Það var 1988 að Augusto Pinochet hershöfðingi tapaði þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald setu hans á forsetastóli í Síle. Herinn hafði með Pinochet í fararbroddi brotizt þar til valda með ofbeldi 1973. Pinochet virti niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar 1988 og vék úr embætti 1990. Þá var Síle enn bláfátækt land, fátækara en bæði Argentína og Brasilía mælt í kaupmætti þjóðartekna á mann svo sem tíðkast. Nú er Síle orðið ríkast þessara þriggja landa á sama kvarða.
Ekki bara það. Nýfædd börn í Síle geta nú vænzt þess að ná 80 ára aldri borið saman við 77 ár í Argentínu og 76 ár í Brasilíu. Síle á miklu meiri viðskipti við umheiminn en hin löndin tvö og býr við mun traustari lýðræðisskipan en þau, sjálfstæðara dómskerfi og minni spillingu eins og alþjóðlegar vísitölur um lýðræði, lög og rétt og spillingu vitna um.
Eigi að síður ber fólkið í Síle þungar byrðar frá fyrri tíð, þar á meðal stjórnarskrá frá dögum herforingjastjórnarinnar 1973-1990. Tekjum og eignum er mjög misskipt í landinu. Misskiptingin hvílir þungt á mörgum íbúum landsins þótt hún sé samt ekki alveg eins ofboðsleg og í Brasilíu. Einkum vegna misskiptingarinnar brutust út mótmæli 2019 þar sem fimmti hver íbúi höfuðborgarinnar Santiago þusti út á göturnar og heimtaði réttlæti og afsögn forsetans. Framhald varð á mótmælunum, 36 manns létu lífið, þúsundir særðust og þúsundir voru handteknar. Neistinn sem kveikti bálið var tiltölulega minni háttar hækkun fargjalda í almenningsssamgöngum.
Því var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla 2020 þar sem kjósendur voru spurðir hvort þeir vildu eignast nýja stjórnarskrá. Úrslitin voru afdráttarlaus: 78% kjósenda vildu nýja stjórnarskrá.
Ríkisstjórnin ákvað að fylgja fordæmi Íslands og halda sérstaka kosningu til stjórnlagaþings 2021 þar sem kjörnir voru 155 fulltrúar til setu á þinginu. Ekki þótti koma til greina að þingmenn semdu nýja stjórnarskrá, ekki frekar en það þótti koma til greina í Bandaríkjunum 1787 eða hér heima 2010.
Stjórnlagaþingið í Síle samdi og samþykkti með rösklega tveim þriðju hlutum atkvæða svo sem áskilið var nýja stjórnarskrá, mikla langloku, sem var borin undir þjóðaratkvæði í september 2022. Nú bar svo við að 62% kjósenda höfnuðu frumvarpinu sem nýkjörnum forseta landsins, Gabriel Boric, var þó mjög í mun að næði fram að ganga.
Andstæðingar nýrrar stjórnarskrár, varðmenn óbreytts ástands, komu inn í lögin um þingið áskilnaðinum um að tvo þriðju hluta atkvæða á stjórnlagaþinginu þyrfti til að frumvarpið næði þar fram að ganga. Þeir gerðu þetta í þeirri von að það myndi ekki takast og málið dytti því niður dautt. Þeim varð ekki kápan úr því klæðinu.
Hvað gerðist?
Samanburður við Ísland bregður birtu á atburðarásina í Síle því forsagan er svipuð.
Bæði löndin búa við úreltar stjórnarskrár, Síle af því að stjórnarskráin þar var samin undir járnhæl harðsvíraðrar herforingjastjórnar 1980 og Ísland af því að okkar stjórnarskrá frá 1944 var í grundvallaratriðum samin undir handarjaðri dansks kóngs 1849. Engin furða að báðar þjóðir óski eftir uppfærslu.
Báðum löndum gafst færi á að eignast nýjar stjórnarskrár, Síle af því að þar brutust út fjölmennustu mótmæli gegn sitjandi forseta sem sögur fara af þar í landi og Íslandi af því að hér þusti fólkið einnig út á göturnar 2008 til að berja potta sína og pönnur, heimta uppgjör við bankahrunið og biðja um nýja stjórnarskrá.
Bæði löndin fólu beint kjörnum fulltrúum kjósenda að vinna verkið, ekki stjórnmálamönnum.
Og hér skilur leiðir með löndunum tveim.
Stjórnmálamenn og flokkar skiptu sér af stjórnlagaþingskosningunni í Síle 2020 ólíkt því sem gerðist hér heima 2010. Hér höfðu stjórnmálamenn og flokkar lítil sem engin afskipti af kosningunni önnur en þau að sex hæstaréttardómarar, þar af fimm skipaðir af dómsmálaráðherrum Sjálfstæðisflokksins, reyndu að eyðileggja hana eftir á með ósæmilegum og ólögmætum hætti eins og Reynir Axelsson stærðfræðingur hefur skýrt öðrum mönnum betur. Ályktunarorð Reynis voru þessi: „Eini raunverulegi og eini verulegi annmarkinn á kosningunni var að Hæstiréttur eyðilagði hana með ákvörðun sem hvílir á sannanlega röngum forsendum og byggist á hæpnum réttarheimildum.“
Þannig gerðist það að stjórnlagaráðið hér heima tók sér stöðu utan og ofan stjórnmála og varð því hvorki sakað um hægri slagsíðu né vinstri slagsíðu né heldur nokkra slagsíðu yfirhöfuð, enda fylgdi ráðið út í æsar tillögum þjóðfundarins 2010 þar sem fulltrúarnir höfðu verið valdir af handahófi úr þjóðskrá. Það þýddi að allir Íslendingar 18 ára og eldri höfðu jafna möguleika á að veljast til setu á þjóðfundinum. Þjóðfundurinn ályktaði að Ísland þyrfti nýja stjórnarskrá með ákvæðum meðal annars um jafnt vægi atkvæða og auðlindir í þjóðareigu.
Fylkingar í Síle, ekki hér
Stjórnlagaþingið í Síle hafði annan hátt á. Það skipti sér í pólitískar fylkingar þar sem vinstri menn höfðu yfirhöndina. Hægri menn héldu því fram, sumpart með réttu og sumpart með falsrökum og lygum, að frumvarpið drægi taum vinstri manna. Þetta olli miklu um það að frumvarpið var fellt í þjóðaratkvæðagreiðslunni um daginn. Það olli líka nokkru um niðurstöðuna að stjórnlagaþingið færðist að segja má of mikið í fang og skilaði af sér of löngu og of ítarlegu og afskiptasömu frumvarpi með 388 greinum borið saman við 114 greinar í nýju stjórnarskránni handa Íslandi.
Stjórnlagaráðinu hér heima tókst að semja nýja stjórnarskrá og samþykkja hana einum rómi, með 25 atkvæðum gegn engu. Það hefur engu stjórnlagaþingi áður tekizt í samanlagðri sögu heimsins. Þetta tókst meðal annars vegna þess að ráðið skipti sér ekki í fylkingar og sætti meðan það var að störfum í fjóra mánuði 2011 engum umtalsverðum tilraunum til afskipta af hálfu stjórnmálamanna eða sérhagsmunahópa. Starf ráðsins fór fram í friði og spekt frá upphafi til enda. Stjórnlagaþinginu í Síle gat ekki tekizt þetta þar eð það skipti sér í fylkingar sem voru í nánu talsambandi við stjórnmálaflokkana á þinginu í Santiago.
Þarna er hún komin ein höfuðskýringin á því hvers vegna síleskir kjósendur höfnuðu sinni nýju stjórnarskrá. Hægri mönnum tókst að úthrópa frumvarpið sem stefnuskrá og óskalista vinstri manna og nota til þess yfirráð sín yfir sterkum fjölmiðlum. Þetta var ekki hægt hér heima fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna um nýju stjórnarskrána 20. október 2012 enda var það ekki reynt, heldur var reynt að þegja málið í hel.
Nýja stjórnarskráin okkar er pólitískt litblind að öðru leyti en því að hún kveður í aðfaraorðum á um að „Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð.“ Afgangurinn, það er sjálfur textinn með sínum 114 ákvæðum, útfærir hugsjónina um að allir fái að sitja við sama borð. Þess vegna flaug frumvarpið í gegnum þjóðaratkvæðið 2012 enda var það og er í fullu samræmi við yfirlýsingu þjóðfundarins frá 2010 og naut að auki dyggilegs atfylgis fólksins í landinu sem hjálpaði til við samningu frumvarpsins með þúsundum skriflegra athugasemda á netinu.
Viðbrögð við ósigri
Forsetinn og ríkisstjórnin í Síle brugðust við ósigri sínum í þjóðaratkvæðagreiðslunni um daginn með því að lýsa því yfir að vilji kjósenda yrði að sjálfsögðu virtur og gera þyrfti aðra tilraun til að virða vilja 78% kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2020 til að eignast nýja stjórnarskrá.
Ég ræddi málið við efnahagsráðherra Síle, Nicolás Grau, á opnum fundi í Queen Mary háskólanum í London 3. október s.l. Ég vona að ráðherrann beri þau boð heim til Síle að það er hægt að laða kjósendur til fylgis við nýja og framsýna stjórnarskrá ef stjórnmálaflokkum og sérhagsmunahópum er haldið í hæfilegri fjarlægð.
Þetta skiptir máli. Jon Elster, prófessor í Columbia-háskóla í New York og einn helzti stjórnarskrársérfræðingur heimsins, lýsir andstæðingum réttmætra stjórnarskrárumbóta svo að þeir þrífist jafnan á „ódýrum aðgangi að náttúruauðlindum, ranglátu kosningakerfi, óheiðarlegri bankastarfsemi og spilltum stjórnmálamönnum“. Kannast nokkur við það?
Þarna er bæði Síle og Íslandi vandi á höndum.
Í Síle er vandinn þessi. Mótmælasprengjan 2019 og áfram sáði að sönnu í frjóan svörð og bjó til það sem við getum kallað stjórnarskrárfæri (e. constitutional moment). Einmitt við slíkar aðstæður verða flestar nýjar stjórnarskrá til, enda segir Jon Elster á einum stað:
„Gagnstætt hefðbundinni skoðun, þá eru stjórnarskrár sjaldnast skrifaðar á friðsömum og yfirveguðum tímum. Heldur, vegna þess að stjórnarskrár eru fremur skrifaðar á tímum samfélagslegs óróa, fylgja tímamótum stjórnkerfisbreytinga heitar tilfinningar og iðulega ofbeldi.“
Vera kann að næg ró færist aftur yfir lífið í Síle til að sókn fólksins eftir nýrri stjórnarskrá dvíni og það þurfi því enn um sinn að búa við stjórnarskrá herforingjanna frá 1980. Það er reyndar ein æðsta ósk fylgismanna herforingjastjórnarinnar, þeirra sem eftir eru. Þeir myndu ef þeir mættu reisa minnisvarða um Pinochet sem var bæði morðingi og þjófur.
Hér heima er vandinn þessi. Hrunið stillti stjórnmálastéttinni upp við vegg. Stjórnmálamenn voru gripnir í bólinu með bankamönnum sem margir fengu fangelsisdóma fyrir margháttuð lögbrot í tengslum við hrunið. Risið á stjórnmálamönnunum var eftir því lágt eftir hrun. Þess vegna gengu þeir að óskum fólksins um nýja stjórnarskrá og héldu sjálfum sér í hæfilegri fjarlægð frá endurskoðunarferlinu framan af og fór vel á því.
Niðurstaðan varð heimssöguleg: Einróma samþykkt nýrrar stjórnarskrár í Stjórnlagaráði 2011 og 67% stuðningur kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012. Annað eins og þetta hefur aldrei gerzt nokkurs staðar annars staðar.
Eftir atkvæðagreiðsluna sneri Alþingi aftur til fyrri hátta með því að láta undir höfuð leggjast staðfestingu hinnar nýju stjórnarskrár sem þjóðin hafði kosið sér. Þau treystu sér til þessarar óhæfu meðal annars vegna þess að björgunaraðgerðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eftir hrun höfðu skilað meiri og skjótari árangri en á horfðist í fyrstu. Ósvinnan gekk upp. Eftir sátu sviknir kjósendur með sárt ennið auk allra þeirra sem misstu mikils af völdum hrunsins.
Alþingi hefur haft tíu ár til að bæta ráð sitt, en ekkert bólar enn á iðrun þar eða yfirbót. Þingið hefur skipað Íslandi í hóp þeirra landa þar sem lýðræði og velsæmi eiga nú undir högg að sækja eins og lýðræðisvísitölur og spillingarvísitölur erlendra rannsóknar- og eftirlitsstofnana vitna um.
Kannski þarf annað hrun til þess að Ísland fái loksins nýju stjórnarskrána sem kjósendur völdu sér 2012. Kannski ekki. Það er aldrei of seint að breyta rétt.
Athugasemdir (1)