Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Friður hins heilaga refs?

Hefðu Bret­ar átt að semja frið við Hitler ár­ið 1940 til að koma í veg fyr­ir frek­ara mann­fall?

Friður hins heilaga refs?

Rétt í þann mund að leiðtogafundur Evrópuráðsins var að hefjast í Reykjavík á dögunum birtist furðuleg yfirlýsing „hóps friðarsinna“ á Vísir.is. Þar var skorað „á leiðtoga evrópskra ríkja að stöðva stríðið í Úkraínu nú þegar“ og „byrja friðarferlið strax í dag“.

Þótt ekki skuli efast á nokkurn hátt um einlægan friðarvilja hópsins var yfirlýsingin furðuleg í ljósi þess að „leiðtogar evrópskra ríkja“ (utan tveir) hafa ekkert yfir þessu stríði að segja og ekki á þeirra valdi að „stöðva [stríðið] tafarlaust með skilyrðislausu vopnahléi“, eins og einnig sagði í yfirlýsingunni. Úkraínumenn vilja ekki gefast upp fyrir Rússum eða semja um eitthvað sem verðlaunar Rússa fyrir hina villimannlegu innrás þeirra, svo krafa hópsins um „skilyrðislaust vopnahlé“ felur í raun í sér að „leiðtogar Evrópu“ eigi að knýja Zelensky forseta til „friðarferlis“ með því að hætta öllum stuðningi við hervarnir Úkraínu.

Aðeins þannig – ég ítreka þetta, aðeins þannig verður stríðið í Úkraínu „stöðvað tafarlaust“. Og í plagginu kemur fram það álit hópsins að stríðið í Úkraínu snúist um „ágreining ríkja“. Engin innrás nefnd, enginn yfirgangur, nei, „ágreiningur ríkja“.

Nú má skömm þeirra vera lengi uppi sem krefjast þess undir fölskum eða fávísum forsendum af Úkraínumönnum að þeir beygi sig fyrir útlensku innrásarliði og stríðsglæpamönnum.

Glatað trausti þjóðarinnar

En kannski hafa að minnsta kosti sum þeirra sem skrifuðu undir ekki áttað sig á því hvað þau voru í raun að skrifa undir. Það er ævinlega fallegra að lýsa yfir stuðningi við frið en stríð. Og þetta mætti sosum afsaka, þótt illt sé að skrifa undir yfirlýsingar um mikilsverð mál án þess að hugsað sé út í hvað þær þýða í raun, nema vegna þess að eins og vanalega má finna dæmi úr sögunni sem fólk hefði átt að líta til áður en það hóf penna sinn á loft.

Þar sem krafa um „frið“ felur í raun í sér að fallist er á enn meiri hörmungar en fylgir yfirstandandi stríði.

Og þau dæmi eru auðfundin.

Og eitt blasir alveg við.

En ljótt er það.

Síðari heimsstyrjöldin hófst með því að Hitlers-Þýskaland og síðan Sovétríki Stalíns lögðu undir sig Pólland í september 1939. Bretland og Frakkland lýstu yfir stríði á hendur Þjóðverjum en fóru mjög halloka fyrstu misserin. Snemma í maí 1940 var ljóst að Neville Chamberlain, forsætisráðherra Bretlands, hafði glatað trausti þjóðar og þings til að leiða Breta gegnum stríðið. Þá töldu íhaldsmenn lífsnauðsynlegt að taka Verkamannaflokkinn í stjórnina en flokkurinn neitaði að setjast í stjórn undir forystu Chamberlains.

Íhaldsflokkurinn kom því saman til að velja nýjan leiðtoga. 

Vammlaus og kirkjusækinn

Tveir komu til mála. Annar var Halifax lávarður, rétt tæplega sextugur þá, hafði verið í pólitík allt sitt líf, rólyndur maður, sjálfsöruggur í fasi, pottþéttur og samviskusamur en ekki hugmyndaríkur, afar hávaxinn, innmúraður og innvígður í bresku yfirstéttina. Hann var kallaður „heilagi refurinn“ („holy fox“) af því hann var svo vammlaus og kirkjusækinn og lét hunda sína drepa refi við hvert tækifæri eins og breskum aðalsmönnum sæmdi.

Og svo náttúrlega af því „holy fox“ hljómar næstum eins og Halifax.

Halifax hafði verið utanríkisráðherra Chamberlains frá 1938 og tók þátt í þeim alræmda fundi í München í september það ár þegar Bretar og Frakkar afhentu Hitler stóran hluta Tékklands á silfurfati.

Hinn var Winston Churchill, hálfsjötugur og hafði verið meðal mest áberandi en um leið umdeildustu stjórnmálamanna Breta í áratugi. Hann var skjótráður en oft fljótfær, barmafullur af hugmyndum en þær ekki allar jafngóðar, tæplega meðalmaður á hæð, hvikur, bjó yfir snert af snilligáfu en átti mjög til að strjúka liggjandi köttum öfugt.

Hvað var í viskíglasinu?

Mjög auðvelt er að herma ýmsar sakir og sumar alvarlegar upp á Churchill en þær verða látnar liggja milli hluta hér. Þó skal tekið fram að drykkjuskapur Churchills er gjarnan mjög ýktur; það viskíglas sem hann hafði einlægt í hendi innihélt aðallega vatnssull – „fremur munnskol en áfengi“ sagði einhver sem dreypti á glasi hans.

Enginn vafi er á því að meirihluti þingmanna Íhaldsflokksins hefði heldur kosið Halifax en Churchill. Lávarðurinn vinstrihandarlausi var maður kerfisins, þeirra maður. Churchill áttu þeir bágt með að treysta af ýmsum ástæðum og það var einlægt vesen í kringum hann.

Á hinn bóginn var Churchill augljóslega meira drífandi maður en hinn hægláti Halifax. Ekki var heldur hægt að neita því að hann hafði haft rétt fyrir sér um hættuna af Hitler árin á undan meðan þeir Chamberlain og Halifax óðu enn í villu um að hægt væri að hafa hemil á nasistaforingjanum með vanalegri diplómasíu.

Churchill verður ofan á

Svo fór að Churchill varð ofan á í leiðtogavali 10. maí. Kannski var ástæðan sú að Halifax gerði sér sjálfur grein fyrir að Churchill yrði röggsamari stríðsleiðtogi, en kannski hikaði utanríkisráðherrann bara of lengi. Hann var vanur því að láta ganga á eftir sér eins og „herramönnum“ sæmdi. Altént varð afar örlagaríkt á næstu vikum að hinn herskái Churchill en ekki Halifax sat í Downingstræti 10.

Því sama dag hófst árás Þjóðverja í vestur og gekk satt að segja eins og í lygasögu. Eftir aðeins tvær vikur var ljóst að hinn mikli franski her var að falli kominn og kröfur um vopnahlé (það er að segja uppgjöf) orðnar háværar í Frakklandi.

Þeir sem vildu umfram allt friðmælast við Þjóðverja spurðu gjarnan þau dægrin af hverju þeir ættu að hætta lífi sínu fyrir þá bresku lávarða, sem rækju stríðið áfram og ætluðu sér að „berjast til síðasta Frakka“.

(Þeir tóku í alvöru svona til orða, sjá Le Chagrin et la Pitié eftir Marcel Ophuls.)

En allt gekk á afturfótunum hjá Bretum líka.

Milliganga Mussolinis?

Og þá lagði Halifax fram þá tillögu í bresku stríðsstjórninni að leitað yrði hófanna um „frið“ við Þjóðverja. Af því sem á eftir fylgdi er æsileg saga sem ekki er tóm til að rekja hér en um tíma virtist raunveruleg hætta á að tillaga Halifax næði fram að ganga. Svo fór þó að Churchill náði að kveða hana í kútinn.

Hann var vissulega ekki einn um að vísa á bug kröfum um að „stöðva stríðið [í Frakklandi] þegar í stað“ með því að koma á „skilyrðislausu vopnahléi“.

Verkamannaflokkurinn studdi Churchill til dæmis dyggilega að þessu leyti og vildi enga uppgjöf.

En ef Halifax hefði orðið forsætisráðherra 10. maí, þá er þó sannarlega hætt við að hann hefði náð að „byrja friðarferlið“ með milligöngu Mussolinis, fasistaleiðtoga Ítalíu, eins og hann taldi æskilegt.

Pútin skýtur upp kollinum

„Hætta á … hætt við“? Hvaða orðalag er þetta?

Hefði ekki verið undir öllum kringumstæðum æskilegt að „úkljá ágreining [þessara] ríkja“ með því að „ræða og semja um langvarandi frið“? – svo ég vitni enn í yfirlýsingu „hóps friðarsinna“ árið 2023.

Reyndar ekki.

Skoðum það. Nú er að sönnu óvíst hversu lágt Bretar hefðu þurft að leggjast á þessum erfiða tímapunkti til að tryggja sér „vopnahlé“ við Þjóðverja. Í raun hefði auðvitað falist í þessu uppgjöf, rétt eins og í kröfu um „skilyrðislaust vopnahlé í Úkraínu“ býr ekkert annað en krafa um uppgjöf Úkraínumanna, algjöra eða að stórum hluta.

Pútín Rússlandsforseti býður ekki upp á neitt annað. Svo einfalt er það eftir það sem á undan er gengið.

Flotinn bundinn við bryggju

Í allra besta falli hefðu Bretar árið 1940 þurft að binda flota sinn við bryggju, leysa upp flugherinn og veita Þjóðverjum aðgang að „vopnahléseftirliti“ á æðstu stöðum í Bretlandi.

Bretar hefðu kannski ekki verið hernumdir en alveg múlbundnir. Þjóðverjar hefðu þá haft frjálsar hendur um aðdrætti og útflutning á Atlantshafi. Verðmætir málmar til hernaðarframleiðslu og ómælt eldsneyti hefðu streymt til uppbyggingar á hernaðarvél Hitlers.

En innrásin í Sovétríkin sumarið 1941?

Hún misheppnaðist að lokum eins og við vitum. Ástæðurnar voru ýmsar. Óþrjótandi mannfjöldi Rauða hersins sem Stalín fórnaði hiklaust. Miklu meiri og fullkomnari hergagnaframleiðsla Sovétmanna en Þjóðverja óraði fyrir. Og síðast en ekki síst gríðarleg aðstoð sem Sovétmönnum barst frá Bretlandi og þó fyrst og fremst Bandaríkjunum frá og með 1941.

En ef Bretar hefðu samið við Þjóðverja 1940 hefðu hersveitir Hitlers þá átt mun meiri möguleika á að sigra Rauða herinn.

Drepa átti hundruð milljóna

Fyrir því eru ýmsar herfræðilegar ástæður sem ekki er tóm til að rekja hér (innrásin hefði til dæmis getað hafist fyrr), en ég nefni bara þetta: Þótt Franklin Roosevelt Bandaríkjaforseti fyrirliti nasistastjórnina í Þýskalandi vissulega af öllu hjarta og vildi ólmur fá að taka þátt í að knésetja hana, þá er útilokað að hann hefði séð sér fært að koma til liðs við Stalín 1941 ef Bretar hefðu ekki verið til staðar í stríðinu.

Og ef Hitlers-Þýskaland hefði þá náð að leggja undir sig Evrópuhluta Sovétríkjanna til frambúðar, hvað þá?

Við vitum hvað hefði gerst þá. Þjóðverjar voru búnir að gera um það nákvæm plön sem byggðust reyndar á yfirlýsingum sem Hitler hafði gefið alveg blygðunarlaust í bók sinni Mein Kampf árið 1925.

Það átti einfaldlega að tortíma öllum Rússum, Úkraínumönnum, Hvítrússum, Tartörum, Pólverjum, að ekki sé minnst á Gyðinga og Rómafólk … það átti að þræla út og síðan drepa með vopnum, gasi og þó aðallega hungri hundruð milljóna manna, eyða heilu þjóðunum, svo kynhreinir Þjóðverjar gætu eftirleiðis haft það huggulegt á búgörðum sínum á pólsku og úkraínsku og rússnesku sléttunum.

„Kynhreinir Þjóðverjar gætu haft það huggulegt á búgörðum sínum á pólsku og úkraínsku og rússnesku sléttunum.“

Klíkur innan yfirstéttar

Til þessa hefði „friðarkrafa“ Halifax lávarðar og nóta hans mjög auðveldlega getað leitt.

Sú krafa sem ekki var sett fram af því Halifax væri einhvers konar undirlægja Þjóðverja og hvað þá nasista, heldur einfaldlega af því hann vildi ekki berjast fram í rauðan dauðann.

Ýmsir friðarhópar á Bretlandi tóku undir kröfuna um „tafarlaust vopnahlé“. Það voru bæði einlægir friðarsinnar sem mundu hrylling fyrri heimsstyrjaldar en ekki síður klíkur innan yfirstéttarinnar þar sem Þjóðverja- og jafnvel nasistavinir leyndust furðu víða.

En Churchill, Attlee, leiðtogi Verkamannaflokksins, og félagar tóku sem betur fer ekki undir friðarkröfurnar.

Því það hefði nærri því áreiðanlega leitt til enn hræðilegri hörmunga en þó riðu yfir næstu árin.

Ekki vitur eftir á

Og vel að merkja er það ekki að vera „vitur eftir á“ að varpa öndinni léttar yfir því að ekki skyldi hlustað á friðarhópana 1940.

Það var ekki af „stríðsæsingum“ sem kröfunum um friðarumleitanir við Þjóðverja var hafnað.

Churchill var að sönnu enginn friðarsinni, nokkuð langt frá því jafnvel, en ástæða númer eitt, tvö og þrjú fyrir staðfestu hans var þó sú að hann hafði glöggskyggni og hugrekki til að horfast í augu við einræðisherrann.

Og átta sig á hvað hann sá þar.

Einskæra illsku.

Kjósa
31
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (5)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Páll Pálsson skrifaði
    Þad hjàlpađi líka samnigur stalin vid japan ....hvenin hefđi orustan um mosku fariđ ef ussar hefdi ekki getaď flutt hermen frà austur kyrahafi ..hefđu japnir ràđist à russa í stađin fyrir perl harbur
    0
  • Tjörvi Schiöth skrifaði
    Svar mitt við þessu:
    https://m.facebook.com/story.php?story_fbid=10219640059147109&id=1685374526
    -1
  • Ásgeir Överby skrifaði
    "Og síðast en ekki síst gríðarleg aðstoð sem Sovétmönnum barst frá Bretlandi og þó fyrst og fremst Bandaríkjunum frá og með 1941."
    Aðstoðin barst að mestu með skipalestum til íshafshafna sovétríkjanna. Kostaði miklar mannfórnir að ótöldum öðrum kostnaði. Pútín er hljóður um þetta á friðardaginn þegar hann hrósar Stalín. Yngri kynslóð rússa veit varla af þessu.
    6
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Flækjusagan

Nýtt efni

Ópera eða þungarokk? - Áhrif smekks á viðhorf annarra til okkar
Samtal við samfélagið#8

Ópera eða þung­arokk? - Áhrif smekks á við­horf annarra til okk­ar

Hef­ur smekk­ur okk­ar áhrif á hvernig aðr­ir meta okk­ur? Mads Meier Jæ­ger, pró­fess­or við Kaup­manna­hafn­ar­skóla, svar­aði þeirri spurn­ingu á fyr­ir­lestri sem hann flutti ný­lega á veg­um fé­lags­fræð­inn­ar og hann ræddi rann­sókn­ir sín­ar í spjalli við Sigrúnu í kjöl­far­ið. Því hef­ur oft ver­ið hald­ið fram að meiri virð­ing sé tengd smekk sem telst til há­menn­ing­ar (t.d. að hlusta á óper­ur eða kunna að meta ostr­ur) en lægri virð­ing smekk sem er tal­inn end­ur­spegla lág­menn­ingu (t.d. að hlusta á þung­arokk eða vilja bara ost­borg­ara). Á svip­að­an hátt er fólk sem bland­ar sam­an há- og lág­menn­ingu oft met­ið hærra en þau sem hafa ein­ung­is áhuga á öðru hvoru form­inu. Með meg­in­d­leg­um og eig­ind­leg­um að­ferð­um sýn­ir Mads fram á að bæði sjón­ar­horn­in skipta máli fyr­ir hvernig fólk er met­ið í dönsku sam­fé­lagi. Dan­ir álíta til dæm­is að þau sem þekkja og kunna að meta hluti sem tengj­ast há­menn­ingu fær­ari á efna­hags­svið­inu og fólk ber meiri virð­ingu fyr­ir slík­um ein­stak­ling­um en þau sem að geta bland­að sam­an há-og lág­menn­ingu eru tal­in áhuga­verð­ari og álit­in hafa hærri fé­lags­lega stöðu. Þau Sigrún ræða um af hverju og hvernig slík­ar skil­grein­ing­ar hafa áhuga á mögu­leika okk­ar og tæki­færi í sam­fé­lag­inu. Þau setja nið­ur­stöð­urn­ar einnig í sam­hengi við stefnu­mót­un, en rann­sókn­ir Mads hafa með­al ann­ars ver­ið not­að­ar til að móta mennta­stefnu í Dan­mörku.

Mest lesið undanfarið ár