Það er kunnara en frá þurfi að segja að þróun íslensks efnahagslífs á undanförnum árum hefði orðið önnur ef ekki hefði komið til að hingað hefur flutt mikill fjöldi útlendinga. Hér hefur verið eftirspurn umfram framboð af innlendu vinnuafli og eftir að för vinnuafls innan EES-svæðisins var gerð frjáls hafa íbúar svæðisins haft rétt á að flytja hingað í leit að atvinnu og það hafa margir gert. Til landsins hefur einnig flutt fólk annars staðar frá að ógleymdum flóttamönnum sem hingað hafa leitað.
Innflytjendur eru atvinnulífinu afar mikilvægir
Árið 2010 voru umsvif á vinnumarkaði í lágmarki eftir fjármálahrunið og síðan þá hefur fjöldi starfandi á landinu (samkvæmt staðgreiðsluupplýsingum) vaxið um 30%, samtals um tæplega 52.000 starfandi einstaklinga. Af þessum fjölda eru 58% innflytjendur bæði af fyrstu og annarri kynslóð.
Í sumum atvinnugreinum hefur störfum fjölgað bæði hjá þeim sem eru með íslenskan bakgrunn og hjá innflytjendum. Í öðrum hefur íslenskum starfsmönnum fækkað meðan innflytjendum hefur fjölgað. Dæmi um hið síðarnefnda eru fiskiðnaður og annar matvælaiðnaður en einnig málmframleiðsla (ál og málmblendi). Afleiðing þessa er að hlutur innflytjenda er orðinn mjög hár í mörgum atvinnugreinum. Þannig er hlutur innflytjenda nær tveir þriðju starfsmanna í atvinnugreininni rekstur gististaða. Hann er 55% í fiskiðnaði og yfir ⅔ kvenna í greininni eru innflytjendur. Í matvæla- og drykkjarvöruiðnaði er hlutur innflytjenda nær 48%. Í greininni leigustarfsemi og ýmis sérhæfð þjónusta sem innifelur m.a. rekstur bílaleiga en einnig hreingerningarþjónustu er hann 47%. Það er því ekki ofsögum sagt að þessar atvinnugreinar eru algerlega háðar vinnuframlagi innflytjenda. Hlutur þeirra er misjafnlega hár eftir atvinnugreinum en hann er lægstur í fjármála- og vátryggingastarfsemi, 2,5%.
En hvað bera innflytjendur úr býtum?
Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðslu til skatts munar töluverðu á launatekjum starfsmanna eftir því hvort þeir eru með innlendan eða erlendan bakgrunn. Eins og alkunna er er einnig launamunur eftir kyni og þann mun er einnig að finna meðal innflytjenda. Þetta má sjá á mynd 1. Rétt er að minna á að þessar tölur segja ekkert til um það vinnumagn sem er að baki launatekjum en það er mismunandi eftir kynjum. Ég hef ekki aðgang að upplýsingum nema frá árinu 2017 en samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu fyrir það ár unnu bæði konur og karlar lengri vinnutíma ef þau voru innflytjendur en með íslenskan bakgrunn. Munurinn var meiri hjá körlum en konum.
Launamunur milli innflytjenda og annarra er meiri hjá körlum en konum. Munar 20% hjá körlum sem eru innflytjendur miðað við karla með íslenskan bakgrunn. Hjá konunum er munurinn 12%. Laun innflytjenda hækkuðu umtalsvert meira en annarra árið 2022 og hækkunin var meiri hjá konum en körlum, óháð bakgrunni.
Peningasendingar heim
Þessar tölur sýna að innflytjendur búa við lægri tekjur en aðrir landsmenn. Það hindrar þá þó ekki í að verja hluta af tekjum sínum til að senda fé til baka til heimalandsins væntanlega til að bæta afkomu fjölskyldu og skyldmenna, einkum þeirra sem búa í löndum sem eru fátækari en Ísland. Seðlabanki Íslands safnar upplýsingum um greiðslur sem einstaklingar hérlendis senda einstaklingum erlendis. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) og Alþjóðabankinn (World Bank) safna þessum upplýsingum síðan saman fyrir öll lönd heimsins. Upplýsingar um þetta eru að vísu óbeinar að því leyti til að um er að ræða gögn um peningasendingar milli einstaklinga í mismunandi löndum en ekki sérstaklega frá innflytjendum. Þar geta allt eins verið innlendir aðilar að senda fjármuni utan en eins og fram kemur hér á eftir eru sterkar vísbendingar um að uppistaða þessara sendinga sé frá innflytjendum til fjölskyldu og ættingja heima fyrir. Þetta er sýnt á mynd 2.
Myndin sýnir að sendingar einstaklinga á fé til útlanda jukust hægt fram að fjármálahruninu en þá drógust þær saman. Innflytjendum fækkaði nokkuð, verðbólga rauk upp og gengi íslensku krónunnar gerði heimsendingar dýrari og erfiðari. Þegar tók að birta til fjölgaði innflytjendum og þessar greiðslur sömuleiðis. Sú þróun hélt áfram fram að samdrættinum vegna kórónuveirunnar. Þá dró verulega úr þessum sendingum enda drógust tekjur og atvinna mjög saman en innflytjendum fækkaði ekki. Síðan þá hefur hvort tveggja farið vaxandi fjöldi innflytjenda og beinar millifærslur einstaklinga til útlanda.
Á myndinni er sýnt að fylgnistuðull (R2) milli þessara stærða yfir tímabilið á myndinni er 0,89 sem er mjög sterk fylgni en segir þó ekkert til um orsakasamband. Það geta verið ýmsar ástæður fyrir peningasendingum milli einstaklinga og alls ekki víst að þær komi allar frá innflytjendum. Fylgnin sem sýnd er á myndinni bendir þó sterklega til þess að þeir eigi umtalsverðan hlut að máli.
44 milljarðar í millifærslur yfir landamæri árið 2022
Heildarupphæð millifærslna einstaklinga yfir landamæri samkvæmt þessum heimildum nam tæplega 44 milljörðum íslenskra króna í fyrra. Þótt öruggt sé að hluti þessara sendinga sé frá fólki með íslenskan bakgrunn er fróðlegt að upphæðin nemur næstum 13% af staðgreiðsluskattskyldum tekjum innflytjenda hér á landi í fyrra.
Peningasendingar milli einstaklinga geta verið af ýmsum tilefnum en í sumum löndum eru þær afar mikilvægur þáttur í gjaldeyrisöflun einkum í tekjulágum ríkjum þar sem íbúar fara til annarra landa að afla sér tekna. Taka má dæmi af Líbanon þar sem heimsendir fjármunir námu 38% af landsframleiðslu í fyrra að mati Alþjóðabankans. Þær eru einnig háar í löndum þar sem fólk getur sótt vinnu yfir landamæri, t.d. í Lúxemborg og Austurríki. Rétt er að halda til haga að Ísland móttekur einnig peningasendingar einstaklinga en þær eru þó töluvert umfangsminni en sendingar héðan og hafa farið heldur minnkandi á undanförnum árum.
Millifærslur einstaklinga milli landa skipta meira máli í heimshagkerfinu en þróunaraðstoð
Þær eru taldar hafa numið samtals 626 milljörðum Bandaríkjadala í fyrra (Alþjóðabankinn) meðan opinber þróunaraðstoð í öllum heiminum er talin hafa numið 161 milljarði dala árið 2021 (OECD) og þar af var nokkur hluti tengdur kórónuveirufaraldrinum. Millifærslur frá Íslandi eru einnig mun hærri en opinber þróunaraðstoð. Hún er metin 71 milljón Bandaríkjadala af OECD, um fimmtungur af millifærslum einstaklinga.
Það er engum vafa bundið að innflytjendur hafa lagt mjög mikið af mörkum í þeirri efnahagsframvindu og lífskjarabótum sem Ísland hefur upplifað á undanförnum árum. Þeir hafa tekið þátt í verðmætasköpuninni og það svo mjög að ýmsar af mikilvægustu atvinnugreinum landsmanna mundu alls ekki komast af ef ekki væri fyrir vinnuframlag þeirra. Þeir hafa einnig lagt sitt til samfélagsins í formi skatta. Ætla má að beinir skattar innflytjenda árið 2022 hafi numið yfir 80 milljörðum af rúmlega 340 milljarða heildartekjum. Því til viðbótar hafa þeir lagt heimalandinu til fjármuni sem gætu numið allt að helmingi beinna skattgreiðslna. Geri aðrir betur.
Höfundur er skipulagsfræðingur
Athugasemdir