„Við verðum líka að geta tekið því þegar fólk biðst afsökunar eins og hæstvirður innviðaráðherra hefur gert með mjög skýrum hætti.“ Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í umræðum á Alþingi um rasísk ummæli Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra í garð Vigdísar Häsler, framkvæmdastjóra Bændasamtakanna. Var ekki á orðum Katrínar að heyra að hún teldi þörf á að aðhafast frekar í málinu.
Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata spurði Katrínu í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi, út í hin rasísku ummæli sem Sigurður Ingi lét falla í garð Vigdísar síðastliðið fimmtudagskvöld. Vigdís steig fram og lýsti upplifun sinni í færslu á Facebook í hádeginu. Sigurður Ingi baðst síðan afsökunar á ummælunum á sama vettvangi nú síðdegis, skömmu áður en þingfundur hófst.
Rasísk og niðrandi ummæli
Halldóra spurði hvernig forsætisráðherra teldi að ríkisstjórnin ætti að axla ábyrgð á óviðeigandi ummælum sem ráðherra lét falla um framkvæmdastjóra Bændasamtakanna. Ummæli sem hafi verið „rasísk, þau voru niðrandi og þau voru særandi,“ sagði Halldóra. Þá sagði hún að þau væru einnig brot á lögum. „Ummælin sem voru látin falla teljast áreitni í skilningi laga,“ sagði Halldóra og spurði forsætisráðherrra hvort hún myndi fara fram á að Sigurður Ingi segði af sér. Katrín sagði að innviðaráðherra hefði nú stigið fram og beðist afsökunar á ummælum sínum og að sú afsökunarbeiðni endurspeglaði afstöðu hans til eigin ummæla. „Þegar mönnum verður á og þeir gera mistök skiptir máli að þeir stigi fram og biðjist afsökunar með skýrum hætti sem innviðaráðherra hæstvirtur hefur gert og það skiptir máli,“ sagði Katrín á Alþingi.
„Hvar stendur forsætisráðherra, er nóg að biðjast bara afsökunar á lögbroti“
Halldóra kom þá aftur í ræðustól og sagði að Katrín bæri ekki beina ábyrgð á orðum eða gjörðum ráðherra innan hennar ríkisstjórnar en að sem leiðtogi ríkisstjórninnar bæri hún ábyrgð á því að vera leiðandi í þeim samfélagsbreytingum sem hún sjálf boði. „Það er hennar að draga línuna í sandinn. Ef hún ætlar að vera kyndilberi jafnréttis út á við hlýtur hún að þurfa að bregðast við á einhvern hátt þegar ráðherra í hennar eigin ríkisstjórn verður uppvís að framkomu sem brýtur í bága við allt sem hún stendur fyrir,“ sagði Halldóra og spurði hversu mikil alvara forsætisherra væri um að uppræta mismunun þegar í harðbakkann slægi. „Hvar stendur forsætisráðherra, er nóg að biðjast bara afsökunar á lögbroti, eru það skilaboðin inn í framtíðina, ef ráðherra brýtur lög, er þá nóg að segja bara afsakið, þetta voru mistök?“ spurði Halldóra og Katrín svaraði:
„Forsætisráðherra stendur bara nákvæmlega þar sem hún hefur staðið hingað til og stendur þar áfram. Það liggur algerlega fyrir að þau ummæli sem vitnað er til voru óásættanleg og ég rengi ekki orð framkvæmdastjóra Bændasamtakanna í þeim efnum en við verðum líka að geta tekið því þegar fólk biðst afsökunar eins og hæstvirtur innviðaráðherra hefur gert með mjög skýrum hætti,“ sagði Katrín.
Segir fordóma grassera við ríkisstjórnarborðið
Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar sagði í óundurbúnum fyrirspurnum á Alþingi að frásögn Vigdísar Häsler um orð sem Sigurður Ingi hafi látið falla um hana í vitna viðurvist væru sláandi.
„Samkvæmt þeim á leiðtogi ríkisstjórnarflokks og ráðherra að hafa gerst sekur um rasísk ummæli sem svo hefur verið staðfest af ráðherranum,“ sagði Sigmar og vitnaði í yfirlýsingu Vigdísar frá því í morgun þar sem sagði meðal annars: „Duldir fordómar eru gríðarlegt samfélagsmein og grassera á öllum stigum samfélagsins“. Sagði Sigmar að lýsing þolanda á ummælum ráðherra í ríkisstjórn Íslands hlytu að kalla á umræðu um fordóma í samfélaginu og á Alþingi „sem samkvæmt þessari frásögn grasserar svo sannarlega á öllum stigum samfélagsins líka við ríkisstjórnarborðið því miður,“ sagði Sigmar og spurði Katínu Jakobsdóttur hvort ekki væri augljóst að ákvæði siðareglna ráðherra hefðu verið brotin og hvort svör forsætisráðherra þyrftu ekki að vera veigameiri en þau hafi verið fyrr í umræðum um málið.
„Fyrst svaraði pólitískur aðstoðarmaður ráðherra aðspurður af fjölmiðlum sem höfðu verið að elta þetta mál alla helgina og sagði orðrétt: „þetta er bull“
Katrín sagði að öllum ætti að sýna virðingu og gerð væri rík krafa um að ráðherrar væru vandir að virðingu sinni. „Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan að hæstvirtur innviðaráðherra hefur beðist afsökunar. Ég les út úr þeirri afsökunarbeiðni, sem er mjög skýr, þá les ég þá afstöðu að ummælin hafi verið óásættanleg og hefðu ekki átt að falla og ég tel mikilvægt að við getum tekið því þegar fólk biðst afsökunar og það skiptir máli að þegar menn gera mistök að það sé gert með þessum hætti eins og fram kemur í máli ráðherra,“ sagði Katrín
Kallar svör aðstoðarmanns ráðherra „gaslýsingu“
Sigmar kom þá aftur í ræðustól og sagði að málið væri „hörmulegt“ og hann teldi mikilvægt að skoða atburðarrásina. ,,Hún er nefnilega ekki sú að hæstvirtur innviðráðherra og formaður Framsóknarflokksins hafi stigið fram brotinn og beygður yfir því að hafa viðhaft leiðinleg ummæli, … fyrst svaraði pólitískur aðstoðarmaður ráðherra aðspurður af fjölmiðlum sem höfðu verið að elta þetta mál alla helgina og sagði orðrétt: „þetta er bull“. Ég velti því fyrir mér hvort við þurfum ekki að skoða afsökunarbeiðni ráðherrans í ljósi þessarar atburðarrásar allrar sem ég er að rekja og ég velti því fyrir mér hvort að þessi gaslýsing sem birtist okkur um helgina hljóti ekki að kalli á það að hæstvirtur forsætisráðherra svari hér með aðeins efnismeiri hætti,“ sagði Sigmar og bætti við að þó sér þætti afar leiðinlegt að þurfa að standa í ræðustól og tala um málið þá væri það gríðarlega mikilvægt. „Verðum við ekki að velta fyrir okkur atburðarrásinni áður en beðist var afsökunar og hver er hljómur afsökunarbeiðni þegar aðdragandinn er þessi?,“ spurði Sigmar forsætisráðherra.
Katrín vísaði fyrirspurn um orð aðstoðarmanns ráðherra til innviðaráðherra sjálfs og ítrekaði að lokum orð sín um að afsökunarbeiðni Sigurðar Inga hefði verið mjög skýr. „Ég sé ekki ástæðu til að draga heilindi afsökunarbeiðni hæstvirts innviðaráðherra í efa,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra á Alþingi í dag.
Athugasemdir (2)