Tilboð Eflingar í núverandi kjarasamaningsviðræðum við Samtök atvinnulífsins gerir ráð fyrir að laun hækki um tæpar 60 þúsund krónur á mánuði, eða 56.700 kóna flata krónutöluhækkun á öll laun. Auk þess yrðu greiddar 15 þúsund krónur í sérstaka framfærsluuppbót til tekjulægsta hópsins. Efling gerir kröfu um að hækkanirnar, ef um semst, komi til framkvæmda frá 1. nóvember síðastliðnum. Þá er gert ráð fyrir að samningurinn gildi í rúmt ár, til loka janúar árið 2024.
Í tilkynningu frá Eflingu segir að með þessu tilboði sé komið til móts við kröfur sem settar hafa verið fram um skammtíma kjarasamninga, af hálfu annarra verkalýðsfélaga, ríkisstjórnarinnar og Samtaka atvinnulífsins. Í fyrri kröfugerð Eflingar var miðað við uppfærslu á lífskjarasamningunum frá 2019 sem miðaðist við verðbólguspár hvers árs auk þess sem framfærsluuppbót yrði 30 þúsund krónur á samningstímanum. Gert var ráð fyrir því að um þriggja ára samning yrði að ræða í þeirri kröfugerð.
Með þeirri útfærslu sem nú hefur verið kynnt af hálfu Eflingar vill stéttarfélagið meina að kaupmáttur meðallauna yrði varinn en að sama skapi yrði þeim sem lægri laun hafa tryggð kaupmáttaraukning. Með því skapist svigrúm til framleiðsluaukningar. „Þessi útfærsla hentar vel þeim efnahagsaðstæðum sem nú ríkja og tryggir almennu launafólki eðlilegan hlut af hagvextinum og framleiðniaukningunni og aftrar höfrungahlaupi upp launastigann,“ segir í tilboði Eflingar.
Að sama skapi telur samninganefnd Eflingar að önnur stéttarfélög hafi gert mistök með því að fallast á að miðað yrði við prósentuhækkanir í viðræðum sínum við Samtök atvinnulífsins. Þar hafi verið til umræðu tillögur sem gerðu ráð fyrir tvöfalt meiri hækkunum til hátekjuhópa en til láglaunafólks. Umsamdar hækkanir verði að verja heimili láglauna- og meðaltekjufólks fyrir áhrifum verðbólgu og tryggja þeim eðlilega hlutdeild í hagvexti og „fádæma góðri afkomu fyrirtækjanna“.
Athugasemdir