Í nýútgefnum tölum Hagstofu um fæðingar í fyrra kemur fram að frjósemi hafi aldrei verið minni og í viðbrögðum við þessum upplýsingum hefur verið lögð áhersla á efnahagslegar afleiðingar lágrar fæðingartíðni.
Af sama tilefni hefur verið vakin athygli á mikilvægum rannsóknum í þessum efnum í Háskóla Íslands þar sem meðal annars er leitast við að leita skýringa á breyttum viðhorfum til barneigna. Lækkun fæðingartíðni á sér hins vegar ekki einfaldar skýringar og í þessari grein mun ég gera grein fyrir einni hlið málsins sem dregur það fram að ekki er endilega allt sem sýnist.
Á það má benda að þrátt fyrir lækkandi fæðingartíðni er Ísland enn í hópi þeirra Evrópulanda þar sem hún er hæst.
Mynd 1: Frjósemi (lifandi fædd börn á ævi hverrar konu) í löndum Evrópska Efnahagssvæðisins (auk Bretlands) 2021.
Myndin sýnir hversu mörg börn áætlað er að hver kona muni eignast að meðaltali yfir ævina miðað við stöðuna 2021. Þessi tala þarf að vera um það bil 2,1 til þess að mannfjöldi (án áhrifa búferlaflutninga) haldist óbreyttur til lengri tíma litið, þ.e. að hver kona eignist að meðaltali eitt stúlkubarn um ævina. Það eru einungis tvö lönd þar sem frjósemi er hærri en á Íslandi, Frakkland og Tékkland. Það er löngu liðin tíð að frjósemi sé hærri í kaþólskum löndum en þar sem trúarbrögð eru önnur. Að sönnu eru Frakkland og Írland meðal efstu landa en Ítalía og Spánn eru alveg á hinum endanum. Það er Pólland raunar líka og verður vikið að því síðar.
Íbúum landsins hefur fjölgað mjög á undanförnum árum, einkum vegna mikils aðflutnings fólks frá útlöndum. Þetta á ekki síst við um fjölda kvenna á s.k. fæðingaraldri en í alþjóðlegri tölfræði er miðað við aldursflokkana milli 15 og 44 ára. Sú skilgreining kann að orka vaxandi tvímælis enda mjög sjaldgæft að mjög ungar konur eignist börn, a.m.k. á Vesturlöndum, meðan konur sem eru eldri en 44 ára eignast nú börn í meira mæli en áður var. Þannig er miðaldur kvenna sem eignast sitt fyrsta barn nú orðinn 28,5 ár (þá er helmingur mæðra yngri en það og helmingur eldri) og hefur hækkað um 3,5 ár frá árinu 2000. Algengasti aldur frumbyrju er nú 29 ár en var 24 ár árið 2000. Þessi breyting hefur í för með sér að erfiðara er að spá fyrir um hver endanleg frjósemi hvers árgangs verður ef konur eru að velja það að eignast börn sín seinna á ævinni en ekki endilega að fækka þeim fjölda barna sem þær eignast.
Mynd 2 sýnir fjölda kvenna á Íslandi á aldursbilinu 15-44 ára undanfarin ár skipt eftir því hvort þær eru innlendar eða innflytjendur af fyrstu og annarri kynslóð.
Mynd 2: Fjöldi kvenna á aldursbilinu 15-44 ára eftir bakgrunni
Á myndinni sést hvernig fjöldi innlendra kvenna á þessu aldursbili hefur sárlítið breyst á þessari öld meðan fjöldi innflytjendakvenna hefur farið nær stöðugt vaxandi. Hlutfall innflytjendakvenna á fæðingaraldri var rúm 5% í aldarbyrjun en í byrjun síðasta árs var hlutfallið komið í 24% og fjöldinn hafði meira en fimmfaldast.
Þegar fjallað er um frjósemi og framvindu íbúafjöldans er nauðsynlegt að horfa til þess að íbúar landsins eru ekki lengur einsleitur hópur með tilliti til viðhorfs til barneigna. Þannig má rekja stóran hluta þeirrar lækkunar frjósemi sem tölur Hagstofunnar sýna til vaxandi hlutfalls innflytjendakvenna sem ekki eignast börn í sama mæli og innlendar konur. Þetta má sjá á mynd 3. Þarna munar umtalsverðu og vert að vekja athygli á því að frjósemi innflytjenda er næstum sú sama og í Póllandi eins og sýnt er á Mynd 1 en stærstur hluti innflytjenda kemur einmitt þaðan.
Mynd 3: Frjósemi eftir bakgrunni: lifandi fædd börn á ævi hverrar konu
Tölur um frjósemi fyrir hvert ár litast af fæðingum á því ári og eins og sjá má féll frjósemi innlendra kvenna árið 2022 eftir að hafa vaxið árið áður. Þarna kemur efalítið til að fæðingum fjölgaði í kjölfar Covid-faraldursins, líkt og gerðist einnig eftir hrun fjármálakerfisins. Því er alls ekki óeðlilegt að frjósemi lækki árið eftir.
Frjósemi innflytjendakvenna er mun lægri en innlendra og fór minnkandi fram til 2018 á sama tíma og hlutfall þeirra af heildarfjölda kvenna á þessu aldursbili sem búsettar eru í landinu fór vaxandi. Frjósemi innlendra kvenna hefur aftur á móti ekki breyst tiltakanlega frá 2017 ef tvö síðustu ár eru undanskilin. Það er því ekki ólíklegt af fæðingum fjölgi á ný í ár og á næstu árum og óþarfi að örvænta. Enn sem komið er er hins vegar ekki að sjá nein merki þess að innflytjendakonur færist nær innlendum að því er varðar viðhorf til barneigna.
Höfundur er skipulagsfræðingur.
Athugasemdir