Þessi grein birtist fyrir meira en 2 árum.

Fjórum sinnum fleiri sóttu um vernd á Íslandi árið 2022 en á fyrra metári

Næst­um fjór­ir af hverj­um fimm sem sóttu um vernd á Ís­landi í fyrra koma frá Úkraínu eða Venesúela. Ís­land tók á móti mun færri kvóta­flótta­mönn­um á ár­inu 2022 en ári áð­ur.

Fjórum sinnum fleiri sóttu um vernd á Íslandi árið 2022 en á fyrra metári
Flóttafólk Langflestir þeirra sem sækja um vernd á Íslandi koma hingað á grundvelli ákvarðana um sérmeðferð fólks frá tveimur löndum sem teknar voru af ríkisstjórn þeirra flokka sem ráða á Íslandi í dag. Myndin er frá mótmælum flóttafólks á Austurvelli fyrir nokkrum árum, þar sem það mótmælti aðbúnaði sínum. Mynd: Alma Mjöll

Alls sóttu 4.518 manns um alþjóðlega vernd á Íslandi í fyrra. Um metár er að ræða, en áður hafði mesti fjöldi sem sótti um vernd innan eins almanaksárs verið 1.131 árið 2016. Því sóttu fjórum sinnum fleiri um vernd í fyrra en á fyrra metári. 

Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Útlendingastofnunar um fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd

Þar munar langmest um ríkisborgara frá Úkraínu, en alls sóttu 2.345 slíkir um vernd á Íslandi í fyrra. Þeir voru því rúmlega helmingur allra umsækjenda. Alls bjuggu 239 manns þaðan hér á landi í byrjun desember 2021 en 2.521 í byrjun þessa árs. Um er að ræða fólk sem er að flýja stríðs­á­stand í Úkra­ínu í kjölfar innrásar Rússa inn í landið þann 24. febrúar 2022. 

Koma þessa fólks til landsins byggir á ákvörðun sem tekin var 4. mars í fyrra þegar Jón Gunn­­ar­s­­son dóms­­mála­ráð­herra ákvað að virkja ákvæði útlend­inga­laga sem fól í sér að mót­­taka flótta­­manna frá Úkra­ínu hér­­­lendis myndi ná til sömu skil­­greindu hópa og þeirra sem Evr­­ópu­­sam­­bandið hafði ákvarð­að. Í tilkynningu vegna þessa sagði: „Þessi aðferð er fyrst og fremst til þess að geta veitt þeim sem flýja Úkra­ínu skjóta og skil­­virka aðstoð, nánar til­­­tekið tíma­bundna vernd, án þess að mót­takan og aðstoðin verði vernd­­ar­­kerfi Íslands ofviða.“

Fleiri frá Venesúela á einu ári en á fyrra metári

Umsóknir frá ríkisborgurum annarra ríkja en Úkraínu voru 2.173. Þær einar og sér voru næstum tvöfalt fleiri en á fyrra metári, áðurnefndu 2016. Rúmur helmingur þessa hóps kom frá einu landi: Venesúela. Alls óskuðu 1.199 manns þaðan eftir vernd á Íslandi í fyrra. Því komu fleiri frá Venesúela einu saman í leit að vernd á Íslandi á síðasta ári en óskuðu eftir vernd allt árið 2016. 

Þessi mikla aukning í aðsókn fólks þaðan byggir á ákvörðun frá 2018, þegar ákveðið var að Útlend­inga­­stofnun veitti umsækj­endum um alþjóð­­lega vernd frá Venes­ú­ela við­­bót­­ar­vernd með vísan til almennra aðstæðna í heima­­ríki óháð ein­stak­l­ings­bundnum aðstæðum hvers umsækj­anda. Reynt var að breyta þess­­ari fram­­kvæmd frá 1. jan­úar 2022 til að draga úr komu þessa fólks. Kæru­­nefnd útlend­inga­­mála felldi hins vegar úrskurð í júlí síð­­ast­liðnum þar sem stóð að ástandið í Venes­ú­ela hefði ekk­ert lag­­ast frá því að upp­­haf­­lega ákvörð­unin var tek­in, og raunar farið versn­andi „og að umfang og alvar­­leiki glæpa gegn mann­kyni hafi auk­ist.“ Bætt ástand í Venes­ú­ela gat því ekki verið rök­­stuðn­­ingur fyrir því að synja umsækj­endum um við­­bót­­ar­vernd hér á land­i. 

Alls koma um 78,4 prósent allra sem sækja um vernd á Íslandi frá þessum tveimur löndum, Úkraínu og Venesúela, á grundvelli ákvarðana um sérmeðferð fólks þaðan sem teknar voru af ríkisstjórn þeirra flokka sem ráða á Íslandi í dag. 

Það sem af er árinu 2023 hafa þegar borist 535 umsóknir um vernd. Alls eru 411 þeirra frá Úkraínu eða Venesúela. 

Fleiri fullorðnar konur en karlar

Alls komu umsækjendur um vernd frá 63 mismunandi ríkjum. Fyrir utan Úkraínu og Venesúela komu flestir frá Palestínu, eða 232 talsins. Slétt hundrað komu frá Sómalíu, 84 frá Sýrlandi og 73 frá Írak. 

Umsóknum frá einstaklingum sem þegar njóta verndar í öðru ríki fjölgaði um tæpt hundrað milli ára, úr 203 í 302, og umsækjendum frá öðrum ríkjum rúmlega tvöfaldaðist, úr 282 í 596. Með umsækjendum frá öðrum ríkjum er átt við þá sem koma ekki frá öruggu upprunaríki, ekki frá Venesúela og njóta ekki verndar í öðru landi.

Umsóknirnar í heild voru lagðar fram af 3.448 fullorðnum og 1.070 börnum. Karlkyns umsækjendur voru 2.284, kvenkyns 2.231 og þrír skilgreindu sig kynsegin eða annað. Af fullorðna hópnum sóttu fleiri konur um vernd en karlar. Þar munar reyndar einungis um einn einstakling, konurnar voru 1.723 en karlarnir 1.722.

Útlend­inga­stofnun gerir ráð fyrir að flótta­fólk sem kemur hingað til lands í leit að vernd verði 4.900 í ár, miðað við óbreytta stöðu í Úkra­ínu og óbreytta stefnu gagn­vart Venes­ú­ela.

Tókum einungis við 34 kvótaflóttamönnum í fyrra

Sam­kvæmt flótta­manna­stofnun Sam­ein­uðu þjóð­anna voru 103 millj­ónir manna á flótta í heim­inum um mitt ár í fyrra. Um 72 pró­sent þeirra komu upp­haf­lega frá fimm lönd­um: Sýr­landi, Venes­ú­ela, Úkra­ínu, Afganistan og Suð­ur­-Súd­an. Fimm lönd taka við 36 pró­sent þessa hóps. Tyrk­land, sem er með sérstakan samn­ing við Evr­ópu­sam­bandið um að hleypa ekki flótta­mönnum frá Mið­aust­ur­löndum inn, hýsti flesta, eða 3,7 millj­ónir alls. Af ríkjum Evr­ópu­sam­bands­ins stóð Þýska­land með höfuð og herðar yfir aðra og hafði tekið við 2,2 millj­ón­um, eða næstum sex íslenskum þjóð­um. Stór nágranna­ríki landa sem mik­illi flótti er frá; Kól­umbía, Úganda og Pakistan, eru svo hin þrjú sem draga vagn­inn í þessum efn­um.

Fólk á flótta skipt­ist í tvo hópa. Annar er sá sem fjallað var um hér að ofan, og sækir um alþjóðlega vernd eftir að hafa komið sér hingað til lands að sjálfsdáðum. Hinn eru svo­kallað kvótaflótta­fólk sem kemur hingað í boði stjórn­valda. Frá því að Ísland byrj­aði að taka á móti slíkum og út árið í fyrra tókum við á móti sam­tals 888 kvótaflótta­­­­mönnum á 62 árum, eða 13,5 að með­­al­tali á ári. Árið 2019 ætl­uðum við að taka á móti 85 en þeir urðu 74 á end­an­um. Ári síðar stóð til að þeir yrðu 100, em þá var ekki tekið á móti neinum. Ástæðan var sögð kór­ónu­veiru­far­ald­ur­inn. Hann stöðv­aði þó ekki nágranna­þjóðir okkar sem tóku á móti sínum kvótum. Árið 2021 tókum við á móti 85 kvótaflóttamönnum en í fyrra, eftir að kórónuveirufaraldurinn leið undir lok, fækkaði þeim í 34 talsins. 

Kjósa
6
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár