Björgvin Páll Gústavsson, landsliðsmarkvörður í handknattleik, er að velta fyrir sér að gefa kost á sér sem oddviti Framsóknarflokksins í komandi borgarstjórnarkosningum. Frá þessu greinir hann Twitter.
Björgvin segir í færslu sinni að hann hafi, kvöldið sem hann lenti á Íslandi eftir Evrópumótið í handknattleik á dögunum, fengið símtal frá þjóðþekktum einstaklingi sem hann bæri mikla virðingu fyrir. Tilgangur símtalsins hafi verið að skora á Björgvin að gefa kost á sér sem borgarstjóraefni Framsóknarflokksins.
Björgvin segir að umræddur maður þekki vel ástríðu hans fyrir málefnum barna og hafi viljað sjá hann taka slaginn enda þyrfti „að taka borgina“ og snúa við málum þar. „Það skrýtna er að þessi hugmynd hljómaði einhverra hluta vegna ekki svo galin og ég er virkilega hrærður yfir þeirri trú sem þessi góði vinur hefur á mér.“
„Það að merkja X við B, fyrir Björgvin og börnin er eitthvað sem hljómar alla vega vel“
Björgvin rekur að hann hafi sýn á hvernig auka megi vellíðan barna, bæta skólakerfið og hlúa að foreldrum. „Því meira sem ég hugsa þetta því meiri trú hef ég á því að þetta gæti smollið. Minn tilgangur í lífinu er að vera góð fyrirmynd og auka vellíðan en síðustu vikur og mánuði hef ég velt því mikið fyrir mér hvert sé næsta skref hjá mér í að hafa sem mest áhrif.“
Björgvin lýsir því að hann sé „ekki bara haandboltakall“, hann sé líka öll reynsla sín í lífinu, sex ára strákurinn sem beit kennarann sinn, strákurinn sem átta ára var tekinn með hníf í skólanum og lagður inn á BUGL. „Strákurinn sem skólakerfið brást, strákurinn sem fékk aldrei greininguna mína og lyfin mín.“
Björgvin segir að hann hafi unnið síðustu ár með börnum innan skólakerfisins og utan þess og vilji hafa áhrif. „En er ég efni í næsta borgarstjóra í Reykjavík? Ég hreinlega veit það ekki... Ef ég tæki slaginn þá væri það einna helst til þess að taka þátt í byltingu er kemur að málefnum barna. Það að merkja X við B, fyrir Björgvin og börnin er eitthvað sem hljómar alla vega vel.“
Athugasemdir (1)