Kúbudeilan var hápunktur Kalda stríðsins. Deilan var á milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna 1962. Ástæðan var kjarnorkuvígbúnaðarkapphlaup milli þessara tveggja stórvelda. Sovétríkin vildu koma sér upp kjarnorkueldflaugum á Kúbu sem ógnuðu öryggi Bandaríkjanna. Aldrei áður hafði heimurinn komist jafn nálægt kjarnorkustríði - þangað til nú, í stríði Úkraínu gegn innrásarliði kjarnorkuveldisins Rússlands.
Notkun kjarnorkuvopna í Úkraínu getur varla talist líkleg, en alls ekki útilokuð. Fyrir kaldhæðni örlaganna létu Úkraínumenn öll sín kjarnorkuvopn af hendi við fall Sovétríkjanna til Rússlands með svokölluðu Búdapest Memorandum 1994 með því skilyrði að landamæri Úkraínu yrðu virt. Bandaríkin og Bretland voru aðilar að samkomulaginu til að gera það trúverðugra. Samkomulagið var svo svikið fyrst með töku Krímskagans 2014. Þetta þurfti ekki að koma á óvart. Það hefur lengi verið vitað að stórveldi virða alþjóðalög og alþjóðasamninga aðeins ef það hentar þeim sjálfum.
Við upphaf stríðsins í Úkraínu, sem hófst 24. febrúar 2022, voru Bandaríkin og bandalagsríki þeirra í NATO að hjálpa Úkraínu að verja sig fyrir árásum Rússa. Áherslan hefur breyst. Nú er verið að hjálpa Úkraínu að vinna stríðið. Her Úkraínu hefur staðið sig betur í þessu stríði en flesta óraði fyrir. Þeir verja land sitt af hörku. Auk þess hafa komið í ljós tæknilegir yfirburðir bandarískra vopna sem Úkraínumenn hafa fengið til að verjast Rússum. Her Rússlands hefur beðið mikið tjón, sum staðar virðist hann hafa beðið afhroð.
Strangar viðskiptaþvinganir Vesturlanda gegn Rússlandi stöðva ekki stríðið. Rússland metur sína öryggishagsmuni hærra en efnahagshagsmuni, og rússnesk stjórnvöld telja að öryggi ríkisins sé ógnað. Þannig hegða stórveldi sér. Þau gefast ekki upp fyrir viðskiptaþvingunum. En viðskiptaþvinganirnar veikja, jafnvel eyðileggja rússneska hagkerfið til lengri tíma. Þær bíta smátt og smátt. Rússland getur á endanum þurrkast út sem stórveldi, efnahagslega og svo hernaðarlega.
Stjórnvöld í Rússlandi hafa gefið það út að þau muni ekki nota kjarnorkuvopn nema ef tilvist Rússlands sé í hættu, sem á ensku er kallað „existential threat“. Auðvitað er matsatriði hvað þetta þýðir. Þegar Kúbudeilan stóð yfir reyndi John F. Kennedy Bandaríkjaforseti að semja við Nikita Krústsjov leiðtoga Sovétríkjanna. Joe Biden núverandi Bandaríkjaforseti reyndi að semja við Vladimír Pútín fyrir stríð, en eftir stríð hafa viðræður algerlega stöðvast. Stríðið magnast með væntingum um algeran sigur Úkraínu gegn Rússlandi.
„Verði kjarnorkuvopn notuð er sennilega líklegar að þeim verði beitt í Vestur-Úkraínu“
Verði kjarnorkuvopn notuð er sennilega líklegar að þeim verði beitt í Vestur-Úkraínu, ekki í Austur-Úkraínu nálægt landamærum Rússlands. Forseti Hvíta-Rússlands, Alexander Lukashenko, einn helsti stuðningsmaður Pútín, hefur áhyggjur af þessu og hefur sagt að notkun kjarnorkuvopna í Úkraínu komi ekki til greina. Verði kjarnorkuvopn notuð í Vestur-Úkraínu eru landamæri Hvíta-Rússlands á næsta leiti. Ekki bara landamæri NATO og ESB.
Kjarnorkustríð er ekki útilokað. William J. Burns forstjóri leyniþjónustu Bandaríkjanna, CIA, hefur nýlega varað við því að frekari áföll í hernaði og möguleg örvænting gætu orðið til þess að Vladimír Pútín Rússlandsforseti beitti „taktískum“ (e. tactical or low-yield) kjarnorkuvopnum gegn Úkraínu. Verði það raunin vaknar spurningin, hvernig Bandaríkin og bandamenn þeirra í NATO muni bregðast við? Um möguleg viðbrögð er ekki vitað en Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, hefur sagt að heimurinn eigi að vera viðbúinn þeim möguleika að Pútín noti kjarnorkuvopn. Verður þá kjarnorkustríð milli þeirra stórvelda sem flest kjarnorkuvopn eiga, Bandaríkjanna og Rússlands, með þeirri tortímingu sem því myndi fylgja? Enginn vinnur allsherjar kjarnorkustríð.
Þó aðeins væru 1 prósent líkur á notkun kjarnorkuvopna er það samt skelfileg tilhugsun og tilefni til að hafa áhyggjur. Og vandamálið við kjarnorkuvopn er að við vitum aldrei hvenær sá sem þau hefur verður nægilega örvæntingarfullur til þess að hugsa um það í alvöru að nota þau.
---
Hilmar Þór Hilmarsson er prófessor við Háskólann á Akureyri. Hann starfaði um 12 ára skeið fyrir Alþjóðabankann í Washington, Ríga og Hanoí.
Athugasemdir