Sindri Snær Birgisson lofar hryðjuverkamanninn og fjöldamorðingjann Omar Mateen í einkaskilaboðum til Ísidórs Nathanssonar fimmtudaginn 11. ágúst 2022 með orðunum. „Omar Mateen er hetjan mín - Hann náði 40 manns á 5 mín með 200 skotum - Nokkuð gott - Hann drap rest með glock inni á baðherbergi [...] Ef hann hefði bara verið með nikótín.“ Þessu svarar Ísidór og segir: „Getum ekki öll verið fullkomin ): “
Þetta kemur fram í nýrri ákæru gegn Sindra og Ísidóri sem var þingfest í héraðsdómi Reykjavíkur á mánudag. Nýja ákæran er mun ítarlegri en sú fyrri sem var vísað frá, bæði í héraði og Landsrétti. Þeir neituðu báðir sök fyrir dómi en aðalmeðferð fer fram í september.
Ætlaði að dulbúa sig sem lögreglumann
Sindri er ákærður „fyrir tilraun til hryðjuverka, með því að hafa ákveðið að valda, með skot- og/eða sprengjuárás, hér á landi, ótilgreindum hópi fólks, á ótilgreindum stað og tíma, bana eða stórfelldu líkamstjóni eða stefna lífi þeirra í hættu með stórfelldum eignaspjöllum, í þeim tilgangi að valda almenningi verulegum ótta og veikja eða skaða stjórskipun og þjóðfélagslegar undirstöður ríkisins. Ásetning sinn til hryðjuverka sýndi ákærði ótvírætt í verki á tímabilinu maí til september 2022“ og síðan er rakið nánar á tíu blaðsíðum hvernig hann hafi gert það.
Hryðjuverkin hafi hann ætlað að fremja dulbúinn sem lögreglumaður. Í tölvusamskiptum er þeim Sindra og Ísidóri tíðrætt um ýmsa þekkta hryðjuverkamenn og fjöldamorðingja, til að mynda Anders Behring Breivik sem drap 77 manns í hryðjuverkaárásum í Osló og Útey árið 2011. Fjöldamorðin framdi Breivik dulbúinn sem lögreglumaður til að fólk teldi sér ekki standa ógn af honum.
Ísidór er ákærður „fyrir hlutdeild í ofangreindu broti Sindra, með liðsinni í orði og verki“ til að mynda með því að aðstoða hann við kaup á skotfærum í árásarrifflana AR-15 og AK47 „vitandi að meðákærði Sindri hafði í hyggju að fremja hryðjuverk“, með því að „senda til Sindra, á dulkóðaða samskiptaforritinu Signal, hvatningu og undirróður um að fremja hryðjuverk“, aðstoða hann við öflun lögreglubúnaðar og lögreglufatnaðar og „miðla til hans efni og upplýsingum um þekkta hryðjuverkamenn, hugmyndafræði, undirbúning og verknaðaraðferðir þeirra“ auk upplýsinga um sprengju- og drónagerð. Alls er ákæran gegn þeim tólf blaðsíður.
Rifflarnir algengir í hryðjuverkum og stríðsrekstri
Sunnudaginn 31. júlí í fyrra sendi Sindri skilaboð til Ísidórs og segir: „Fokk hvað ég er reiður út í fólk núna.“ Hann bætir við: „Shit hvað það var komið illa fram við mig í gær.“ og segir síðan: „Ég er á grensunni að fremja fjöldamorð bara núna.“
„Fokk hvað ég er reiður út í fólk núna“
Samkvæmt ákæru útvegaði Sindri sér árásarriflanna í júní 2022, keypti í þá skotfæri og breytti AR-15 rifflinum úr handhlöðnum riffli í hálfsjálfvirkan riffil. Þá hafi hann þrívíddarprentað íhlut með það fyrir augum að breyta vopninu úr hálfsjálfvirku vopni í sjálfvirkt skotvopn. Þegar riffillinn er hálfsjálfvirkur þarf að ýta á gikkinn fyrir hvert skot en skotgeymirinn inniheldur yfirleitt 30 skot. Ef riffillinn er sjálfvirkur þarf hins vegar aðeins að ýta einu sinni á gikkinn og halda honum inni til að skjóta öllum skotunum úr skotgeyminum.
Samtök bandarískra byssueigenda hafa kallað AR-15 „vinsælasta riffil Bandaríkjanna.“ Fyrr á þessu ári greindi The Washington Post frá því að AR-15 rifflar hefðu verið notaðir í 10 af 17 mannskæðustu skotárásunum í Bandaríkjunum. Rifillinn var til að mynda notaður í hryðjuverkunum í Uvalde í Texas þar sem 19 börn og tveir kennarar voru myrt, og 17 særðust.
NY Post birti árið 2016 greinina „How the AK-47 and AR-15 Evolved Into Rifles of Choice for Mass Shooting“ eða Hvernig AK-47 og AR-15 urðu fyrsta val fyrir fjöldaskotárásir.
AK-47 getur skotið 600 skotum á mínútu.
AK-47 rifflar voru notaðir í Víetmanstríðinu, þeir voru notaðir af Rússum og Kínverjum í Kalda stríðinu, og eru notaðir bæði af Rússum og Úkraínumönnum í stríðinu sem nú geisar. AK-47 getur skotið 600 skotum á mínútu.
Ítarleg leit að lögregluútbúnaði
Mánudaginn 1. ágúst 2022 ræða Sindri og Ísidór um lögreglubúnað og lögreglufatnað, og senda milli sín vefslóðir á síður þar sem hægt er að kaupa slíkan búnað og fatnað, að því er fram kemur í ákæru. Sindri Snær segir: „þetta með tetra talstöð væri svo spot on [...] 99% myndi trúa því að þú værir lögga ef þú segðir það upphátt í þessum galla [...] þau þurfa bara að trúa því í max 10 sek [...] það er enginn að fara að getað stoppað mig.“ Ísidór svarar: „jájá we get it Breivik.“
Seinna í ágústmánuði sendir Sindri skilaboð til Ísidórs og biður hann að óska eftir lögreglufatnaði á samskiptaforritinu Telegram: „Þá helst buxur, treyju, bolur og jakki.“ Þegar Ísidór spyr hvort þetta eigi bara að vera fyrir Sindra svarar hann: „Neinei eins mikið af fötum og við komumst í - Ég bara verð að eignast.“
Sindri virðist hafa varið þónokkrum tíma í að finna upplýsingar um og verða sér úti um lögreglufatnað og annan lögreglubúnað sem geri honum kleift að dulbúast sem lögreglumaður. Í ákærunni kemur fram að hann hafi tekið ljósmynd af einkennisklæddum lögreglumanni og nærmynd af skóbúnaði hans og endurskini á neðanverðum buxnaskálmunum, og sendi Ísidóri slíka mynd. Þá leitaði hann á netinu að efni tengdu endurskinsefni fyrir lögreglumenn, samskonar því sem er á íslenska lögreglubúningnum. Einnig hafi hann leitað að upplýsingum um skotheld vesti, aðgerðabúnað lögreglu og Tetra handtalstöðvar, og að Sindri og Ísidór hafi farið saman í verslun að skoða slíkar stöðvar.
Í ákærunni segir einnig að Sindri hafi vistað skjáskot úr stefnuyfirlýsingunni sem Breivik sendi frá sér fyrir fjöldamorðin, svokölluðu manifesto, þar sem fjallað er um einkennisfatnað fyrir Breivik og þá sem aðhyllast hugmyndafræði hans.
Vildu senda sprengjudróna á opinberar stofnanir
Sunnudaginn 28. ágúst sendi Sindri skilaboð þar sem hann, samkvæmt ákæru, leggur á ráðin að nota dróna til sprengjuárása: „Ég var að fá svaaaaaka hugmynd.“ Ísidór segir: „bring it.“ Og Sindri segir frá hugmyndinni: „Nú hættum við að prenta byssur og byrjum að prenda dronea - kaupum kínasull í þá og sprengiefni.“ Hann bætir síðan við: „úfff - það yrði sko fréttaefni.“ Ísidór bendir á að þeir gætu þá sent slíkan dróna á Alþingi, á lögreglustöðina og heim til Gunnars Smára Egilssonar, stjórnarformanns Sósíalistaflokksins.
Sindri bætir við að hann myndi líka vilja senda dróna í dómsmálaráðuneytið. Þeir deila síðan upplýsingum um hvernig eigi að smíða dróna, og tala um að fá á Google Earth GPS-hnit staðanna sem þeir vilji senda sprengjudrónana á.
„Það væri fréttaefni að senda 5 stk út í einu alla á mismunandi staði - heimsfréttaefni“
„Ætlarðu að reikna flight time deilt með hvenær í andskotanum gulli utanríkisráðherra labbar inní alþingi?“ spyr Ísidór, og á þar væntanlega við Guðlaug Þór Þórðarson sem þarna var raunar orðinn umhverfis- og auðlindaráðherra, en Sindri segir: „Þetta þarf ekki að vera svo útpælt - maðurinn labbar utandyra líka.“
Stuttu síðar í samtalinu segir Sindri: „það væri fréttaefni að senda 5 stk út í einu alla á mismunandi staði - heimsfréttaefni.“ Sem kunnugt er skildi Breivik eftir bíl hlaðinn sprengiefni við inngang byggingar í Osló þar sem skrifstofa Jens Stoltenberg, þáverandi forsætisráðherra Noregs, var til húsa í því skyni að sprengingin þar myndi fá alla athygli viðbragðsaðila á meðan hann sjálfur væri að fremja fjöldamorðin í Útey og gæti hann þannig valdið meiri skaða með því að dreifa athygli lögreglunnar.
Í eitt skiptið sem þeir ræða saman hvetur Ísidór Sindra til að vera ekki hvatvísan og bendir á að Breivik og Brenton Harrison Tarrant sem myrti 51 í hryðjuverkaárásum í moskum í Christchurch, Nýja Sjálandi, hafi verið í mörg ár að plana sín hryðjuverk. Tarrant notaði AK-15 riffil í annarri skotárásinni, mögulega báðum. Sindri svarar: „ég þarf ekki nema 3 mánuði - ég veit alveg hvar ég um strikea.“ Ísidór bendir þá á að það séu fjórir mánuðir í jólin og Sindri svarar: „ég fer nú ekki að kála fólki á jólunum.“
Fyrstu menn grunaðir um að skipuleggja hryðjuverk
Nýr veruleiki blasti við Íslendingum þegar lögreglan hélt blaðamannafund þann 22. september í fyrra og greindi frá því að tveir menn hefðu verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna gruns um að þeir væru að undirbúa hryðjuverk sem áttu að beinast gegn borgurum og stofnunum ríkisins. Aldrei áður hafði neinn verið í varðhaldi hér á landi grunaður um að undirbúa hryðjuverk og sagði BBC til að mynda frá þessum tíðindum í sjónvarpsfréttum.
Sindri og Ísidór voru brátt nafngreindir en ýmsir létu að því liggja, til að mynda lögmenn þeirra, að engin alvara væri þarna að baki og að of mikið væri gert úr málinu af hálfu lögreglu. Þetta var síðar sagt meðal annars eiga sér stoð í því að ákærum gegn þeim var vísað frá. Nú hefur þeim verið birt mun ítarlegri ákæra þar sem nánar er farið í það sem þeir eru sakaðir um og virðist málið því mun alvarlegra en áður hafði komið fram í fréttum.
Hér að neðan má sjá ákæruna í heild sinni.
Athugasemdir