Finnbjörn A. Hermannsson var í dag kjörinn forseti ASÍ. Hann var sjálfkjörinn í embættið, í kjölfar þess að Ólöf Helga Adolfsdóttir ákvað að draga forsetaframboð sitt til baka í morgun.
Þingi ASÍ er fram haldið þessa vikuna, en þinginu var frestað síðasta haust í kjölfar þess að þingfundurinn, sem haldinn var á Nordica-hóteli í Reykjavík, leystist upp.
Það gerðist í kjölfar þess að Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR, sem þá var í framboði til forseta ASÍ, Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar og Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins og Verkalýðsfélags Akraness, gengu út af þinginu ásamt fjölda félaga úr VR, Eflingu og öðrum félögum Starfsgreinasambandsins.
Finnbjörn hefur áratuga reynslu af störfum í verkalýðshreyfingunni, en hann lét nýlega af störfum sem formaður Byggiðnar, áður Trésmíðafélags Reykjavíkur, þar sem hann hafði verið í forsvari í 26 ár.
Hann gaf kost á sér í embætti forseta ASÍ fyrir rúmri viku. Í samtali við RÚV sagði hann að sú ákvörðun hefði verið tekin í kjölfar þess að fólk kom að máli við hann um framboð.
Varðandi deilur og klofning innan verkalýðshreyfingarinnar sagði hann, við RÚV, að hann teldi, eftir spjall við mjög marga, að það væri „alveg hljómgrunnur fyrir því að menn snúi bökum saman og beiti sér að verkefnum sem við getum unnið sameiginlega og leggi persónulegar væringar til hliðar.“
Ragnar, Hjördís og Kristján varaforestar
Varaforseta ASÍ hafa einnig verið kjörnir og voru þeir allir sjálfkjörnir. Ragnar Þór Ingólfsson er fyrsti varaforseti, Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir formaður AFLs starfsgreinafélags er annar varaforseti og Kristján Þórður Snæbjarnarson formaður Rafiðnaðarsambandsins er þriðji varaforseti. Öll voru þau sjálfkjörin í embættin.
Athugasemdir (1)