velferð dýra. Niðurstaðan var sú að svo sé ekki og jafnframt að „[e]kki sé hægt að uppfylla þau skilyrði sem nauðsynleg eru til að tryggja velferð dýra við aflífun.“ Í kjölfarið frestaði matvælaráðherra tímabundið fyrirhuguðum veiðum á langreyðum, sem áttu að hefjast 21. júní, til 31. ágúst og sem nú ríkir ágreiningur um innan ríkisstjórnarinnar.
Hluti af menningu landsins
Að lokum hefur því verið haldið fram að hvalveiðar séu hluti af menningu okkar sem veiðisamfélags við Norður-Atlantshaf. Hins vegar þykja hvalveiðar, sem hófust ekki fyrr en 1948 á Íslandi og hafa frá upphafi verið atvinnuveiðar, ekki standast samanburð við t.d. grindhvaladráp Færeyinga sem hefur verið stundað með fornum aðferðum frá 11. öld eða nautaat Spánverja svo dæmi séu tekin. Þess má einnig geta að hvoru tveggja hefur verið gagnrýnt sem ómannúðleg meðferð á dýrum.
Hvert skal stefna?
Í ljósi sögunnar er það skiljanlega erfitt fyrir íslensk stjórnvöld að gefa eftir þegar kemur að skilgreindum lífshagsmunum sem byggja á meginreglunni um sjálfsákvörðunarrétt þjóða, ekki síst rétti eyríkis til sjálfbærra veiða úr nytjastofnum innan efnahagslögsögu sinnar. Svör utanríkisráðherra endurspegla það en hún hefur m.a. sagt að það sé siðferðilega réttlætanlegt að stunda sjálfbærar hvalveiðar og engir aðrir en íslensk stjórnvöld taki ákvarðanir um slíkar veiðar.
„Rökin fyrir að hætta hvalveiðum í atvinnuskyni eru einfaldlega þau að veiðarnar uppfylla ekki undantekningalaus lagaleg skilyrði um dýravernd og þær eru óarðbærar á meðan góðar tekjur er að hafa af hvalaskoðunarferðum.“
Hins vegar í ljósi sögulegra forsendna, almennra viðhorfsbreytinga og vísindalegra raka virðist rökrétta niðurstaðan vera sú að banna alfarið hvalveiðar í atvinnuskyni. Á sama tíma að undirstrika að bannið sé ekki fordæmisgefandi fyrir sjálfbæra nýtingu annarra nytjastofna innan efnahagslögsögu Íslands.
Rökin fyrir að hætta hvalveiðum í atvinnuskyni eru einfaldlega þau að veiðarnar uppfylla ekki undantekningalaus lagaleg skilyrði um dýravernd og þær eru óarðbærar á meðan góðar tekjur er að hafa af hvalaskoðunarferðum. Að lokum hafa stórhveli mikilvægu hlutverki að gegna við fæðuframleiðslu fiska og síðast en ekki síst kolefnisbindingu. Niðurstaðan er að það er fátt sem styður áframhaldandi hvalveiðar. Moby Dick lútir í gras. Free Willy rokkar.
Athugasemdir (1)