Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en ári.

Bræðurnir frá Reykjabakka

Ein­ar Jóns­son hef­ur bú­ið á Reykja­bakka alla sína ævi. Eft­ir að for­eldr­ar hans féllu frá hef­ur hús­ið stað­ið nán­ast óhreyft öll þessi ár. Þar má enn finna greiðu móð­ur hans á hillu inni á baði og göm­ul dag­blöð. Bræð­ur hans búa all­ir í næsta ná­grenni og fylgdu flest­ir í fót­spor for­eldra sinna með græn­met­is­rækt.

Bræðurnir frá Reykjabakka
Sófinn í stofunni Prjónadótið hennar ömmu sést þarna á borði við sófann en það hefur ekki verið hreyft við því öll þessi ár. Mynd: Elva Rut Þrastardóttir

Amma mín féll frá árið 2005. Allt frá andláti hennar hefur föðurbróðir minn búið einn í húsinu. Í verkefni fyrir Ljósmyndaskólann ákvað ég að fjalla um pabba, bræður hans og æskuheimili þeirra. Pabbi minn er Þröstur Jónsson og bræður hans, Einar, Tómas og Reynir Jónssynir. Bræðurnir ólust upp á Reykjabakka í Hrunamannahreppi og búa allir enn í augsýn við æskuheimilið. Samgangurinn hefur því alltaf verið mikill. Tómas og pabbi búa í sömu götu og Reynir býr á næsta bæ við Einar, sem hefur búið á Reykjabakka alla sína ævi. 

Húsið er algjört tímahylki og minnir helst á kvikmyndasett. Húsið og flest allt þar inni er í upprunalegu ástandi. Varla hefur verið hreyft við neinu sem tilheyrði ömmu og afa í húsinu, en þegar ég kom aftur þar inn fann ég fyrir lyktinni af þeim og minningarnar helltust yfir. Á myndunum má meðal annars sjá úlpu ömmu minnar sem hangir enn í forstofunni, greiðuna hennar, prjónadót, skó og dagblöð aftur til ársins 1996. Eins tók ég myndir af herbergjum bræðranna, sem hafa lítið breyst frá því að þeir fluttu út. Einar sefur enn í sama herbergi og áður. 

Amma og afi, Þóra og Jón, byggðu húsið árið 1950 og héldu þar bú með kúm og kindum, auk þess sem þau ræktuðu grænmeti. Þau voru með þeim fyrstu í garðyrkjurækt í Hrunamannahreppi, byrjuðu í kartöflurækt og fóru svo að rækta grænmeti. Allir bræðurnir starfa við garðyrkju nema Tómas sem starfaði við sorphirðu í sveitinni. Þröstur og Einar eru í útiræktun grænmetis, en Reynir rekur garðyrkjustöðina Reykás þar sem hann ræktar tómata, gúrkur og salat. Foreldrar mínir, Þröstur og Sigrún, reka saman Garðyrkjustöð Sigrúnar sem er alfarið í útiræktun grænmetis og ræktar meðal annars hvítkál, rauðkál, grænkál, spergilkál og blómkál. Þau eru með nokkur gróðurhús fyrir sáningu og uppeldi grænmetisplantna á Reykjabakka, þannig við fjölskyldan höfum eytt miklum tíma þar í gegnum tíðina. Þótt ég hafi varið miklum tíma á Reykjabakka í tengslum við garðyrkjuna þá hef ég ekki farið inn í húsið síðan amma lést. 

HeimaBræðurnir við æskuheimilið. Frá vinstri: Tómas, Þröstur, Reynir og Einar.
Úr herbergi ömmu og afa Skór fra ömmu minni standa óhreyfðir á gólfinu. Dagblaðið á borðinu er frá árinu 1996.
Greiðan hennar ömmuÞegar ég var krakki lék ég mér alltaf að því að greiða afa með henni þegar ég kom í heimsókn. Hún var alltaf á þessari hillu og hefur ekki verið hreyfð síðan amma lést.
Allt eins og það varGamla herbergið hans Reynis.

Ég var mikið hjá ömmu þegar hún var á lífi svo það var skrítið að hætta allt í einu alveg að kíkja inn til hennar, þótt ég væri mikið á staðnum. Ég var lengi forvitin um hvernig húsið hefði breyst að innan og það var því skemmtilegt að vinna þetta verkefni. Það var algjört nostalgíukast að stíga þarna inn, þar sem nánast ekkert hefur breyst og allt er enn á sínum stað. 

Einar frændi minn er mjög nægjusamur maður sem hefur enga þörf til að breyta til eða gera húsið upp. Það gerir húsið einstakt. Mér leið alveg eins og ég væri í heimsókn hjá ömmu og afa þegar ég fór aftur þar inn eftir öll þessi ár, sem var mjög sérstök tilfinning. 

Úlpan Úlpan hennar ömmu hangir enn í forstofunni.
Gamla herbergið hans pabba.
Einar Jónsson, fæddur 1951Býr einn á Reykjabakka. Hann hefur aldrei verið kvæntur og á ekki börn. Hann starfar sem garðyrkjubóndi.
Þröstur Jónsson, fæddur 1958Býr á Flúðum ásamt eiginkonu sinni, Sigrúnu Pálsdóttur. Saman eiga þau þrjú uppkomin börn og fimm barnabörn. Hann er menntaður húsasmíðameistari og vann við það þangað til hann fór alfarið í ræktun grænmetis hjá Garðyrkjustöð Sigrúnar.
Tómas Þórir Jónsson, fæddur 1947Býr einn á Flúðum og á tvö uppkomin börn og átta barnabörn. Hann vann sem vörubílstjóri og tók svo við sorphirðu í Hrunamannahreppi. Hann er kominn á eftirlaun í dag.
Reynir Jónsson, fæddur 1960Býr á Reykási ásamt Sólveigu konu sinni. Saman eiga þau fjögur uppkomin börn og átta barnabörn. Þau reka saman garðyrkjustöðina Reykás.
Kjósa
4
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (3)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu