Traustur grunnur er nauðsynlegur til þess að skapa gott samfélag. Gott samfélag skilur ekki 932 manneskjur eftir á biðlistum borgarinnar fyrir húsnæði, þar sem 587 bíða eftir almennu félagslegu húsnæði. Á bak við allan þann fjölda eru fjölskyldur og börn eða nánar tiltekið 136 barnafjölskyldur og 102 einhleypir foreldrar. Veikt húsnæðiskerfi grefur undan velferð, þar sem leigjendur neyðast til að greiða 70% af ráðstöfunartekjum sínum í leigu, búa inni á öðrum og bíða til lengdar eftir heimili á viðráðanlegu verði sem kemur aldrei.
Traustur grunnur
Við búum til gott samfélag með því að byrja á að byggja fyrir fólk í neyð í stað þess að þjóna þeim sem sjá húsnæðisuppbyggingu sem gróðatækifæri. Gott samfélag býður fólki öruggt heimili, þar sem búseta í atvinnuhúsnæði og það að búa of þröngt á eigin heimili, heyrir sögunni til.
Börn eiga að geta hugsað stórt og látið drauma sína rætast í stað þess að smætta væntingar sínar vegna tíðra flutninga, óöryggis og ójöfnuðar. Traustur grunnur byrjar á þörfum þeirra verst settu og byggir síðan upp. Borgin okkar verður aldrei góð og skemmtileg á meðan að börn eru svöng vegna fátæktar. Á meðan að foreldrar þeirra eru úrvinda í vinnu númer tvö að leitast við að eiga fyrir reikningum. Við erum ekki á réttri leið þegar kvíði og áhyggjur um hvaðan næsta máltíð eigi að koma fylla huga borgarbúa.
„Endum óréttlætið, kjósum sanna Reykjavík“
Við þurfum að byrja á því að laga það sem er bilað hjá því fólki sem er fátækt, kúgað og valdalítið. Þar er mesta sorgin og baslið, kvíðinn og depurðin. Það þarf að laga stöðu þessa fólks. Laga þarf stöðuna hjá þeim sem búa við mesta óréttlætið. Ef við lögum ekki það sem er bilað verður borgin okkar aldrei góð. Við eigum ekki að fela eða reyna að þagga niður í því sem er að, heldur ganga glöð til þess að laga meinsemdina.
Borgin á að byggja
Það er húsnæðiskreppa í Reykjavík. Íbúðir eru allt of dýrar og húsaleiga allt of há. Fyrir margt fólk er húsnæðiskostnaður helsta ástæða þess að það á ekki fyrir nauðsynjum, neitar sér um læknishjálp og getur ekki veitt börnunum sínum það sem foreldrar vita að börnin eiga skilið. Húsnæðisvandinn er skuggi í lífi marga og hann er skömm borgarinnar. Sósíalistar vilja að borgin byggi sjálf íbúðir þar til húsnæðisvandinn er horfinn.
Markaðshyggju út og mannúðina inn
Nær allar hliðar mannlegs samfélags hafa verið færðar inná markað þar sem litið er á að markaðurinn geti leyst verkefni daglegs lífs. Samkeppni, samanburður og einstaklingshyggja einkenna þá nálgun. Það er af og frá að hægt sé að stýra samfélagi með það að leiðarljósi. Við þurfum félagslegar lausnir. Lausnir sem ganga ekki frá fólki, sem gera ekki ráð fyrir því að manneskjur hlaupi hraðar. Til þess þurfum við að hækka laun þeirra lægst launuðu, við getum gert það. Ég vil búa í samfélagi þar sem starfsfólk leikskóla og grunnskóla er á réttum launum. Ég neita að sætta mig við það að ekki sé svigrúm til launahækkana. Samfélagið okkar hefur alla burði til að skapa og viðhalda góðum skólum þar sem starfsfólk og börn eru ánægð, södd, úthvíld og full af orku til að læra, lesa og leika.
Við getum hækkað laun þeirra lægst launuðu, við getum tryggt að ríkir greiði til samfélagsins eins og aðrir. Það er hægt. Endum óréttlætið, kjósum sanna Reykjavík, kjósum Sósíalista.
Athugasemdir