Það er tómlegt í miðbæ Reykjavíkur fyrir hádegi þriðjudaginn 16. maí, en eftir aðeins örfáar klukkustundir munu leiðtogar Evrópuráðsins ganga hver af öðrum inn í Hörpuna þar sem fundað verður um Úkraínu og stöðu lýðræðis. Túristar ganga ringlaðir um göturnar og fáa Íslendinga er að finna meðal þeirra.
Fyrir utan stærstu hótel miðbæjarins standa lögregluþjónar í viðbragðsstöðu og sjá má grænklædda hermenn í vestum fylgjast með gangandi vegfarendum.
„Ég er bara pínu að hlæja. Mér finnst þetta vera svo ýkt einhvern veginn. Svolítið mikið öryggisgæsla fyrir hvað sem gæti komið upp á Íslandi,“ sagði Julia Mai Linnéa Maria.
Julia veltir fyrir sér hver kostnaðurinn er við að kaupa vopn handa löggæslumönnum, þá sérstaklega byssur. Henni finnst „út í hött“ að verið sé að kaupa þær fyrir íslenska skattpeninga.
Fundurinn kostar um tvo milljarða. Þegar Julia áttaði sig á því að það væru skattgreiðendur sem greiða fundarkostnaðinn spurði hún: „Af hverju er mér þá ekki boðið?“. Julia telur að hægt hafi verið að eyða peningnum í margt annað sem snertir málefni fólks hér innanlands, til dæmis í að betrumbæta líf þeirra sem búa á Ásbrú á vegum Útlendingastofnunar.
Kristinn Atlason sagði fátt fólk vera á kreiki en hann var í hjólatúr þegar Heimildin náði tali af honum skammt frá Hörpu. Ólíklegt er að niðurstaða komi úr fundinum samkvæmt Kristni: „Þetta er svo stór fundur, það kemur aldrei neitt út úr þeim".
Betur hefði mátt fara með fjármagnið sem þarf til að halda fundinn að mati Kristins en hann nefnir heilbrigðiskerfið og kjör eldri borgara sem dæmi.
Um stöðu lýðræðis segir Kristinn að einræðisherrar séu orðnir sýnilegri. „Það eru einræðisherrar farnir að sýna sig eins og í Tyrklandi og Ungverjalandi." Hann telur þessa þróun þó ekki ógna Íslendi og segir okkur í nokkuð góðri stöðu innan Evrópu. „Við höfum rödd og getum sagt okkar álit og erum frjálsir."
Ferðakonurnar og hjúkrunarfræðingarnir Taron og Natalie eru fæddar í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum. Þær höfðu ekki hugmynd um hvað ætti sér stað í Reykjavík í dag. „Við sáum eitthvað í gær sem við settum spurningarmerki við," sagði Natalie og Taron bætti við að þær hefðu séð ýmis skilti, lögreglumenn og fólk í jakkafötum.
Aðspurðar töldu Taron og Natalie sig ekki geta spurt leiðtoga Evrópu að neinu sérstöku heldur þyrfti fyrst að leysa vandamál innan Bandaríkjanna. „Ég held við getum ekki spurt að neinu, fyrst þurfum við að leysa úr þeim málum sem bíða okkar heima," sagði Natalie og bætti við: „Við erum báðar hjúkrunarfræðingar þannig að heilbrigðiskerfið er eitt af því stærsta." Taron sagði Bandaríkjamenn einnig standa frammi fyrir vandkvæðum vegna skotvopna.
Stefán Örn Stefánsson hefur aldrei séð eins margar lögreglur og finnst það vitleysa að verið sé að halda fundinn í Reykjavík. Aðspurður hvers vegna sagði Stefán: „Af því að... af hverju geta þau ekki bara hist í Danmörku eða eitthvað? Ég veit það ekki. Hvað eru þau að þvælast alla leiðina hingað?"
Eins og áður kom fram kostar fundurinn um það bil tvo milljarða „sem er alveg út úr kortinu fjárhæð," samkvæmt Stefáni.
„Það er hægt að nýta þetta í svo margt annað. Bara innviði hérna í þjóðfélaginu, bara algjörlega. Í málefni sem skipta okkur meira máli en einhver svona skrípaleikur. Og ég veit ekki einu sinni hver tilgangurinn er með þessu, að ræða málefni Úkraínu… ég skil þetta bara ekki."
„Það er færra fólk, það er eins og það haldi sig í burtu frá miðbænum," segir Lilja Sólrún Jónsdóttir. Henni finnst ekki að fundurinn ætti að vera hér. „Við erum bara alltof lítil þjóð til að taka á móti svona stóru lögregluliði og fólki sem að er mikilvægt. Við höfum ekki mikið bolmagn til þess."
„Hvað með allt fólkið hérna heima? Allt sem að þarf á aðstoð að halda. Af hverju ekki að eyða peningunum í það? Það finnst mér miklu mikilvægara heldur en að halda svona stóran fund. Hverju skilar fundurinn?"
Athugasemdir