Joe Biden Bandaríkjaforseti kynnti rétt í þessu fjölþættar refsiaðgerðir gegn Rússlandi og rússneskum hagsmunum. Hann sagði meira en helming alls heimshagkerfisins standa saman gegn Rússlandi Pútíns.
Ríkin sem standa að refsiaðgerðunum eru, auk Bandaríkjanna og helstu Evrópuríkja, meðal annars Kanada, Nýja-Sjáland og Japan. Hvorki Indland né Kína tekur þátt.
„Við munum takmarka getu Rússa til að eiga viðskipti í dollurum, evrum, pundum og jenum. Til að vera hluti af alþjóðahagkerfinu. Við hindrum getu þeirra til að stækka og fjármagna rússneska herinn. Við ætlum að trufla getu þeirra til að keppa í hátæknilegu umhverfi 21. aldar. Við höfum nú þegar séð áhrif aðgerða okkar á rússneskt hagkerfi og gjaldmiðilinn rúbluna, sem náði sinni veikustu stöðu frá upphafi fyrr í dag. Hlutabréfamarkaður Rússa hrundi í dag,“ sagði hann.
Hlutabréfamarkaðurinn í Moskvu féll um 35% í dag, en meðaltalsfall á heimsvísu var 5%.
Athugasemdir (1)