Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Hverjir sögðu já og hverjir sögðu nei?

Alls greiddu 38 þing­menn at­kvæði með út­lend­inga­frum­varp­inu sem sam­þykkt var í gær. 15 sögðu nei og 10 voru fjar­ver­andi. Heim­ild­in tók sam­an helstu um­ræð­urn­ar þeg­ar þing­menn gerðu grein fyr­ir at­kvæði sínu.

Hverjir sögðu já og hverjir sögðu nei?
Mótmæli Ýmis mótmæli hafa verið hér á landi í gegnum tíðina vegna útlendingastefnu Íslendinga. Mynd: Bára Huld Beck

Umdeilt útlendingafrumvarp Jóns Gunnarssonar var samþykkt í gær og ekki er ofsögum sagt að nokkurrar úlfúðar hafi gætt í þingsal  á milli þeirra sem samþykktu frumvarpið og þeirra sem mótmæltu því. 

Helst hafa Vinstri græn verið gagnrýnd fyrir að styðja frumvarpið en andstæðingar þess segja að það skerði réttindi fólks sem leitar til Íslands eftir alþjóðlegri vernd. Þeir sem greiddu atkvæði með frumvarpinu voru þó ekki á því máli eins og heyra mátti á sumum þeirra sem gerðu grein fyrir atkvæði sínu í ræðustól Alþingis. 

Heimildin fór yfir þingmannalistann og skráði hverjir voru með og á móti frumvarpinu – og hverjar helstu umræðurnar voru þegar atkvæðin voru greidd. 

 • Þingmenn og varaþingmenn Sjálfstæðisflokksins sem greiddu með frumvarpinu voru þrettán talsins:

Ásmundur Friðriksson, Berglind Harpa Svavarsdóttir, Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Bryndís Haraldsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Guðrún Hafsteinsdóttir, Haraldur Benediktsson, Hildur Sverrisdóttir, Jón Gunnarsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Óli Björn Kárason og Vilhjálmur Árnason. 

Fjórir voru fjarverandi: Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Birgir Þórarinsson, Diljá Mist Einarsdóttir og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir.

 • Þingmenn og varaþingmenn Framsóknarflokksins sem greiddu með frumvarpinu voru tólf:

Ágúst Bjarni Garðarsson, Ásmundur Einar Daðason, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Lilja Alfreðsdóttir, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Stefán Vagn Stefánsson, Willum Þór Þórsson og Þórarinn Ingi Pétursson.

Einn var fjarverandi: Ingibjörg Isaksen.

 • Þingmenn Vinstri grænna sem greiddu með frumvarpinu voru sex:

Bjarni Jónsson, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, Jódís Skúladóttir, Orri Páll Jóhannsson, Steinunn Þóra Árnadóttir og Svandís Svavarsdóttir.

Tveir voru fjarverandi: Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Katrín Jakobsdóttir.

 • Þingmenn og varaþingmenn Flokks fólksins sem greiddu atkvæði með frumvarpinu voru sex:

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon, Sigurjón Þórðarson og Tómas A. Tómasson.

 • Þingmenn Miðflokksins sem greiddu atkvæði með frumvarpinu var einn:

Anna Kolbrún Árnadóttir

Einn var fjarverandi: Bergþór Ólason.

 • Þingmenn og varaþingmenn Pírata sem greiddu gegn frumvarpinu voru fimm talsins:

Andrés Ingi Jónsson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Eva Sjöfn Helgadóttir og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.

Einn þingmaður var með fjarvist: Halldóra Mogensen. 

 • Þingmenn og varaþingmenn Samfylkingarinnar sem greiddu gegn frumvarpinu voru sex talsins:

Helga Vala Helgadóttir, Jóhann Páll Jóhannsson, Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir, Viðar Eggertsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir. 

 • Þingmenn Viðreisnar sem greiddu gegn frumvarpinu voru fjórir talsins:

Guðbrandur Einarsson, Hanna Katrín Friðriksson, Sigmar Guðmundsson og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.

Einn var fjarverandi: Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. 

Viðvörunartákn fyrir alla sem myndu annars koma til Íslands

Björn Leví Gunnarssonþingmaður Pírata

Heilmiklar umræður sköpuðust fyrir atkvæðagreiðsluna og margir gerðu einnig grein fyrir atkvæði sínu. Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata sagði þegar hann greiddi atkvæði að í raun og veru væri verið að lemja fólk til hlýðni. „Það er verið að sparka því út á götuna til þess að vera einhvers konar viðvörunartákn fyrir alla sem myndu annars koma hingað, fólk sem ætti rétt á að koma af því að það er raunverulegir flóttamenn sem efast þá um að það verði tekið á móti þeim með opnum örmum hérna á Íslandi og leita þá eitthvert annað,“ sagði hann. „Hér er talað um stjórnleysi. Það er þessi ríkisstjórn sem er við stjórnleysisvöld. Stjórnleysið er þeim að kenna. Þeirra eigið stjórnleysi, er sagt. Þannig að ég hvet grasrót þessara flokka, ef einhver er eftir, til að spjalla aðeins við fulltrúa sína á næstu fundum og spyrja þau hvað hafi fengið í staðinn fyrir að samþykkja þetta frumvarp.“

„Útlendingalög okkar Íslendinga eru enn full af mannúð.“
Bryndís Haraldsdóttir
þingmaður Sjálfstæðisflokksins
Bryndís Haraldsdóttirþingmaður Sjálfstæðisflokksins

Bryndís Haraldsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar kom í kjölfarið í pontu og sagði að verið væri að afgreiða gott frumvarp og góð lög. „Útlendingalög okkar Íslendinga eru enn full af mannúð. Þau eru núna skynsamlegri, þau eru hófsöm og þau eru til þess fallin að taka vel utan um fólk sem hingað leitar og er raunverulega á flótta.“ 

Allar breytingar til góðs

Guðmundur Ingi Guðbrandsson varaformaður Vinstri grænna og félags- og vinnumarkaðsráðherra gerði grein fyrir sínu atkvæði og sagði að VG hefðu nálgast þetta mál frá upphafi með það fyrir augum að ná fram jákvæðum breytingum á málinu. „Við teljum mikilvægt að það komi fram hér að lögin sem samþykkt eru í dag eru gjörbreytt frá því frumvarpi sem lagt var fram í haust, hvað þá því sem var lagt fram í upphafi fyrir fimm árum. Allar þær breytingar hafa verið til góðs og fært málið nær áherslum okkar Vinstri grænna. 

Guðmundur Ingi GuðbrandssonFélagsmálaráðherra

Þessi málaflokkur er mjög mikilvægur. Það eru risastórar áskoranir sem eru fram undan og við stöndum frammi fyrir í móttöku flóttafólks en við ætlum okkur að gera vel í þeim málaflokki. Við í VG höfum skýra sýn á þennan málaflokk, sýn sem er byggð á mannvirðingu og félagslegum gildum. Við viljum skýra stefnu í málefnum innflytjenda og flóttafólks sem er ekki til í dag en nú er unnið að undir forystu ráðuneytis míns,“ sagði ráðherrann. 

Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingarinnar tók ræðu Guðmundar Inga óstinnt upp. Hún sagði að ekki í eitt einasta skipti hefði félagsmálaráðherra mætt í þingsal til að taka þátt í umræðu um málaflokk sem þó heyrði að hluta til undir hann. 

Þessir flokkar eru orðnir eins þó að Vinstri græn og Framsókn reyni að skreyta sig með mannúð á tyllidögum.“
Helga Vala Helgadóttir
þingmaður Samfylkingarinnar
Helga Vala Helgadóttirþingmaður Samfylkingarinnar

„Ekki í eitt einasta skipti hefur hann þorað að koma hingað þrátt fyrir ítrekuð áköll okkar frá því í október um að eiga orðastað við ráðherra sem fer að hluta með málaflokk þann sem við erum hér að greiða atkvæði um í kvöld. Orð hans hér í pontu í atkvæðagreiðslu skipta engu máli gegn skýrum stuðningi Vinstri grænna, þar á meðal hæstvirtur félagsmálaráðherra, við þetta frumvarp sem skerðir réttindi fólks í leit að vernd á Íslandi. Til hamingju, Vinstri græn, til hamingju, Framsóknarflokkur, til hamingju Framsóknarfólk með það að hafa nú gert stefnu Sjálfstæðisflokksins í málefnum fólks á flótta að ykkar. Ykkar gildi falla saman. Ykkar rætur liggja greinilega saman. Þessir flokkar eru orðnir eins þó að Vinstri græn og Framsókn reyni að skreyta sig með mannúð á tyllidögum,“ sagði Helga Vala. 

Segir farið með ósannindi

Jódís Skúladóttirþingmaður VG

Jódís Skúladóttir þingmaður Vinstri grænna og nefndarmaður í allsherjar- og menntamálanefnd gerði grein fyrir sínu atkvæði en hún sagði að það væri með ólíkindum að sitja í þingsal og hlusta á ræðu eftir ræðu þar sem farið væri með ósannindi, gert lítið úr þeim miklu breytingum sem orðið hefðu á frumvarpinu. „Það sem hér er undir er til dæmis ákvæði þar sem verið er að mæta og taka tillit til umsagna embættis landlæknis sem minnihlutinn í allsherjar- og menntamálanefnd var gríðarlega upptekinn af í vinnu nefndarinnar. Ég er ofsalega stolt af því að VG hafi komið þessari breytingu í gegn og þess vegna segi ég að sjálfsögðu já,“ sagði hún.  

Dómsmálaráðherra sagðist í kjölfarið þegar hann gerði grein fyrir atkvæði sínu fagna niðurstöðunni. „Ég verð að segja að það er búið að vera áhugavert að fylgjast með þessari atkvæðagreiðslu, alveg eins og það var áhugavert að fylgjast með umræðunni. Umræðan gekk mikið til út á það að af hálfu stjórnarandstöðunnar, sérstaklega Pírata og Viðreisnar, að það væri ekkert í þessu frumvarpi sem breytti neinu. Svo hafa hér verið breytingartillögur á breytingartillögur ofan, varatillögur, aukatillögur og hvað á að kalla þetta, allt með heitum ræðum um afleiðingar frumvarpsins og þær breytingar sem það hefði í för með sér og því yrði að koma með breytingartillögur. 

Manni datt stundum Ragnar Reykás í hug hér í kvöld, en þetta var dyggilega stutt af háttvirtum þingmönnum Viðreisnar og svona er nú staðan. Því held ég að þetta hafi verið góð staðfesting á því fyrir okkur sem fylgjum þessum málum og þessu frumvarpi, að hér er verið að vinna gott verk,“ sagði Jón. 

„Hálfóhuggulegt“ að verið sé að þrengja að flóttamönnum

Logi Einarsson þingflokksformaður Samfylkingarinnar

Logi Einarsson þingmaður Samfylkingarinnar sagði þegar hann kom í pontu að fram hefði komið að 12 ár væru síðan stríðið í Sýrlandi braust út. „Af því tilefni hittust forseti Sýrlands og forseti Rússlands, þar sem sá fyrrnefndi lýsti yfir eindregnum stuðningi við stríðið í Úkraínu. Það er hálfóhuggulegt að við skulum vera að þrengja að þeim nokkru flóttamönnum af yfir 100 milljónum sem eru á ferð um heiminn og leita eftir örlitlu öryggi. Þetta er mjög dapurlegur dagur og ég segi nei,“ sagði hann. 

Þingmaður Viðreisnar, Sigmar Guðmundsson, lét sig ekki vanta þegar atkvæði voru greidd og svaraði dómsmálaráðherra. Hann sagði að þetta væri dapur dagur og það væri sömuleiðis dapurlegt að ráðherrann skyldi koma í pontu sigri hrósandi yfir því að hafa skert réttindi viðkvæms hóps á sama tíma og hann afflytti allt það sem gagnrýnt hefði verið við málið. „Þegar talað er um að þetta frumvarp breyti engu er verið að vísa í orð hæstvirts dómsmálaráðherra þess efnis að hér ríki neyðarástand, hér sé stjórnleysi og ógn steðji að samfélaginu. Samt herðir þetta frumvarp bara á lífi örfárra einstaklinga. 

Sigmar Guðmundssonþingmaður Viðreisnar

Við munum ekki standa hér eftir ár, hvað þá í allsherjar- og menntamálanefnd þegar hæstvirtur dómsmálaráðherra ætlar að flytja sína skýrslu, og velta fyrir okkur hversu hratt það gerðist eiginlega að hælisleitendum og flóttafólki fækkaði á Íslandi. Þetta frumvarp nær bara ofur einfaldlega ekki til þess. Það nær til lítils afmarkaðs hóps, verið er að þrengja réttindi þess hóps en það breytir litlu fyrir heildarsamhengi hlutanna. Það er verið að selja það úti í samfélaginu af hæstvirtum dómsmálaráðherra og stjórnarþingmönnum að verið sé að bregðast við einhverri ógn. Það er ekki verið að því,“ sagði Sigmar. 

Yfirlýsing um það að „flóttafólk sé upp til hópa tortryggilegt“

Þórhildur Sunna Ævarsdóttirþingflokksformaður Pírata

Þingmenn Pírata hafa verið áberandi í umræðum um frumvarpið síðan það var sett fram og gagnrýnt það óspart. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir sagði þegar hún gerði grein fyrir atkvæði sínu að frumvarpið myndi ekki fækka flóttafólki hér á landi og að það væri það sem þingmenn meintu þegar þeir sögðu að þetta frumvarp breytti engu í þeim efnum. „Þetta frumvarp mun hins vegar brjóta á réttindum flóttafólks, þar á meðal flóttabarna, brjóta á rétti þeirra til sjálfstæðrar efnismeðferðar. Þetta frumvarp er vont í alla staði. Og enn og aftur: Þetta er yfirlýsing. Þetta er yfirlýsing ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur um það að flóttafólk eigi ekki að finna fyrir því að það sé velkomið á Íslandi. Þess í stað á það að upplifa tortryggni í sinn garð. Það á upplifa að það njóti ekki réttinda til jafns við aðra á Íslandi, að það sé annars flokks. Þess vegna er þetta sorgardagur, vegna þess að við erum að leiða í lög að við erum tilbúin að mismuna fólki, byggt á því hvaðan það er að koma.“

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir þingmaður Pírata sagði um atkvæðagreiðsluna að þetta væri mikill sorgardagur og ekki bara sorgardagur, þetta væri skammardagur fyrir Alþingi Íslendinga.

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttirþingmaður Pírata

„Hæstvirtur dómsmálaráðherra fer hér mikinn um þann fjölda sem sækir hingað. Þetta frumvarp mun ekki breyta neinu um það, engu um það, ekki að ég sé á meðal þeirra sem telja það endilega vera vandamál. Hæstvirtur dómsmálaráðherra talaði um góða og vandaða vinnu. Það sem er að gerast hér er að það hefur tekið Sjálfstæðisflokkinn fimm ár að koma þessari stefnuyfirlýsingu í lög, stefnuyfirlýsingu sem segir, líkt og nefnt var áðan: Flóttafólk er ekki velkomið. Þetta er yfirlýsing um það að flóttafólk sé upp til hópa tortryggilegt. Þetta lýsir andúð í garð þessara hópa,“ sagði hún meðal annars. 

Kjósa
14
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (2)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
 • Guðrún Konný Pálmadóttir skrifaði
  Takk fyrir frábæra samantekt, lagði nefnilega ekki á mig að hlusta á umræðuna og niðurstaðan mjög svo fyrirsjáanleg.
  1
 • K Hulda Guðmundsdóttir skrifaði
  Fín samantekt. Takk
  1
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu