Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem fallist var á kröfu um að karlmaður víki úr dómsal á meðan eiginkona hans og sonur gefa skýrslu við aðalmeðferð dómsmáls gegn honum.
Karlmaðurinn kærði úrskurð héraðsdóms og krafðist þess að hann yrði felldur úr gildi.
Sætti nálgunarbanni
Í málinu er manninum gefin að sök fjölmörg brot gegn eiginkonu sinni og syni á tímabilinu 16. febrúar 2022 til 1. febrúar 2023. Meint brot eru rakin í fjórtán töluliðum í ákæru en þau áttu sér stað á meðan maðurinn sætti nálgunarbanni þar sem honum var óheimilt að setja sig í samband við eiginkonu sína og son.
Þá er hann ákærður fyrir skjalafals með því að hafa falsað umboð til að afla læknisfræðilegra gagna um eiginkonu sína. Maðurinn neitar sök og er nú vistaður á geðdeild vegna málsins á grundvelli úrskurðar Landsréttar.
Lögum samkvæmt á ákærði rétt á að vera viðstaddur aðalmeðferð máls. Samkvæmt sömu lögum getur dómari, að kröfu ákæranda eða vitnis, ákveðið að ákærða skuli vikið úr þinghaldi meðan vitni gefur skýrslu, telji hann að nærvera ákærða geti orðið vitninu sérstaklega til íþyngingar og haft áhrif á framburð þess.
„Hún óttast að skjálfa og að hún vaði úr einu í annað og fari að gráta“
Í málinu var lagt fram vottorð frá verkefnastýru í Kvennaathvarfinu sem jafnframt er ráðgjafi konunnar. Þar kemur fram að hún hafi komið í 46 viðtöl þar eftir dvöl hennar í athvarfinu í janúar og febrúar 2022. Í vottorðinu segir meðal annars: „Að sögn A þá kvíðir hún því að hafa [varnaraðila] í salnum, hún kvíðir því að hann stari á hana, hún finnur fyrir stressi og miklum kvíða þegar hún hugsar til þess að hún þurfi að mæta honum. Hún óttast að skjálfa og að hún vaði úr einu í annað og fari að gráta“.
Geti haft afleiðingar til framtíðar
Um drenginn segir í vottorðinu að sú staðreynd að „barn þurfi í réttarsal að lýsa hvernig faðir hans [hafi] brotið á honum og fjölskyldunni hans, í hans viðurvist, [setji] mikla ábyrgð á barnið og [geti] haft alvarlegar afleiðingar á líðan hans til framtíðar.“
Samkvæmt niðurstöðu Landsréttar „verður að telja að nærvera varnaraðila við skýrslugjöf brotaþola yrði þeim sérstaklega til íþyngingar og sé líkleg til að hafa áhrif á framburði þeirra.“ Því skuli hann víkja úr dómsalnum þegar þau gefa skýrslu.
Manninum verði hins vegar gert kleift að fylgjast með skýrslutökum yfir mæðginunum utan dómsalar og koma að spurningum. Aðalmeðferð í málinu er áætluð í byrjun júní.
Athugasemdir