Einu sinni var íslenska þjóðin samanbitin og þögul, með kreppta hnefana öslaði hún áfram í kargaþýfinu, enginn kvartaði yfir hlutskipti sínu, jafnvel þótt steinninn yxi í maganum. Svo varð einhverskonar bylting. Við fórum að opna okkur hvert fyrir öðru. Ekki bara við helstu trúnaðarvini, sálfræðinga og lækna heldur, kviss bamm búmm, fyrir allri þjóðinni.
Það byrjaði með einhverskonar keppni í óheppni, þar sem þjóðin kepptist, á forsíðum blaðanna, við að úthella hjarta sínu eftir hverskyns ófarir og árekstra eða hrósa happi yfir því að hafa höndlað sannleikann. Það sem einu sinni þótti argasti dónaskapur að bera á borð fyrir aðra, varð allt í einu bara hversdagslegur viðburður. Hógværu síðmiðaldra hjónin í næsta húsi sem höfðu fram að þessu stundað golf og rótarý, voru komin í sjónvarpsviðtal um tantra-kynlíf, ólíklegasta fólk var reiðubúið að ræða hægðir sínar í smáatriðum með nafni og mynd gegn afslætti af góðgerlum og trefjum.
Svo komu samfélagsmiðlar til sögunnar og stigu á bensíngjöfina.
Þjóðfundurinn óx og dafnaði og inn í þetta flæktu sig allskonar byltingar sem innibáru uppgjör við fortíð og framtíð og samfélagsmiðlar þar sem hægt er á fimm mínútum að fletta upp fólki og ná fram upplýsingum sem leyniþjónustur einræðisríkja reyndu áður að fá fram með því að setja helming íbúa sína í stífa njósnavinnu.
Áður en við var litið vorum við öll orðin leikarar á sviði, þar sem sýnd var uppfærslan á okkar eigin lífi, öðrum til glöggvunar eða viðvörunar, daglega vorum við hengd út á samfélagsmiðlum eða í fjölmiðlum, fyrir eigin vöðvaafli eða annarra, berrössuð, öfundsjúk, frek, móðguð og vanrækt, og fannst við annaðhvort betri en allir aðrir eða stórkostlega svikin þótt við værum með munninn fullan af gleðipillum og aðgangspassa að velferðarríkinu Íslandi.
„Leikritið fjallar um fimmtíu mismunandi ástæður þess að greinargerð sem er sögð innihalda ábendingar um klíkuskap, vanhæfi og slæma meðferð á almannafé á ekki erindi fyrir sjónir almennings.“
En fyrir okkur sem erum að drukkna í uppýsingaflóðinu er gott til þess að vita að það er til fólk sem er ósnortið af þessu gerningaveðri og hefur gömul gildi í hávegum.
Steingervingahópur sem nefnist Alþingi Íslendinga setti í vikunni á svið leiksýninguna Greinargerðin sem fær ekki að vera skýrsla. Leikritið fjallar um fimmtíu mismunandi ástæður þess að greinargerð sem er sögð innihalda ábendingar um klíkuskap, vanhæfi og slæma meðferð á almannafé á ekki erindi fyrir sjónir almennings.
Það er ekki nóg með að við megum ekki sjá þessar ábendingar. Það er líka bannað að spyrja um þær.
Þessar prinsippástæður er hægt að draga saman í einni setningu: Þær eru settar fram í greinargerð en ekki skýrslu.
Ef greinargerðir færu almennt að leika lausum hala og látast verða skýrslur myndi skapast alveg gríðarleg upplýsingaóreiða.
Við megum því ekki vita hvað maður sem var í vinnu hjá okkur, skrifaði í greinargerð um hvernig farið var með þjóðareignir fyrir 400 milljarða eftir hrun. Við eigum að lesa skýrsluna sem annar maður og jákvæðari var fenginn til að skrifa.
Guði sé lof að einhver kemur skikki á upplýsingaóreiðuna.
Við vitum allt um manninn í næsta húsi sem lamdi konuna sína, gyllinæðina sem hrjáði hann, afa hans sem misnotaði frænku konunnar hans og börnin hans sem voru á einhverfurófi með ADHD. Við getum flett myndum af honum og afkomendum hans upp á Facebook, rakið á Íslendingabók hvort við erum skyld honum, skoðað skattskyldar tekjur hans þegar álagningarskrár liggja fyrir, en ef hann hefði náð sér í svosem hálfan milljarð af ríkiseignum fyrir flokkspólitísk tengsl eða velvild og einhver umboðsmaður okkar fett fingur út í það. Þá er alveg ljóst að við fáum ekkert að vita því athugasemdin var sett fram í greinargerð en ekki skýrslu.
28 steingervingar leiddu okkur út úr eyðimörk upplýsingaóreiðunnar. Það er gott til þess að vita að það eru enn einhver prinsipp eftir í þessu landi. Fólk sem er jafnvel til í að deyja (út) fyrir málstaðinn eins og VG sem lá ekki á liði sínu í þessu þjóðþrifamáli.
Margt verður um þau sagt eftir þessa ríkisstjórnartíð, en enginn getur sagt um þau eftirleiðis, að þau hafi leyft greinargerð að verða skýrsla.
Það er þó eitthvað.
Sem aftur leiðir hugann að setu helstu hagsmunagæslumanna Sjálfstæðisflokksins í forsetastól Alþingis. Hvað er þessi maður, sem situr svo þungt á umræddri skýrslu ("bara ein skýrsla í hverju máli" -og þessi kom reyndar fyrst), að vilja þarna? Hvað kostar það þjóðina og hverjir eru að hagnast óeðlilega á kostnað þjóðarfjárhags?
Og svo maður snúi sér að laxeldinu, hagsmunagæslunni og fleiri "Leyndarhvolsígildum", þá sé ég ekki betur en forveri núverandi þingforseta, Einar Kr. Guðfinnsson, hafi freklega misnotað aðstöðu sína, eftir að hann lét af starfi, til að hygla að eigendum og verðandi eigendum laxeldisfyrirtækja og þar með fjárplógsstarfsemi Norðmanna. Skyldi það dæmi falla undir landráð? Í lögum þar að lútandi segir: "Hver, sem kunngerir, skýrir frá eða lætur á annan hátt uppi við óviðkomandi menn leynilega samninga, ráðagerðir eða ályktanir ríkisins um málefni, sem heill þess eða réttindi gagnvart öðrum ríkjum eru undir komin, eða hafa mikilvæga fjárhagsþýðingu eða viðskipta fyrir íslensku þjóðina gagnvart útlöndum, skal sæta fangelsi allt að 16 árum."
Þessu til viðbótar held ég að títtnefndur Jóhann Guðmundsson, fv. starfsmaður sjávarútvegsráðuneytis, hafi verið leiksoppur í "stóra frestunarmálinu". Hinn raunverulegi leikstjórnandi hefur væntanlega verið ráðherrann, Kristján Þ. Júlíusson. Hverra erinda gekk hann þar? Á áðurnefnd tilvitnun í lög um landráð líka við þar?