Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Yfirvöld ítrekað neitað að rannsaka Súðavíkurflóðið

Yf­ir­völd höfn­uðu ít­rek­að beiðni að­stand­enda fórn­ar­lamba Súða­vík­ur­flóðs­ins um op­in­bera rann­sókn. Al­manna­varn­ir rík­is­ins voru látn­ar um að gera skýrslu um flóð­ið þrátt fyr­ir aug­ljósa hags­muna­árekstra.

„Þær rannsóknir sem hafa farið fram eru ekki annað en skriflegar skýringar þeirra sem voru í stjórnunarstörfum á þeim tíma er slysið varð,“ sagði Páll Arnór Pálsson hæstaréttarlögmaður í aðsendri grein í Morgunblaðinu í ágúst árið 1999. „Þessi undarlega málsmeðferð vekur furðu og oft hefur farið fram lögreglurannsókn af minna tilefni.“

Páll, var lögmaður Rögnu Aðalsteinsdóttur, bónda á Laugarbóli við Ísafjarðardjúp sem hafði þá í fjögur ár reynt að fá yfirvöld til að rannsaka þátt almannavarna, skipulags- og sveitarstjórnar í aðdraganda snjóflóðsins mannskæða sem féll í Súðavík 16. janúar 1995. Fjórtán manns létust í flóðinu, meðal annars mægurnar Bella og Petrea Vestfjörð, dóttir og dótturdóttir Rögnu. 

„Það er tilhneiging hjá ráðamönnum að segja að við syrgjendur séum rugluð af sorg og ekkert að marka okkur,“ sagði Ragna sjálf í viðtali við DV stuttu eftir flóðið. „Ég mun fylgja því fast eftir að þetta mál verði rannsakað opinberlega.“

Þó Ragna Aðalsteinsdóttir hafi vissulega fylgt því fast eftir að fá fram opinbera rannsókn á Súðvíkurflóðinu, entist henni ekki ævin að bíða eftir því að yfirvöld svöruðu ákalli hennar. Ragna lést síðastliðið haust 97 ára gömul.

Gafst aldrei uppRagna Aðalsteinsdóttir gaf aldrei upp vonina um að einn daginn fengju aðstandendur látinna í Súðavíkurflóðinu, þau svör sem þau kölluðu eftir. Sjálf lagði hún á sig ómælda vinnu og erfiði við að reyna að fá málinu hreyft. Ragna lést í október í fyrra.

Eins og fram kom í ítarlegri rannsókn Heimildarinnar virðist sem yfirvofandi snjóflóðahætta hafi verið öllum þeim sem gátu gripið inn í, ljós, án þess þó að brugðist hafi verið við. Snjóflóðahættumat var í gildi í Súðavík og gerði ráð fyrir því að snjóflóðavarnir yrðu reistar á því svæði sem fór undir flóð; fundargerðir almannavarnarnefnda sýna að mörgum árum fyrr hafði fyrst verið rætt um þær varnir sem forgangsmál. Engu að síður liðu sex ár án þess að neitt væri aðhafst.

Í umfjöllun Heimildarinnar kemur einnig fram að þrátt fyrir vitneskju yfirvalda um hættuna og ráðleggingar um að ekki skyldi meira byggt á svæðinu, áratug fyrir flóð, var það engu að síður gert. Til að mynda hús sem lenti í flóðinu og tvennt lét lífið. Þrettán manna hópur, aðstandendur þeirra sem létust í flóðunum undirbúa nú kröfugerð á hendur stjórnvöldum, þar sem farið er fram á að skipuð verði rannsóknarnefnd um flóðið.

„Hafandi farið yfir þessi gögn er nauðsynlegt að íslenska ríkið rannsaki málið almennilega, af því að það var ekki gert á sínum tíma,“ sagði Sigurður Örn Hilmarsson lögmaður þrettánmenningana í samtali við Heimildina. 

Sigurður benti á að jafnvel þó hátt í þrjátíu ár séu frá því flóðið féll, verði aðstandendunum ekki kennt um tafir á því að málið yrði rannsakað. „Það dapurlega við þetta er að þau reyndu að fá fram rannsókn en málið fékk ekki viðunandi skoðun á þeim tíma.“

Strax eftir flóðið í janúar 1995 kom fram gagnrýni á að íbúar húsanna sem urðu undir því, hafi ekki verið látnir vita af vaxandi snjóflóðahættu í Súðavík. Ennfremur að samskiptaerfiðleikar og skortur á reglufylgni, hefði orðið til þess að vitneskja um mögulega yfirvofandi hættu, hefði komið í veg fyrir að gripið hefði til aðgerða.

Lögmaður aðstandenda fór strax í mars 1995 fram á það við dómsmálaráðherra að skipuð yrði rannsóknarnefnd. Við því var ekki orðið heldur voru Almannavarnir Ríkisins látnar vinna greinargerð um flóðið sem birt var sléttu ári eftir flóðið. Niðurstaða hennar sætti strax harðri gagnrýni aðstandenda, meðal annars vegna rangra staðhæfinga í skýrslunni, sem aftur voru grundvöllur þeirrar meginniðurstöðu Almannavarna, að ekkert hefði verið hægt að gera til að forða manntjóni í flóðinu.

Vorið 1996 fór lögmaður aðstandenda því fram á við dómsmálaráðherra að skýrslan yrði tekinn upp og unnin af hlutlausum aðila. Þáverandi dómsmálaráðherra, hafnaði því og benti aðstandendum á að ef þau teldu eitthvað saknæmt hafa átt sér stað, væri nær að vísa málinu til Ríkissaksóknara.

Svo fór að sjö aðstandendur óskuðu eftir því að Ríkissaksóknari tæki málið til opinberrar rannsóknar með bréfi í ágúst 1996. Hálfu ári seinna barst svar frá Ríkissaksóknara, þar sem hann hafnaði beiðninni.

„Synjun Ríkissaksóknara er nokkuð sérstæð,“ sagði í áðurnefndri grein Páls, lögmanns Rögnu Aðalsteinsdóttur. „Hann lætur nægja að byggja ákvarðanir sínar á skýrslum Almannavarna ríkisins og bréfum nokkurra einstaklinga og tekur skýringar þeirra gildar án þess að grafast fyrir um sannverðugleika frásagnar þeirra. Aðeins óhlutdræg og opinber rannsókn getur leitt hið sanna í ljós. Almannavarnir hafa ekki það rannsóknarvald sem lögregla hefur samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála og því ekki eðlilegt að nota skýrslu þeirra við ákvörðun um hvort einhver hafi gerst brotlegur, sérstaklega í svo viðamiklu máli.“

Aðstandendurnir létu ekki þar við sitja heldur héldu áfram að reyna að fá málinu hreyft. Björk Þórðardóttir, sem missti eiginmann sinn Hafstein Björnsson og tólf ára dóttur, Júlíönu Bergsteinsdóttur, í snjóflóðinu, leitaði til Umboðsmanns Alþingis og vildi fá álit hans á lögmæti höfnunar Ríkissaksóknara, en án árangurs. Síðasta tilraunin var síðan gerð árið 2004 þegar Maya Hrafnhildardóttir reyndi að fá Ríkissaksóknara til að endurskoða ákvörðun sína. Mayu sem hafði misst foreldra sína í flóðinu, var líka neitað.

„Hring eftir hring“

„Við báðum oft um rannsókn,“ segir Maya í viðtali við Heimildina þegar hún rifjar upp þessa baráttu aðstandendanna sem lauk árið 2004. „Og þá var bara sagt, það verður engin rannsókn, það er búið að svara ykkur, og það verður ekkert rannsakað. Og það mættu okkur alltaf bara lokaðar dyr. Það væri ekki hægt að gera neitt.

Maya segist eftir á að hyggja vera bæði reið og sár yfir því hvernig komið var fram við aðstandendurna fyrstu misserin eftir flóð, í hvert sinn sem upp komu vísbendingar sem bentu til þess að rangt hafði verið farið að í aðdraganda flóðsins.

„En svo náttúrlega erum við búin öll þessi 28 ár sem eru liðin frá flóði, við erum alltaf að velta þessu fyrir okkur, en þegar maður kemur að lokuðum dyrum alls staðar og erum talin hálf svona rugluð í sorg, þá náttúrlega einhvern veginn gefst maður upp.“

Eygja von Sigríður Rannveig Jónsdóttir, Hafsteinn Númason og Maya Hrafnhildardóttir í Súðavík.

Hafsteinn Númason sagðist í viðtali við Heimildina nýverið hafa strax og hópurinn leitaði liðsinnis lögmanns eftir flóðin, verið varaður við því að „kerfið“ yrði erfiður andstæðingur.

„Þú verður bara sendur hring eftir hring þangað til þú gefst upp. Þú munt reka þig á það að það verður mjög erfitt að fá svör. Eins og ég hef rekið mig á. Manni var vísað frá manni til manns. Og látinn bíða eins lengi eftir svörum og hægt er,“ rifjar Hafsteinn upp.

Sigríður Rannveig Jónsdóttir, eða Sigga Ranný eins og hún er alltaf kölluð, missti ríflega eins árs gamla dóttur sína í flóðinu, en hún, maður hennar og fimm ára dóttir, björguðust við illan leik úr flóðinu. Hún segist sjálf hafa gefist upp á baráttunni fyrir rannsókn, ári eftir flóðið. Hún hafi einfaldlega ekki megnað að takast á við vonbrigðin og baráttuna sem augljóslega þurfti. Viðhorfið sem hafi mætt þeim hafi líka ekki hjálpað til.

„Ég upplifði það þannig, að ef við færum fram á eitthvað svona, eins og við værum að benda á einhvern, að einhver væri sekur. Þetta snerist aldrei um það. Þetta snerist ekki um að einhver væri sekur, þetta snerist frekar um það bara að það yrði rannsakað af hverju brást enginn við. Hvað klikkaði? Afhverju, það er það, það er þessi stóra spurning. En þetta var ekki til að hengja einn eða neinn. Við vildum bara fá sannleikann.“

Þegar svo núna hafi komið fram enn frekari upplýsingar, bæði staðfestingar á því sem áður var afgreitt sem sögusagnir og eins nýjar upplýsingar um hvernig staðið var að málum, segist hún hafa fundið fyrir gríðarlega reiði, yfir því sem hún segir hafa verið gaslýsingu í garð aðstandenda árin fyrir flóð.

„Reiðin kemur af því að réttlætið hefur ekki fengið að koma fram. Sannleikurinn hefur ekki fengið að koma fram. Þess vegna er ég reið."

Kjósa
11
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Súðavíkurflóðið

Alþingi skipar rannsóknarnefnd um Súðavíkurflóðið
FréttirSúðavíkurflóðið

Al­þingi skip­ar rann­sókn­ar­nefnd um Súða­vík­ur­flóð­ið

Stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd hef­ur sam­þykkt beiðni að­stand­enda þrett­án þeirra sem fór­ust í snjóflóð­inu í Súða­vík í janú­ar ár­ið 1995 um að fram fari op­in­ber rann­sókn á að­drag­anda og eft­ir­mál­um flóðs­ins. Mál­ið fer til þing­for­seta og svo þings­ins í heild. Alls lét­ust fjór­tán þeg­ar snjóflóð féll á byggð­ina í Súða­vík snemma morg­uns 16. janú­ar, þar af átta börn.
Stíga fyrstu skrefin vegna mögulegrar rannsóknarnefndar vegna Súðavíkurflóðsins
FréttirSúðavíkurflóðið

Stíga fyrstu skref­in vegna mögu­legr­ar rann­sókn­ar­nefnd­ar vegna Súða­vík­ur­flóðs­ins

Stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd Al­þing­is ákvað í morg­un að hefja gagna­öfl­un vegna mögu­legr­ar rann­sókn­ar­nefnd­ar á veg­um Al­þing­is vegna að­drag­anda og eft­ir­mála snjóflóðs­ins sem féll ár­ið 1995 í Súða­vík. Nið­ur­staða þeirr­ar vinnu verð­ur grund­völl­ur ákvörð­un­ar um hvort leggja eigi til skip­un rann­sókn­ar­nefnd­ar.
Katrín bendir þinginu á að rannsaka aðdraganda og eftirmál Súðarvíkurflóðanna
FréttirSúðavíkurflóðið

Katrín bend­ir þing­inu á að rann­saka að­drag­anda og eft­ir­mál Súð­ar­vík­ur­flóð­anna

Í bréfi sem Katrín Jak­obs­dótt­ir for­sæt­is­ráð­herra sendi Þór­unni Svein­bjarn­ar­dótt­ur, for­manni stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd­ar Al­þing­is, seg­ist hún telja að rann­sókn­ar­nefnd á veg­um Al­þing­is væri til þess fall­in að skapa traust um nið­ur­stöð­ur rann­sókn­ar á að­drag­anda og eft­ir­mál­um snjóflóð­anna í Súða­vík 1995. Flóð­in hafi ver­ið reið­arslag fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag.
Hættan í Súðavík skjalfest áratug fyrr af sérfræðingi Veðurstofu
ViðtalSúðavíkurflóðið

Hætt­an í Súða­vík skjalfest ára­tug fyrr af sér­fræð­ingi Veð­ur­stofu

Vinnu­gögn snjóflóða­sér­fræð­ings sem starf­aði á Veð­ur­stof­unni til 1984 sýna að snjóflóða­hætta í Súða­vík var mun meiri á því svæði sem seinna var sagt hættu­laust en fór und­ir snjóflóð ár­ið 1995. Höf­und­ur þess furð­ar sig á því að yf­ir­völd hafi sett fram hættumat, sem stang­að­ist á við þeirra eig­in gögn.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár