20. september í fyrra hélt Hvalur 8, annað af hvalveiðiskipum Hvals hf. til veiða að kvöldi. Fyrr um daginn hafði áhöfnin veitt eina langreyði, rúmlega 18 metra langa kú. Siglt er út á Selvogsbanka, suður af Reykjanesskaga. Og um klukkan 19.30 eru þeir komnir með aðra langreyði í sigtið. Hún er ekki ein á ferð. Þær synda þarna saman tvær.
Það er ágætt í sjóinn, þurrt og enn nokkuð bjart þótt húmið vofi yfir.
Sú sem syndir nær skipinu kemur upp til að blása. Anda. Það er á þessu augnabliki sem hleypt er af. Hár hvellur kveður við. Sprengiskutullinn, sem notaður er við veiðarnar, hæfir dýrið. Í kviðarholið.
En skotið veldur því ekki bana. Fimm skutlum til viðbótar, þar af tveimur sem geiga, á eftir að skjóta að þessari tæplega 20 metra löngu langreyðarkú, á tveggja klukkustunda tímabili, áður en yfir lýkur.
Á milli fyrsta skotsins og þess síðasta á hún margsinnis eftir að koma upp á yfirborðið, synda og blása kröftuglega. Anda. Stundum blóði. Um tíma með þrjár taugar úr sprengiskutlum í sér.
Dauðastríð kýrinnar, sem stóð í 120 mínútur, var tekið upp af eftirlitsmanni á vegum Matvælastofnunar sem var, samkvæmt nýrri reglugerð sem Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra gaf út síðasta sumar, að fylgjast með velferð hvalanna. MAST gaf út skýrslu sína um síðustu sumarvertíð Hvals hf. í byrjun vikunnar. Meðal gagna sem sérfræðingar MAST byggðu niðurstöður sínar á eru myndbönd eftirlitsmannanna.
Heimildin hefur fengið aðgang að hluta myndefnisins.
Um klukkan 20.30 er farið að skyggja. Sjórinn er dimmblár og áhöfnin á Hval 8 er búin að kveikja á sterkum kastara á þilfarinu. Þeir fylgja langreyðinni eftir með ljósinu. Hún blæs. Og henni blæðir.
Stundum er eins og sá sem kastaranum stýri missi sjónar af henni. Því hún kafar reglulega. Stundum nokkuð lengi í einu.
Himininn við sjóndeildarhringinn er fölbleikur. Hann á eftir að skipta litum, verða fjólublár, dimmblár og loks svartur, allt þar til markmiðinu verður náð: Að drepa þennan hval.
Það strekkist á tauginni sem er föst við sprengiskutulinn og á að tryggja að skotið dýr syndi ekki sært á haf út. Hún er enn að synda. Kemur upp og blæs. Úr henni fossar blóð.
Þegar klukkuna vantar um 20 mínútur í níu er skollið á niðamyrkur. Og öðru skoti er hleypt af. Skutullinn þýtur um loftið og hæfir kúna, rétt framan við annað bægslið. Blóðflekkurinn er áberandi í ljósi kastaranna af skipinu.
Hún berst enn um. Með tvær taugar fastar í sér. Tvo skutla í líkamanum.
Skipverjarnir hlaða byssuna enn einu sinni. Kastarinn fylgir enn dýrinu sem blæs, syndir og kafar. Það er ekki auðvelt að miða við þessar aðstæður. Enginn munur sést lengur á himni og hafi. Allt er svart. Nema umhverfis langreyðina. Hún heyrist blása. Blæs upp blóði. Og svo er hleypt af þriðja skotinu sem hæfir hana.
Hún hverfur sjónum um stund. En svo kemur hún aftur upp og blæs. Nokkuð hraustlega.
Nokkru síðar er svo hleypt af með háum hvelli fjórða skotinu. Það er farið að hvessa enda klukkan langt gengin í tíu að kvöldi.
Þetta er skotið sem verður henni að bana.
Af þeim 148 langreyðum sem veiddar voru á 100 daga vertíð Hvals hf. síðasta sumar þurfti að skjóta 36 þeirra tvisvar eða oftar, eða í um fjórðungi tilfella.
Ein helsta ástæða þess, að hvalveiðar hafa undanfarin ár verið stundaðar við Ísland, er sú að Hvalur ehf borgar feitt í kosningasjóði FLokksins :-)
Landbunaðar Raðuneytið a nu strax að STOPPA HVALVEIÐAR við Island. Vinstri Grænir Stjornmalaflokkur mun Þurkast ut. Kanski er það best svo. Þeir vinna skitverkin fyrir NASISTANNA i þessari VONDU RIKISTJORN.