Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Bankastjóri Arion banka með 7,3 milljónir á mánuði og starfsmenn fengu 1,6 milljarða í bónus

Gangi áform Ari­on banka eft­ir mun hann greiða hlut­höf­um sín­um á átt­unda tug millj­arða króna hið minnsta á þrem­ur ár­um. Heild­ar­laun banka­stjór­ans Bene­dikts Gísla­son­ar hækk­uðu um 25 pró­sent milli 2021 og 2022.

Bankastjóri Arion banka með 7,3 milljónir á mánuði og starfsmenn fengu 1,6 milljarða í bónus
Bankastjóri Benedikt Gíslason hefur verið bankastjóri Arion banka frá því á árinu 2019. Mynd: Arion banki

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, fékk alls 87,2 milljónir króna í laun frá bankanum í fyrra eða um 7,3 milljónir króna að meðaltali á mánuði. Heildarlaun hans, sem samanstanda af launum, árangurstengdri greiðslu upp á 9,1 milljón króna og mótframlagi í lífeyrissjóð, hækkuðu um 25 prósent milli ára. Á árinu 2021 fékk Benedikt 69,8 milljónir króna greiddar, eða um 5,8 milljónir króna á mánuði að meðaltali. 

Þetta má lesa úr nýbirtum ársreikningi Arion banka. Þar segir að árangurstengdar greiðslur upp á 47,2 milljónir króna, sem dreifðust á nokkra núverandi og fyrrverandi lykilstjórnendur, hafi verið vegna frestaðra greiðslna sem byggðar eru á rekstrarárangri ársins 2017. 

Til samanburðar má nefna að lágmarkslaun á Íslandi þorra árs í fyrra voru 368 þúsund krónur á mánuði, eða um 4,4 milljónir króna á ári. Mánaðarlaun Benedikts voru því 66 prósent hærri en árslaun þess sem var á lágmarkslaunum hérlendis á síðasta ári.

Íslenskir lífeyrissjóðir eru langstærstu eigendur Arion banka. Samanlagt eiga þeir beint að minnsta kosti 46,3 prósent hlut í bankanum. Auk þess eiga hlutdeildarskirteini í sjóðum sem fjárfest hafa í Arion banka. Stærsti einstaki eigandinn er Gildi lífeyrissjóður, sem félagsmenn Eflingar greiða meðal annars í, með 9,77 prósent hlut. Þar á eftir kemur Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins með 9,53 prósent hlut og þriðji stærsti eigandinn er Lífeyrissjóður verzlunarmanna, sem félagsmenn í VR greiða meðal annars í, með 9,14 prósent eignarhlut. 

Stærstu einkafjárfestarnir eru fjárfestingafélagið Stoðir, með 5,20 prósent hlut, og Hvalur ehf. sem Kristján Loftsson stýrir, en eignarhlutur þess félags er 2,44 prósent. 

Starfsmenn fengu 1,6 milljarða í bónus

Arð­semi eigin fjár Arion bank­a var 13,7 pró­sent á árinu. Með því náð­ist það mark­mið að vera með hærri arðsemi en vegin arð­semi eigin fjár hjá helstu sam­keppn­is­að­ilum bank­ans (Lands­bank­an­um, Íslands­banka og Kviku), sem þýðir að kaup­auki verður greiddur til starfs­manna. Arion banki gjaldfærði  1.606 millj­ónir króna vegna kaupaukagreiðslna í fyrra en útgreiddur kaup­auki á árinu 2021 var 1.580 millj­ónir króna. 

Í kaupauka­kerf­inu, sem kall­ast einnig bónus­kerfi, felst að allt fast­ráðið starfs­­­­­fólk Arion banka fær allt að tíu pró­­­­­sent af föstum árs­­­­­launum sínum á árinu 2022 í kaupauka. 

Þeir stjórn­­­­­endur og það starfs­­­­­fólk sem hefur hvað mest áhrif á tekjur og kostnað bank­ans fá allt að 25 pró­­­­­sent af föstum árs­­­­­launum í kaupauka­greiðslu, en í formi hluta­bréfa í bank­­­­­anum sem verða ekki laus til ráð­­­­­stöf­unar fyrr en að þremur árum liðn­­­­­­­­­um. Í til­felli Bene­dikts Gísla­son­ar, banka­stjóra Arion banka, þýðir það kaupauka upp á 19,5 millj­ónir króna.

Innan Arion banka er líka í gildi kaup­rétt­­ar­á­ætlun. Hún virkar þannig að starfsmenn geta keypt hluta­bréf í bank­­­­anum fyrir alls í 1,5 millj­ónir króna á ári í fimm ár. Fyrsti nýt­ing­­­­ar­­­­dagur var í febrúar í fyrra – en þá gátu starfsmenn þó einungis keypt fyrir 600 þúsund krónur – en síð­­­­­­­asti í febr­­­­úar 2026. Allir fastráðnir starfsmenn Arion banka sem gátu nýtt sér kaupréttinn þegar honum var komið á snemma árs 2021, alls 628 manns, ákváðu að nýta hann. 

Kaup­verð starfs­­­­manna Arion banka á hlutum í bank­­­­anum er vegið með­­­­al­verð í við­­­­skiptum með hluta­bréf félags­­­­ins tíu við­­­­skipta­daga fyrir samn­ings­dag, sem var 3. febr­­­­úar 2021, eða 95,5 krónur hver hlut­­­­ur. Mark­aðs­gengi Arion banka er 61 pró­sent yfir því gengi í dag.

Markaðsvirði Arion banka rauk upp á árinu 2021 og þegar kom að næsta nýtingarglugga í byrjun árs í fyrra hafði kaupverðið hækkað í 181,7 krónur á hlut, sem er umtalsvert yfir núverandi markaðsvirði bankans. Þegar síðustu kaupréttarsamningar síðasta árs voru gerðir var kaupverðið 170, 9 krónur á hlut.

Fjármunum skóflað til hluthafa ár eftir ár

Það var verðbólga víðar í Arion banka. Heildarlaun stjórnarformanns bankans, Brynjólfs Bjarnasonar, fóru úr 20,3 milljónum króna í 23,4 milljónir króna. Þau hækkuðu því um rúmlega 15 prósent á árinu. Brynjólfur fær 1.050 þúsund krónur á mánuði fyrir að sinna hlutverki stjórnarformanns en fær auk þess greiðslur fyrir að sitja í öðrum nefndum bankans. Sú seta ýtir heildarlaunum hans upp í næstum tvær milljónir króna á mánuði að meðaltali. 

Alls hækkuðu laun stjórnarmanna í Arion banka í heild úr 90,9 milljónum króna árið 2021 í 101 milljón króna í fyrra, eða um 11,1 prósent.

StjórnarformaðurBrynjólfur Bjarnason fær 23,4 milljónir króna í laun á ári fyrir stjórnarstörf sín hjá Arion banka. Hann situr sem óháður stjórnarmaður, líkt og raunar allir stjórnarmenn í bankanum.

Arion banki hagn­að­ist um 25,4 milljarða króna á síðasta ári, sem er 3,2 milljörðum krónum minna en árið áður.  Bankinn ætlar að greiða hluthöfum sínum út 12,5 milljarða króna í arð á grundvelli þessa árangurs í ár auk þess sem til stendur að halda áfram að kaupa eigin bréf af hluthöfum.

Arion banki, sá eini af stóru bönkunum þremur sem er ekki að neinu leyti í eigu íslenska ríkisins, hefur verið stórtækur í því að taka fjármuni úr bankanum og færa þá til hluthafa með arðgreiðslum eða endurkaupum á bréfum á undanförnum árum. Alls greiddi bank­inn út arð eða keypti eigin bréf af hlut­höfum fyrir 31,5 millj­­­arða króna ​á árinu 2021. Í fyrra skilaði Arion banki skilað um 32,3 millj­­örðum króna til hlut­hafa sinna í gegnum arð­greiðslur og end­­ur­­kaup á bréf­­um. 

Gangi áform bankans um útgreiðslur í ár eftir mun hann að minnsta kosti hafa greitt rúmlega 76 milljarða króna til hluthafa sinna á þremur árum. Þá á eftir að taka inn þau endurkaup sem munu eiga sér stað á árinu. Það er í samræmi við áform sem Arion banki gerði opinber fyrir nokkrum árum, þegar bankinn sagðist ætla að skila nálægt 90 milljörðum króna til hluthafa á fáum árum. 

Langstærsta tekjulind Arion banka eru vaxtatekjur, sem bankinn hefur af útlánum til heimila og fyrirtækja landsins. Þær uxu um næstum 30  milljarða króna á síðasta ári og voru 83,6 milljarðar króna. Vaxtamunur Arion banka á síðasta ársfjórðungi 2022 var kominn upp í 3,1 prósent. 

Bankastjóri Landsbankans hækkar vel

Heildarlaun bankastjóra og lykilstjórnenda hinna stóru bankanna, Landsbankans og Íslandsbanka, breyttust líka í fyrra. Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, var með 61,6 milljónir króna í heildarlaun á árinu 2022, eða 5,1 milljón króna að meðaltali á mánuði. Laun hennar hækkuðu um 14 prósent á milli ára.

RíkisbankiLilja Björk Einarsdóttir stýrir Landsbankanum.

Alls námu laun og hlunnindi helstu stjórnenda Landsbankans og stjórnarmanna hans 445,6 milljónum króna í fyrra. Það er aðeins minni heildarupphæð en bankinn greiddi til þeirra á árinu 2021 en þá var hann að borga út tvo fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrir samtals um 118 milljónir króna. Þegar leiðrétt er fyrir þeirri tölu liggur fyrir að kostnaður Landsbankans vegna launa og hlunninda helstu stjórnenda, stjórnar og varamanna í stjórn va 341 milljón króna á árinu 2021, og því óx hann um rúmlega 30 prósent í fyrra þegar greiðslurnar til framkvæmdastjóranna eru undanskildar.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka var með 59,8 milljónir króna í heildarlaun á síðasta ári. Það var rúmum tveimur milljónum krónum meira en hún fékk í föst laun, hlunnindi og mótframlag í lífeyrissjóði á árinu 2021. Þá voru heildarlaun hennar hins vegar 68,6 milljónir króna vegna þess að Birna fékk sérstaka 10,9 milljón króna greiðslu vegna yfir­vinnu í tengslum við und­ir­bún­ing hluta­fjár­út­boðs og skrán­ingar Íslands­banka á markað sumarið 2021.

Birna fékk enga sérstaka yfirvinnugreiðslu vegna sölunnar á 22,5 prósent hlut íslenska ríkisins í Íslandsbanka á síðasta ári. Meðalmánaðarlaun Birnu lækkuðu því á síðasta ári, úr 5,7 milljónum króna árið 2021 í fimm milljónir króna á mánuði. Hún er nú sá bankastjóri í stórum banka á Íslandi sem er með lægstu launin.

Tveir lykilstjórnendur Íslandsbanka hækkuðu verulega í launum milli ára. Ásmundur Tryggvason, framkvæmdastjóri fyrirtækja og fjárfesta, fór úr því að vera með árslaun upp á 46,7 milljónir króna árið 2021 í að vera með 53,7 milljónir króna í fyrra, eða næstum 4,5 milljónir króna á mánuði að meðaltali. Laun hans hækkuðu um 16,2 prósent á árinu 2022. Jón Guðni Ómarsson, fjármálastjóri Íslandsbanka, fór úr 45,1 milljónum króna í árslaun 2021 í 53,5 milljónir króna, eða rétt tæplega 4,5 milljónir króna á mánuði. Laun hans hækkuðu um næstum 19 prósent á árinu 2022. Innifalið í launum beggja í fyrra voru starfsafmælisgreiðslur, sem eru í samræmi við kjarasamning Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF).

Alls jukust launagreiðslur til helstu sjö helstu stjórnenda Íslandsbanka um tíu prósent í fyrra og voru 357 milljónir króna.

Kjósa
23
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (6)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
 • Olafur Oddgeirsson skrifaði
  Það er alltaf verið að tala um að hagræða og auka samkeppni til að ná niður verði á vörum og þjónustu. Hvernig væri að hafa útboð um þessi störf og láta bjóða í, sjá hvort það sé ekki til fólk á Íslandi sem gæti gert þetta fyrir ögn minni pening? :-)
  0
 • Ingibjörg Ottesen skrifaði
  Að hafa skoðun á svona háum launum heitir víst að vera öfundsjúkur. En, ég ætla að segja ykkur að skattarnir af þessari upphæð duga varla fyrir eftirlaunum fyrrum borgarstjóra, alþingismanni, ráðherra, seðlabankastjóra og núna ritstjóra Moggableðilsins.

  Er fólk ekkert að vakna til vitundar um spillinguna hér á landi? Eða erum við svona ljómandi heimsk?
  2
 • ADA
  Anna Dóra Antonsdóttir skrifaði
  Svo er SA fólk að bregða Eflingarfólki um fégræðgi, eða þannig
  2
 • P
  Piotr skrifaði
  The salaries of employees in Iceland are not growing at such a pace. Another proof of inequality.
  0
 • Þorsteinn Einarsson skrifaði
  Þetta fólk hlýtur að vera mjög duglegt
  1
 • Ásta Jensen skrifaði
  Hvað gerir þessi maður til að verðskulda 7.3 millj á mánuði?
  1
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár