Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra mun ekki leggja fram frumvarp sem myndi veita ríkinu heimild til þess að leggja á svokölluð flýti- og umferðargjöld á höfuðborgarsvæðinu á þingi fyrir þinglok, né heldur frumvarp um breytta gjaldtöku vegna notkunar bifreiða, sem boðað hafði verið.
Þetta er meðal þess sem sjá má í skjali sem birt hefur verið á vef Stjórnarráðsins og inniheldur nýjustu breytingarnar sem gerðar hafa verið á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar, en fjallað var um uppfærða þingmálaskrá stjórnarinnar á ríkisstjórnarfundi fyrr í vikunni.
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra mun heldur ekki leggja fram frumvarp um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu og rekstur samgönguinnviða og ekki heldur frumvarp til laga um almenningssamgöngur, en bæði frumvörpin höfðu áður verið boðuð á þessum þingvetri, sem senn líður undir lok.
Verkefnastofa að störfum
Ráðuneyti þeirra Bjarna og Sigurðar Inga settu snemma á þessu ári á fót verkefnastofu sem hefur það hlutverk að móta tillögur um nýtt fyrirkomulag tekna af vegasamgöngum til framtíðar, meðal annars um flýti- og umferðargjöldin á höfuðborgarsvæðinu.
Þau gjöld eru lykilþáttur í fjármögnun þeirra miklu framkvæmda sem til stendur að ráðast í samkvæmt samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins frá 2019.
Opinbera hlutafélagið Betri samgöngur, sem stofnað var til að halda utan um fjármögnun verkefna samgöngusáttmálans, hefur lagt fram hugmyndir að umferðargjöldum til fjármálaráðuneytisins, innviðaráðuneytisins og sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins. Fjallað var um þær tillögur sem Betri samgöngur komu fram með í Kjarnanum fyrir rúmu ári síðan.
Frumvarp um þessi nýju gjöld hefur svo verið á leiðinni og var lýst í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar með þeim orðum að stefnt yrði að gildistöku laga sem heimiluðu gjaldtöku 1. janúar 2024. Það gæti enn gerst, en ljóst er að frumvarpið mun ekki líta dagsins ljós fyrir sumarið.
Árni Mathiesen vill sjá umferðargjöldin sem fyrst
Betri samgöngur hafa verið áfram um að stjórnvöld leggi þessi gjöld á og ítrekaði Árni Mathiesen, stjórnarformmaður félagsins og fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins, það í nýlegri stjórnarskýrslu opinbera hlutafélagsins.
Þar skrifaði Árni að í mörgum löndum í kringum okkur, m.a. Svíþjóð, Noregi og Bretlandi, hefðu flýti- og umferðargjöld verið sett á til að fjármagna fjölbreyttar samgönguframkvæmdir, bæta umhverfi og draga úr umferðartöfum.
„Yfirleitt eru þau útfærð þannig að miðsvæði í borgum er skilgreint og sjálfvirkur búnaður skráir þau ökutæki sem aka inn eða út af svæðinu. Eigendum þeirra er svo send rukkun fyrir það. Mikilvægt er að útfærsla sé með þeim hætti að gjöldin leggist ekki um of á tekjulága eða íbúa í tilteknum hlutum höfuðborgarsvæðisins frekar en öðrum. Það er Alþingis að ákveða hvort farið verður í gjaldtökuna, og hvernig hún verður útfærð, eða hvort að þessi þáttur sáttmálans verður fjármagnaður af fjárlögum. Mér finnst hins vegar sanngjarnt að þeir sem nota umferðarmannvirki, og valda umferðartöfum, greiði fyrir það frekar en hinn almenni skattgreiðandi,“ skrifaði Árni og hvatti ríkið til að leggja þessi gjöld á „sem fyrst“.
Það sagðist Árni telja sanngjarnt og tók dæmi: „Af hverju ætti Árni Sigfússon, íbúi í Reykjanesbæ, að greiða hærri skatta en ella vegna umferðarmannvirkja á höfuðborgarsvæðinu sem Árni Mathiesen, íbúi í Hafnarfirði, er að nota og umferðartafa sem hann veldur.“
Vonandi sem fyrst þögn og kosningar!