Hún sat við sjónvarpið sitt og horfði á fréttirnar, þetta var í Svíþjóð. Aðalfrétt kvöldsins var um bankarán. Myndir af tveim mönnum með lambhúshettur höfðu náðst á öryggismyndavélar útibúsins þar sem þeir voru á harðahlaupum með úttroðna plastpoka út í bílinn sem beið þeirra fyrir utan. Konan heyrðist þá segja við sjálfa sig: Það er enginn svona hjólbeinóttur eins og hann Bjössi minn! Hún var amma hans, þekkti hann strax á hlaupastílnum og hringdi í lögregluna sem fór og sótti Bjössa og þá hina. Lambúshettur eru ofmetnar.
Þýfið sem bankaræningjar af gamla skólanum hafa upp úr krafsinu er yfirleitt ekki mikið. Það bliknar í samanburði við fjárhæðirnar sem bankaræningjum nútímans hefur tekizt að klófesta lambhúshettulaust og tekst enn.
Ný hrina?
Nýtt dæmi er Silicon Valley bankinn í Kaliforníu, stór banki sem bandarísk yfirvöld neyddust til að loka í skyndingu um daginn. Þetta reyndist vera næststærsta bankagjaldþrot í gervallri sögu Bandaríkjanna. Annar banki, Signature Bank í New York, féll tveim dögum síðar. Þriðji bankinn, First Republic Bank í Kaliforníu, rambaði á barmi gjaldþrots, en keppinautar bankans sáu sér hag í að bjarga honum frá falli í bili að minnsta kosti.
Sama gerðist í Sviss þar sem ríkisstjórnin hafði snör handtök og bjargaði næststærsta banka landsins, Credit Suisse, frá hruni með því að sameina hann stærsta bankanum, Union Bank of Switzerland (UBS). Það sætir tíðindum þegar næststærsti bankinn í Sviss af öllum löndum lendir í kröggum, en bankinn hefur glímt við alvarleg innanmein um nokkurt skeið. Munu fleiri bankar komast í kröggur? Kannski, kannski ekki.
Silicon Valley bankinn hrinti bylgjunni af stað með því að innstæðueigendur misstu trú á bankanum og gerðu áhlaup. Neistinn sem kveikti bálið var hækkun vaxta sem rýrði eignasafn bankans með því að draga úr verðgildi útistandandi lána. Bankinn hefði átt að búa sig betur undir löngu fyrirséða vaxtahækkun, en hann lét það undir höfuð leggjast.
Samhengið er ekki flókið. Skuldabréf sem bera fasta vexti, til dæmis útistandandi bankalán, missa aðdráttarafl í augum fjárfesta þegar vextir hækka svo að bréfin lækka í verði. Fjárfestar kjósa heldur að kaupa önnur bréf sem bera hærri vexti og gefa meira í aðra hönd.
Kunnuglegt munstur
Var Silicon Valley bankinn rændur innan frá? Það má til sanns vegar færa þótt sá þáttur málsins skipti ekki sköpum að þessu sinni. Stjórnendur bankans höfðu kunnuglegan hátt á framkvæmdinni.
-
Fyrst skipuðu þeir sér í sveit með öðrum bankastjórum sem þrýstu á Bandaríkjaþing að draga úr eftirliti með bankarekstri og slaka á varúðarreglum með þeim rökum að eftirlitið og regluvarzlan væru íþyngjandi. Þetta tókst. Árið var 2018. Líklegt virðist að bankamennirnir hafi greitt vænar fúlgur í kosningasjóði þingmanna til að liðka fyrir eftirsóttum tilslökunum, en um það verður ekkert hægt að fullyrða fyrr en að lokinni rannsókn málsins af hálfu bandaríska dómsmálaráðuneytisins.
-
Síðan lánuðu bankamennirnir innstæður viðskiptavina, sem höfðu treyst bankanum fyrir sparifé sínu til varðveizlu, til valinna lántakenda við lágum eða því sem næst engum vöxtum þótt líklegt eða öllu heldur fullvíst mætti telja að vextir myndu hækka og sumir lántakendanna myndu trúlega ekki þurfa að hafa fyrir því að standa í skilum.
-
Loks létu bankastjórarnir fjallmyndarlegar bónusgreiðslur rakna til sjálfra sín og félaga sinna í bankanum og sátu við að millifæra bónusana þegar yfirvöldin réðust inn í bankann til að loka honum og ráku bankastjórana heim.
Þessi atvikalýsing er kunnugleg úr fjármálakreppunni 2008, ekki bara í Bandaríkjunum, heldur einnig hér heima og annars staðar í Evrópu. Þetta er saga sem endurtekur sig aftur og aftur vegna þess að uppgjörið við hrunið 2008 fór ekki fram nema til hálfs. Í Bandaríkjunum var bara einn hátt settur fjármálafrömuður settur inn, hann hét Bernie Madoff og var einn ósvífnasti og stórtækasti fjársvikari allra tíma í dollurum talið. Hann var dæmdur til 150 ára fangavistar og dó í fangelsinu 2021 82ja ára að aldri.
Auk Madoffs voru tæplega 40 millistjórnendur bandarískra banka og annarra fjármálastofnana settir inn eftir hrunið 2008, svipaður fjöldi og hér heima þrátt fyrir þúsundfaldan mun á íbúafjölda landanna. Hátt settir embættismenn, seðlabankastjórar og aðrir, sögðu sumir í hálfum hljóðum, og ekki fyrr en eftir dúk og disk, að ef til vill hefði þurft að láta fleiri bankamenn sæta ábyrgð að lögum. En þau meintu ekkert með því, enda var það ekki gert þótt rannsóknir alríkislögreglunnar FBI sýndu að efnahagsbrot höfðu verið framin í öllum helztu fjármálastofnunum Bandaríkjanna. Yfirvöldin kusu að leiða brotin hjá sér að langmestu leyti.
Hingað heim
Á Íslandi voru nokkrir bankamenn ákærðir eftir hrun fyrir fjármálamisferli (umboðssvik, fjárdrátt, skýrslufals, innherjasvik og markaðsmisnotkun), ólíkt því sem gerðist úti í heimi. Lykillinn að þessum ákærum var Fjármálaeftirlitið, sem var þá sjálfstæð stofnun aðskilin frá Seðlabanka Íslands, og einnig Embætti sérstaks saksóknara, sem tók á móti stríðum straumi tilvísana frá Fjármálaeftirlitinu. Eftir nokkurn tíma var forstjóri Fjármálaeftirlitsins hrakinn úr embætti, fjárveitingar til Sérstaks saksóknara skornar niður svo að hætta varð rannsóknum á nokkrum mikilvægum málum vegna fjárskorts og Fjármálaeftirlitið var endurinnlimað í Seðlabankann eins og til að þagga niður í því.
Hæstiréttur dæmdi þó 36 manns til samtals 88 ára fangelsisvistar fyrir lögbrot tengd hruninu, tvö og hálft ár á mann að meðaltali. Meðal þeirra eru bankastjórar allra föllnu bankanna þriggja og stjórnarformaður eins þeirra. Dómunum var misskipt. Kaupþing fékk 32 ár, Glitnir fékk 19 ár, Landsbankinn fékk 11 ár, sparisjóðirnir fengu 12 ár og aðrir 14 ár. Föllnu bankarnir urðu uppvísir að brotum langt umfram þau mál sem dómar gengu í. Gengistryggð lán bankanna reyndust til að mynda ólögleg, en ekkert var gert í því. Eignir brotlegra bankamanna voru ekki gerðar upptækar. Peningamarkaðssjóðir sem höfðu fjárfest í vafasömum skuldabréfum eigenda bankanna skildu almenning eftir með gríðarlegt tap, en útvaldir innherjar náðu að selja sig út úr sjóðunum og setja féð inn á bankabækur sem voru tryggðar að fullu fyrir tilstilli ríkissjóðs.
Og enn eru bankarnir í brennidepli þar eð fjöldi heimila stendur nú frammi fyrir stóraukinni vaxtabyrði. Þegar þú kaupir þér bíl reiðir þú fram greiðslu, færð bílinn afhentan og viðskiptunum er lokið. Ef bílasalinn verður fyrir búsifjum síðar hækkar hann ekki verðið sem þú greiddir fyrir bílinn afturvirkt, ekki nema þú hafi tekið lán fyrir bílakaupunum.
Þegar þú tekur lán í banka og reiðir fram undirskrift þína undir skuldbindingarnar sem þú tekur á þig og færð lánið greitt, þá er viðskiptunum ekki alltaf þar með lokið. Bankinn getur reynt að freista þín til að samþykkja að hann geti breytt skuldbindingum þínum eftir á ef forsendur breytast, til dæmis með því að hækka lánsvextina eftir á. Vandinn stafar öðrum þræði af verðbólgu því að vextir rokka til á markaði ef verðbólga breytist. Bankar og lántakendur þurfa að koma sér saman um hvernig þeir skipta áhættunni sem fylgir verðbólgu og vaxtabreytingum.
Aftur út
Bandarískir bankar gerðu sér að leik að gabba lántakendur árin fyrir 2008. Þeir freistuðu fólks með engar tekjur, enga vinnu og engar eignir til að taka lán til húsakaupa og bílakaupa, til dæmis súludansmeyna í Flórída sem var að vísu í vinnu og hafði tekjur og keypti sér sex íbúðir með undirskrift sinni einni saman. Fyrstu tvö árin voru gjaldfrjáls, síðan byrjuðu gluggaumslögin að streyma inn um lúguna hjá henni og öðrum, bankinn leysti íbúðirnar til sín og bankastarfsmennirnir rökuðu saman bónusgreiðslum sem stóðu í beinu hlutfalli við veitt lán. Bankarnir fóru í þrot og skattgreiðendur borguðu brúsann. Nú rann það loksins upp fyrir mörgum að bezta leiðin til að ræna banka er að komast yfir banka, ekki bara viðskiptabanka heldur einnig seðlabanka og fjármálaeftirlit.
Öryggi í fyrirrúmi?
Lög gera jafnan strangar kröfur um hverjum megi að treysta til að eiga og reka flugfélög. Öryggi farþeganna er í fyrirrúmi. Flugvirkjar halda vélunum við til að tryggja öryggi. Læknar fylgjast með heilsu flugmanna. Þá sjaldan flugvélum hlekkist á eru atvikin rannsökuð í þaula. Drukkinn flugmaður er sóttur til saka þótt honum takist að lenda klakklaust. Lög og reglur mæla fyrir um heilbrigða samkeppni í flugi. Alþjóðasamfélagið vakir yfir öryggi í háloftunum. Flugrekstur er yfirleitt ekki gróðavegur. Sjaldgæft er að stjórnmálamenn seilist til áhrifa í flugfélögum. Þú sérð, lesandi minn góður, hvert ég er að fara.
Lög gera minni og mildari kröfur um hverjum megi treysta til að eiga og reka banka. Bankastjóri Arionbanka kom víða við fyrir hrun (Straumur Burðarás, FL Group, fjármálaráðuneytið, allur pakkinn, engin reynsla frá útlöndum). Hann þiggur röskar sjö milljónir króna í mánaðarlaun enda þarf bankinn ekki að sæta samkeppni af hálfu erlendra banka. Stjórnarformaður bankans situr á stóli sínum þótt tvö fyrirtæki sem hann stýrði hafi verið fundin sek um ítrekuð brot gegn samkeppnislögum og hann þiggur tæpar tvær milljónir króna í mánaðarlaun.
Í lögum frá 2002 um fjármálafyrirtæki segir í 52. grein: „Stjórnarmenn ... mega ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm á síðustu 10 árum fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum.“ Samkeppnislög virðist bankastjórnarmönnum þó leyfast að hafa brotið, jafnvel aftur og aftur.
Athugasemdir (7)