Ég byrjaði alltaf á öftustu síðunni þegar ég fletti dagblaði þegar ég var lítill. Þar var allt sem ég hafði áhuga á; sjónvarpsdagskrá kvöldsins, bíóauglýsingar og myndasögur. Ég þurfti ekkert að vita um kjaradeilur og pólitík. Vildi alls ekki lesa löng viðtöl við Þorstein Pálsson eða mótmæli í Japan. Bara Ferdinand að æra konuna sína og hvort Lethal Weapon 3 væri komin í bíó.
Ég hélt þessum sið áfram fram á fullorðinsárin þótt öftustu síðurnar yrðu rýrari og áhugi minn á Þorsteini Pálssyni ykist. Þetta er bara vöðvaminni. Sjónvarpsdagskráin varð sífellt tilgangslausari eftir því sem streymisveitum og öðrum ólínulegum möguleikum fjölgaði. Dagskrá kvikmyndahúsanna fór á netið eins og allt annað og eftir á að hyggja voru samskipti Ferdinand við fjölskylduna sína líklega ekki nægilega heilbrigð. Heimurinn breyttist og minn lestur á dagblöðunum með.
Ég fletti samt í gegnum Fréttablaðið einu sinni, kannski tvisvar í viku á meðan það barst enn heim til mín. Dagskráin var enn þá þarna en ég þurfti hana ekki. Bíóauglýsingarnar voru kannski fimmtungur úr síðu enda löngu komnar á netið. Oftast þurfti maður ekki að fletta nema þrisvar áður en maður var kominn á kostaða opnu þar sem gamall sjómaður lofsamaði einhvers konar hirsispillur sem annaðhvort hjálpuðu honum að pissa eða gáfu honum velkomna standpínu. Vissulega hafði sjálfsvirðing mín dalað svo með árunum að ég hafði núna meiri áhuga á fréttum en tilvistarlegu helvíti Ferdinands, en internetið og samfélagsmiðlar eru ekkert annað en óendanlegt haglél af fréttum sem berja á manni allan sólarhringinn. Það er fátt sem dagblað dagsins í dag gat sagt mér sem ég var ekki búinn að lesa hundrað sinnum í gær.
„Ég ætla ekki að greiða útgerðinni 9.000 krónur á mánuði til þess að lesa einhverjar gamalmenna-incel fantasíur Davíðs Oddssonar um George Soros.“
Eftir sem áður var það samt smá skellur að heyra að þessi síðasti kyndilberi hins hversdagslega dagblaðs væri allur. Ég veit að Mogginn er enn til, en ég ætla ekki að greiða útgerðinni 9.000 krónur á mánuði til þess að lesa einhverjar gamalmenna-incel fantasíur Davíðs Oddssonar um George Soros og ímyndaða trans-mafíu sem einhver frændi Hannesar Hólmsteins fann á 4chan og sendi Dabba svo með faxi eða bréfdúfu.
Prentuð blöð koma vissulega enn út; Bændablaðið kemur út hálfsmánaðarlega og ég nýt þess vissulega að skoða það nýjasta í traktorum og einkamálaauglýsingar fyrir hressa, sexí bændur auk þess sem Heimildin fer að mæta heim til ykkar vikulega á næstunni. En dagblaðið eins og við þekkjum það fer senn að hverfa. Mér finnst dagblaðið nefnilega svo merkilegt fyrirbæri. Það er ekki langt síðan ég fann 30 ára gamalt dagblað uppi í sumarbústað sem ég fletti öllu í gegn, ekki af því að það stóð neitt merkilegt í því heldur þvert á móti var það nauðaómerkilegt. En það var svo fullkomin hversdagsleg vignetta af einum degi í samfélaginu; hvað var að frétta af einhverju loðnuskipi, hvað lítri af rjómaís kostaði, þrjár stelpur söfnuðu 4.500 krónum á tombólu fyrir Rauða krossinn. Þessar hversdagslegu heimildir eru alls staðar; á bak við gamlar innréttingar, pakkaðar utan um óhreyft leirtau í kassa í bílskúrnum. Innan í heimabólstruðum sófum. Það er eitthvað smá sorglegt til þess að hugsa að þessari samþjöppuðu heimildasöfnun um allt sem engu máli skiptir ljúki senn.
Ég viðurkenni að sú staðreynd að ég hafi orðið 39 ára á dögunum spilar ákveðna rullu í þessari djúpstæðu nostalgíu. Mér er sagt að þessi aldur sé fyrsta virkilega erfiða forstigs-gráafiðrings árið. Ég finn fiðringinn strax byrja að hríslast um mig og ég hef tekið meðvitaða ákvörðun um að berjast ekki gegn honum, heldur hlaupa frekar með fangið opið inn í storminn. Ég ætla bara að gera þetta allt; fá mér einkaþjálfara og leigubílstjóraleðurjakka. Fá mér stórt tattú af einhverju sem jaðrar við menningarnám. Prufa kannski eitt fíkniefni sem ég er allt of gamall til að höndla og reyna að komast á testesterónkúr hjá einhverjum skottulækni. Kannski prófa eins og eina hirsispillu.
Það er víst eðlilegur farvegur hvers einasta mannsbarns sem hefur tekist að vaxa úr grasi að horfa á allt sem það ólst upp við verða púkó, tilgangslaust, úrelt og jafnvel skaðlegt. Ég viðurkenni að það var samt högg að sjá tvo burðarstólpa æsku minnar mölvaða í sömu vikunni. Það er talsvert lengra síðan ég heimsótti vídeóleigu en las dagblað, en það er samt smá högg að Aðalvídeóleigan sé farin. Ég ólst nefnilega upp inni á vídeóleigum eins og svo margir af minni kynslóð. Mín fyrsta hverfisvídeóleiga var Tröllavídeó og þar eyddi ég ótal klukkustundum. En ég fór ekki þangað inn til að leigja spólur, ég var nefnilega Betamax barn.
Fyrir þá sem ekki vita var Betamax staðallinn sem keppti við VHS en varð undir. Við erfðum Betamax tækið hennar ömmu og fyrstu ár æsku minnar áttum við bara svona 10 Betamax spólur og nánast ómögulegt að fá fleiri leigðar. Tröllavídeó var því ekki vídeóleiga fyrir mér, heldur draumaverksmiðja þar sem spóluhulstrin sjálf voru gluggar inn í annan veruleika sem var einungis skapaður af mínu ímyndunarafli. Ég sá þessar myndir aldrei, en hulstrin sögðu mér alls konar sögur; Fright Night, Curtains, Critters, Fortress, Prince of Darkness, Blade Runner og ótal fleiri. Það var risastórt plakat fyrir hundamyndina Bingo uppi á vegg þarna í ábyggilega áratug sem ég sá heldur aldrei, en ímyndaði mér hvaða ævintýri þessi hressi Kaliforníu-hvutti væri að fara að lenda í. Ég átti í sérstaklega tristu sambandi við hulstrið utan af The Last Boy Scout þar sem ég ímyndaði mér að maðurinn með byssuna og maðurinn með ameríska fótboltann ættu svo djúpa og merkingaþrungna vináttu, vináttu sem mig dreymdi sjálfan um að eiga. Svona eftir á að hyggja var ég frekar skrítið og raunamætt barn.
Ég vissi ekkert um þessar myndir nema bara það sem hulstrið sagði mér. Ég gat ekki flett þeim upp á Rotten Tomatoes eða lesið um leikstjórann á Wikipediu. Aldrei séð trailer eða lesið tíst. Það besta sem maður fékk voru munnmælasögur frá vini sem átti eldri bróður sem hafði kannski séð Universal Soldier í foreldralausu barnaafmæli.
Að horfa á þessa frumstoð æsku minnar hverfa er ábyggilega sama tilfinning og forfeður okkar upplifðu þegar að síðustu einokunarversluninni var lokað, eða hætt var að selja selkjöt í matvöruverslunum, eða þegar stóridómur byrjaði að krefjast dauðadóms fyrir sifjaspell. Allar kynslóðir hafa syrgt sína þjóðfélagsbreytingu.
„ Ok, ég sé að þú hefur enga sjálfsvirðingu þannig að tékkaðu aðeins á Farmer Wants a Wife.“ Og áður en maður veit af er maður farinn að horfa á eitthvað sem heitir MILF Manor.“
Af ótta við að hljóma eins og bókstaflega allir lúddítar allra kynslóða sem á undan mér komu þá finnst mér samt eins og þessi breyting sé öðruvísi. Ekki endilega vídeóleigurnar eða dagblöðin sem slík, heldur brotthvarf hins áþreifanlega veruleika. Allt er að hverfa inn í faðm algrímsins; tónlistin sem við hlustum á, kvikmyndirnar okkar, ljósmyndir sem við tökum, meira og minna allt sem við skrifum. Við eyðum heilu kvöldunum og skrunum heilalaust í gegnum hundruð möguleika inni á Netflix án þess að finna neitt; algrímið eins og köttur sem kemur inn með 40 hálfdauða fugla í von um að okkur muni líka við einhvern þeirra. Og þegar við loksins veljum eitthvað fer pavlovska eilífðarvélin í gang sem reynir að flokka okkur, skilgreina og hnoða. „Ég sé að þú vildi horfa á Love Island, hvernig væri þá að kíkja aðeins á Too Hot to Handle? Ok, ég sé að þú hefur enga sjálfsvirðingu þannig að tékkaðu aðeins á Farmer Wants a Wife.“ Og áður en maður veit af er maður farinn að horfa á eitthvað sem heitir MILF Manor. Þegar maður hefur óheftan aðgang að öllu missir hver og einn hlutur einhvern veginn merkingu sína. The Last Boy Scout er bara eitthvert frímerki í hafsjó af titlum í undirflokknum „90s Action Movies You Might Like“.
Ástæðurnar fyrir þessari þróun eru margs konar: breyttar neysluvenjur, tæknibyltingar og aukin samkeppni. En ég held að einn stærsti þátturinn sé fjölþætt áreiti. Allt eru fjölmiðlar, allt eru upplýsingar, stjörnufréttir úit um allt, kvikmyndir, þættir, tónlist. Miðlunin verður bara hátíðnisuð. Fantasían um hið óþekkta er nánast horfin.
Gervigreindarbyltingin er næsta skrefið. Þar sem verkfærin og miðlunin eru ekki bara formlaus, heldur sköpunin sjálf líka. Handverkið byrjar að missa merkingu. Og alveg eins og við missum verðmætamatið á tónlist og kvikmyndum er hætt við að verðmætamat okkar á sköpunarferlinu sjálfu gjörbreytist. Það að skrifa texta, taka mynd og skapa mun líklega umbyltast. Mörkin milli þess hvað okkur finnst vera einhver hlutlægur sannleikur eru nú þegar orðin óskýr og þetta mun líklega flækja þá þróun enn hraðar. Það eru auðvitað alls konar spennandi tækifæri í þessu, og sköpunarkraftur mannsins mun ekkert hverfa, ekki frekar en að Spotify og Netflix drápu ekki tónlist og kvikmyndir. Þvert á móti.
En þótt ég geri mér enga grein fyrir hvernig þróunin verður þá veit ég samt að markaðurinn er löngu byrjaður að hlaupa til að þróa hraðar, smyrja tækninni inn í allt, pakka inn og selja án þess að hafa minnstu hugmynd um langtíma afleiðingarnar. Kannski verða þær engar, kannski stórkostlegar, eða kannski verður til einhver HAL 9000 sjálfsvitund sem ákveður að besta niðurstaðan fyrir mannkyn sé að læsa okkur inni í neðanjarðarbyrgi og neyða okkur til að horfa á gervigreindarþróaða eilífðarútsendingu af MILF Manor í þúsund ár á meðan náttúran og loftslagið jafnar sig.
Ég geri mér grein fyrir að hluti þessa ótta er 39 ára maður að berjast við vindmyllur tímans eins og allir aðrir 39 ára menn sögunnar sem horfðu á æsku sína hverfa ofan í kviksyndið. Og ætli ég verði ekki eins og forfeður mínir í leigubílstjóraleðurjakkanum að neyða börnin mín til að spila Super Mario Bros 3 svo við eigum einhvern tengipunkt í upplifunum okkar. En ég mun svo þurfa að horfast í augu við að þau munu upplifa allt annan veruleika, allt aðra mótunarþætti sem ég hef engar forsendur til að skilja.
Ég vona bara að þeirra vídeóleiguminning verði ekki bara allar stundirnar sem þau eyddu með MILF Manor.
Athugasemdir (1)