Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 3 árum.

Lýsir ósýnileika þunglyndis: Brosandi og hrósandi með sjálfsvígshugsanir

„Myrkr­ið var orð­ið svo þétt og mér fannst ég vera svo mik­il byrði með vesen og hafa vald­ið svo mikl­um von­brigð­um að eina rök­rétta leið­in væri að kveðja,“ seg­ir Olga Björt Þórð­ar­dótt­ir, rit­stjóri Hafn­firð­ings, sem lýs­ir reynslu sinni af þung­lyndi.

Lýsir ósýnileika þunglyndis: Brosandi og hrósandi með sjálfsvígshugsanir

Olga Björt Þórðardóttir, ritstjóri Hafnfirðings, lýsir því í áhrifaríkri færslu á Facebook hversu ósýnilegt þunglyndi getur verið jafnvel þótt það leggist þungt á viðkomandi. „Ósýnileiki þessa sjúkdóms lýsti sér til dæmis þannig hjá mér þannig að sömu daga og ég var í rusli var ég hrósandi fólki á messenger, brosandi með myndavélina á viðburðum og að reyna að selja auglýsingar í blaðið mitt.“

Sjálf var hún komin á þann stað að hún óttaðist um líf sitt, þegar hún fékk loks hjálp frá vinkonu sinni og sálfræðingi við að gefa lífinu annan séns. „Myrkrið var orðið svo þétt og mér fannst ég vera svo mikil byrði með vesen og hafa valdið svo miklum vonbrigðum að eina rökrétta leiðin væri að kveðja,“ segir hún. 

„Þegar ég lít til baka sé ég hversu ógnvænlega ósýnilegur sjúkdómur þunglyndi getur verið. Meira að segja mín nánustu spottuðu það ekki frekar en ég og ég hef í raun ekki viljað ræða þennan dag við þau, þótt ég viti að þau elska mig og vilja mér vel. Það er of sárt. Það fylgir því nefnilega ofan á allt skömm að hafa „látið sér“ detta slíkt dómgreindarleysi í hug. Dagana og vikurnar á undan hafði ég líka bætt eigið Norðurlandamet í sjálfsniðurrifi sem algengt er meðal þunglyndra.“

Á Íslandi þjást 12 til 15 þúsund manns af þunglyndi á hverjum tíma. Þótt þunglyndi sé svo algengt gerir fólk sér oft litla grein fyrir eðli sjúkdómsins og þar gætir oft misskilnings, samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum. Orsaka er að leita í flóknu samspili arfgengra áhættuþátta, áfalla og viðvarandi álags sem móta viðbrögð einstaklingsins gegn streitu og áföllum og auka líkur á sjúklegu þunglyndi. Síðastliðin áratug hafa sjálfsvíg að meðaltali verið 39 á ári, samkvæmt tölum frá Embætti landlæknis. En það er hægt að fá hjálp, eins og Olga bendir á, en hún vísar meðal annars á Píeta-samtökin sem veita fyrstu hjálp fyrir fólk í sjálfsvígshættu. 

Nú er rúmt ár síðan hún fékk viðeigandi aðstoð og það er erfitt að hugsa til baka og til þess hversu hætt hún var komin, þegar tímamótin runnu upp var hún komin með kvíðahnút og öran hjartslátt. Í dag er lífið hins vegar mun betra en áður, hún er komin á rétt lyf, líður betur og hefur lært mjög mikið um mannlegt eðli, áhrif andlegs ofbeldis, meðvirkni og þolendaskömmunar. „Ég ætla að nýta þessa þekkingu áfram í störfum mínum og verkefnum og vona að ég geti komið að gagni. Ég ætla líka að halda áfram að sýna dætrum mínum fram á að það er hægt að rísa upp (enn og aftur) eins og Fönix og brjálast úr hamingju. Þannig er lífið.“

Færslu Olgu má lesa hér að neðan:

Þann 20. september 2020 fékk ég ómetanlega hjálp frá vinkonu og sálfræðingi við að gefa lífinu annan séns, þegar myrkrið var orðið svo þétt og mér fannst ég vera svo mikil byrði með vesen og hafa valdið svo miklum vonbrigðum að eina rökrétta leiðin væri að kveðja.

Þegar ég lít til baka sé ég hversu ógnvænlega ósýnilegur sjúkdómur þunglyndi getur verið. Meira að segja mín nánustu spottuðu það ekki frekar en ég og ég hef í raun ekki viljað ræða þennan dag við þau, þótt ég viti að þau elska mig og vilja mér vel. Það er of sárt. Það fylgir því nefnilega ofan á allt skömm að hafa „látið sér“ detta slíkt dómgreindarleysi í hug. Dagana og vikurnar á undan hafði ég líka bætt eigið Norðurlandamet í sjálfsniðurrifi sem algengt er meðal þunglyndra. 

Ósýnileiki þessa sjúkdóms lýsti sér t.d. hjá mér þannig að sömu daga og ég var í rusli var ég hrósandi fólki á messenger, brosandi með myndavélina á viðburðum og að reyna að selja auglýsingar í blaðið mitt. Blaðið sem var umbrotið daginn eftir, 21. september, með hjálp sobril og elsku umbrotsmannsins sem gaf mér rými til að eiga skrýtinn dag.

Þann sama dag fékk ég tölvupóst um að ráðið hefði verið í stöðu sem ég sótti um; sérfræðing hjá embætti forseta Íslands. Ég samgladdist svo innilega konunni sem fékk starfið (já, þunglyndir geta átt auðvelt með að samgleðjast) því ég þekki hana, að ég svaraði póstinum með hamingjuóskum til skrifstofu embættisins um að þarna hefðu þau valið hæfustu manneskjuna. Beint frá hjartanu.

22. september dreifði ég blaðinu mínu um bæinn og á þeim rúnti fékk ég óvænt skilaboð frá sjálfum forsetanum (núna vini mínum) þar sem hann sagðist hafa séð tölvupóstinn til embættisins og þakkaði mér fyrir stórmennskuna, því hún væri ekki öllum fær og óskaði mér síðan alls góðs. Ég horgrenjaði af þakklæti í klukkutíma á bílastæði Fjarðarkaupa. Ég bið elsku Guðna að fyrirgefa mér að opinbera þetta en ég geri það fyrst og fremst til að sýna fram á hversu auðveldlega hrós og hlýja geta bjargað dögum fólks. Og hversu einstök manneskja og mannvinur hann er.

Í dag er lífið fallegt og gott. Ég er komin á rétt lyf og hef á einu ári lært ótal margt í viðbót við fyrri þekkingu um mannlegt eðli, áhrif andlegs ofbeldis, meðvirkni og þolendaskömmunar (sem tengist öllu ofbeldi, ekki bara kynferðis-). Ég ætla að nýta þessa þekkingu áfram í störfum mínum og verkefnum og vona að ég geti komið að gagni. Ég ætla líka að halda áfram að sýna dætrum mínum fram á að það er hægt að rísa upp (enn og aftur) eins og Fönix og brjálast úr hamingju. Þannig er lífið.

Einn góður maður sem ég er búin að þekkja lengi sagði við mig í sumar: „Hættu að skrifa þessar löngu færslur þínar. Það les þetta enginn.“ Hann vissi ekki betur og les þetta mögulega ekki...haha. Hann vissi ekki um hóp yndislegs fólks sem ég hef tengst sterkum böndum undanfarin ár einmitt vegna þess að það hefur tengt við færslurnar og við lært mikið hvert af öðru. Tengingar geta bjarga mannslífum.

Við berum ábyrgð sem persónur og leikendur í lífi annarra. Við höfum alltaf val um framkomu og orðalag og jafnvel að láta bara kyrrt liggja ef eitthvað pirrar okkur. Við getum oftar valið að vera nærvera án þess að dæma og ráðleggja, þótt við getum ekki sett okkur í spor eða jafnvel skiljum ekki. Við getum í það minnsta hugsað okkur um.

Það eru Alþingiskosningar framundan. Ég er ávallt hlutlaus þar til í kjörklefann er komið. Ég á eftir að kynna mér almennilega stefnumál framboðanna, en það eru miklar líkur á að atkvæði mitt fari til þeirra sem ætla að tryggja betra geðheilbrigðiskerfi. Við verðum að hysja upp um okkur í þeim málaflokki og eyða biðlistum. Yfir og út. ❤

Píeta samtökin, sími 552 2218.
Kt. 410416-0690, reikn 0301-26-041041

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

„Ég var bara glæpamaður“
2
Viðtal

„Ég var bara glæpa­mað­ur“

„Margt af því sem ég hef gert mun ég aldrei geta bætt fyr­ir,“ seg­ir Kristján Hall­dór Jens­son, sem var dæmd­ur fyr­ir al­var­leg­ar lík­ams­árás­ir. Hann var mjög ung­ur að ár­um þeg­ar ljóst var í hvað stefndi og fann ekki leið­ina út fyrr en ára­tug­um síð­ar. Í dag fer hann inn í fang­els­in til þess að hjálpa öðr­um, en það er eina leið­in sem hann sér færa til þess að bæta fyr­ir eig­in brot.
Þakklátur fyrir að vera á lífi
3
Viðtal

Þakk­lát­ur fyr­ir að vera á lífi

Þor­lák­ur Mort­hens, Tolli, hef­ur marga fjör­una sop­ið í lífs­ins ólgu­sjó. Æsku­ár­in höfðu sín áhrif en þá byrj­aði hann að teikna og var ljóst að dreng­ur­inn væri gædd­ur hæfi­leik­um. Óregla og veik­indi lit­uðu fjöl­skyldu­líf­ið og á unglings­ár­un­um sá hann um sig sjálf­ur. Um ára­bil var hann sjómað­ur, verka­mað­ur og skóg­ar­höggs­mað­ur. Eft­ir mynd­list­ar­nám hef­ur hann lif­að af mynd­list­inni. Nú er Tolli far­inn að mála í ljós­ari tón­um. Hann gaf nýra, greind­ist síð­an með krabba­mein og sigr­aði.
Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir
4
Það sem ég hef lært

Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir

Mér renn­ur blóð­ið til skyld­unn­ar

Guð­laug Svala Stein­unn­ar Kristjáns­dótt­ir seg­ir að stærsta lexía lífs síns sé lík­lega að upp­götva um miðj­an ald­ur að hún er ein­hverf. Hún hafi átt­að sig á sjálfri sér með hjálp ann­ars ein­hverfs fólks sem þá hafði þeg­ar oln­bog­að sig áfram í heimi ráð­andi tauga­gerð­ar, misst lík­am­lega, and­lega, fé­lags­lega og starfstengda heilsu áð­ur en það átt­aði sig á sjálfu sér.

Mest lesið í mánuðinum

„Ég var bara glæpamaður“
4
Viðtal

„Ég var bara glæpa­mað­ur“

„Margt af því sem ég hef gert mun ég aldrei geta bætt fyr­ir,“ seg­ir Kristján Hall­dór Jens­son, sem var dæmd­ur fyr­ir al­var­leg­ar lík­ams­árás­ir. Hann var mjög ung­ur að ár­um þeg­ar ljóst var í hvað stefndi og fann ekki leið­ina út fyrr en ára­tug­um síð­ar. Í dag fer hann inn í fang­els­in til þess að hjálpa öðr­um, en það er eina leið­in sem hann sér færa til þess að bæta fyr­ir eig­in brot.
Íslendingar vísa trans konu á flótta frá Bandaríkjunum úr landi
6
Fréttir

Ís­lend­ing­ar vísa trans konu á flótta frá Banda­ríkj­un­um úr landi

Kona sem er á flótta frá Banda­ríkj­un­um með son sinn sótti um al­þjóð­lega vernd á Ís­landi. Fyr­ir Út­lend­inga­stofn­un lýsti hún því hvernig hat­ur hafi far­ið vax­andi þar í landi gagn­vart kon­um eins og henni – trans kon­um – sam­hliða að­gerð­um stjórn­valda gegn trans fólki. Sjálf hafi hún orð­ið fyr­ir að­kasti og ógn­un­um. „Með hverj­um deg­in­um varð þetta verra og óhugn­an­lega.“

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár