Aðalsteinn Leifsson lætur af embætti ríkissáttasemjara á morgun, 1. júní, að eigin ósk, samkvæmt því sem segir í tilkynningu frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu sem birt er á vef Stjórnarráðsins.
Aðalsteinn hefur gegnt embættinu frá 1. apríl 2020, eða í rúm þrjú ár. Í tilkynningu ráðuneytisins segir að embættið verði auglýst laust til umsóknar á næstu dögum.
Jafnfram kemur þar fram að ákveðið hafi verið að Ástráður Haraldsson héraðsdómari verði tímabundið settur í embættið frá og með morgundeginum og þar til skipað verður í embættið.
Ástráður var einmitt sá sem leysti Aðalstein af hólmi sem ríkissáttasemjari í deilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins í upphafi ársins.
Aðalsteinn taldi sig knúinn til þess að víkja sæti í deilunni í kjölfar þess að Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að Efling hefði ekki þurft að afhenda embætti ríkissáttasemjara kjörskrá stéttarfélagsins, vegna miðlunartillögu sem embættið hafði lagt fram.
Í kjölfar þess máls var boðað að stjórnvöld hygðust leggja fram frumvarp sem gerði ríkissáttasemjara kleift að láta atkvæðagreiðslu fara fram um miðlunartillögur sínar.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra boðaði svo í byrjun apríl að slíkt frumvarp yrði ekki lagt fram og samþykkt fyrir þinglok í vor, þar sem viðhafa eigi frekara samráð við verkalýðshreyfinguna um málið.
Athugasemdir (1)