„Okkar fyrsta tilboð er auðvitað alltaf að formaður Sjálfstæðisflokksins sé forsætisráðherra,“ segir Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, í viðtali við Kosningastundina. Hann segir að flokkurinn sé opinn fyrir hvers kyns samstarfi en að fyrsti möguleikinn sé að Bjarni Benediktsson sé forsætisráðherra. „Það er auðvitað okkar fyrsta útspil. Hins vegar þá höfum við ekki útilokað að taka þátt í þessu stjórnarsamstarfi undir forystu Katrínar [Jakobdsóttur] og við myndum aldrei útilokað aðra slíka möguleika.“
Sjálfstæðisflokkurinn mælist langstærsti flokkur landsins í skoðanakönnunum og hefur lengst af gjarnan mælst með tvöfalt meira fylgi en næsti flokkur á eftir.
Birgir segir að kosningaloforð flokksins, eins og aukin útgjöld og skattalækkanir, verði fjármögnuð með því að kakan stækki, að umsvif hagkerfisins aukist. „Við byggjum okkar stefnu á því að hér verði áfram hagvöxtur,“ segir hann.
Lýsa yfir „þjóðarskömm“
Í kosningastefnu Sjálfstæðisflokksins segir að biðlistar og tvöfalt heilbrigðiskerfi séu „þjóðarskömm“. Aðspurður hvers vegna flokkurinn hafi ekki breytt þessu í þau átta ár sem flokkurinn hefur verið samfellt í ríkisstjórn og þar af mestan tímann með fjármálaráðuneytið segir Birgir: „Á sviði heilbrigðismála hafa verið núningsfletir innan þessa stjórnarsamstarfs.“
Birgir segir Sjálfstæðisflokkinn vilja láta reyna meira á einkarekstur, þótt opinbera kerfið verði áfram hryggjarstykkið í heilbrigðisþjónustu á Íslandi.
Baráttan gegn biðlistunum og lægri skattar eru tvö af kjarnamálum Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi kosningar. Flokkurinn stóð við að lækka tekjuskatta á kjörtímabilinu og fór lægsta þrep tekjuskatts niður í 31,45% árið 2021 úr 36,94% árið 2017, þótt persónuafsláttur hafi lækkað lítillega á sama tíma. Þriðja höfuðmálið er nýting innlendrar orku í stað olíu. Birgir Íslendinga nú þegar hafa forskot.
„Við erum að tala um að halda okkur á pari við Evrópuþjóðir hvað varðar losun fyrir annars vegar 2030 og hins vegar 2050. Þannig að við teljum okkur standa vel að vígi að þessu leyti, sérstaklega þegar horft er til þess að í alþjóðlegum samanburði verðum við að horfa til þess að stærstu losunarvandamálin í nágrannalöndunum eru mál sem leystust fyrir áratugum hér vegna nýtingar á umhverfisvænni orku.“
Varðandi það hvernig flokkurinn hyggst ná fram markmiðunum segir Birgir tækniframfarir munu áorka miklu, en að nú þegar hafi verið beitt „skattalegu hagræði til þess að það væri auðveldara fyrir fyrirtæki að fjárfesta í nýrri tækni á þessu sviði“. Hann vill þó engar róttækar breytingar í stefnu gagnvart stóriðjunni og losun hennar, enda sé „tækniþróunin að gefa okkur tæki til að draga úr þessu með með árangursríkum hætti“.
Vilja selja meira í Íslandsbanka
Í kosningastenfu Sjálfstæðisflokksins kemur fram að salan á Íslandsbanka hafi verið vel heppnuð. „Ég held líka að það sé jákvætt að halda áfram sölu á hlutum í Íslandsbanka,“ segir Birgir en vill bíða með sölu Landsbankans.
Birgir segir að auknir styrkir til stjórnmálaflokka og ríkisframlög til einkarekinna fjölmiðla „orki tvímælis“. Hann segir þó enga umræðu um að lækka aftur styrki til stjórnmálaflokka, sem fóru úr 286 milljónum árið 2017 í 728 milljónir í fyrra. Aukning á framlögunum hafi verið til að koma til móts við tekjutap flokkanna þegar þrengt var að fjárframlögum fyrirtækja til stjórnmálaflokka árið 2007. Hann hefur ekki áhyggjur af fjárframlögum auðmanna og hagsmunaaðila til fjölmiðla. „Ég held að ég, ég held að alls staðar í öllum vestrænum ríkjum þá eru eigendur fjölmiðla af ýmsu tagi og ég held að það sé í sjálfu sér ekki ástæðu til að hafa áhyggjur af því hér á landi frekar en annars staðar.“
Þrír flokkar útiloka Sjálfstæðisflokk
Spurður hvers vegna Samfylkingin og Píratar, ásamt Sósíalistum, útiloka sérstaklega samstarf með Sjálfstæðisflokknum segir Birgir að flokkarnir séu að reyna að höfða til kjósenda. „Ég held að þessir flokkar skilgreini sig svolítið út frá því að vera á móti okkur,“ segir hann.
Í viðtalinu ver Birgir ráðherra Sjálfstæðisflokksins gagnrýni. Hann segir að brot ferðamálaráðherra og fjármálaráðherra á sóttvarnareglum séu skiljanleg og að beðist hafi verið afsökunar. „Ég held að allir geti sett sig í þau spor að að þú getur lent í svona aðstæðum, að þetta gerist á óvart og það er ekki einhver einbeittur brotavilji þar á bakvið.“
Óréttmæt gagnrýni á Kristján Þór
Birgir segir Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra hafa sætt óréttmætri gagnrýni vegna tengsla sinna við Samherja. „Mér finnst hann í raun og veru hafa sætt mjög óréttmætri gagnrýni út frá þessu vegna þess að það sem er verið að gagnrýna hefur ekki með nokkrum hætti tengsl við neinar ákvarðanir sem hann hefur verið að taka á neinu stigi. Hann komst aldrei í þá stöðu að þurfa að taka afstöðu eða ákvörðun um eitt eða neitt sem snertir þessi mál. Og ekki gagnvart Samherja umfram önnur sjávarútvegsfyrirtæki í landinu.“
Kristján Þór hefur mælst með langminnst traust allra ráðherra í ríkisstjórninni og er ekki í framboði fyrir þingkosningarnar sem verða laugardaginn 25. september.
Þið bjóðið núna fram undir slagorðinu Land tækifæranna. Eitt af ykkar kosningamálum er að hækka frítekjumark atvinnutekna hjá eldri borgurum upp í 200 þúsund krónur úr 100 þúsund. Hvers vegna hafið þið ekki lagt áherslu á að Ísland verði og hafi verið land tækifæranna fyrir þetta fólk, að þetta fólk þurfi ekki að sæta 80% skerðingu á sínum tekjum, eða allt að því, þennan tíma sem þið hafið verið við völd?
„Við tókum þátt í því á síðasta kjörtímabili að hækka þetta frítekjumark úr, ef ég man rétt, 25 þúsund í 100 þúsund þannig að við vorum að stíga skref í áttina. Veruleikinn hefur líka breyst að því leyti að þeir sem eru að fara á eftirlaun í dag eru almennt hressari, við betri heilsu, og hafa hugsanlega meira starfsþrek heldur en áður var, þannig að þetta er í raun og veru að verða raunhæfara viðfangsefni. Fyrir síðustu kosningar komu frammámenn í Félagi eldri borgara að máli við okkur og reyndar aðra flokka líka og lögðu töluverða áherslu á þetta. Það má segja að það hafi svona svolítið komið þessu á dagskrá hjá okkur og öðrum í pólitíkinni. Við hins vegar teljum að reynslan af því að fara með þetta upp í hundrað þúsund sé bara býsna góð.“
Lofuðu eldri borgurum afnámi tekjutenginga
Þannig að ykkur fannst þetta vera nóg? Grái herinn, samtök eldri borgara, er algerlega ósammála. Fyrir átta árum, fyrir kosningarnar 2013, þegar þið komust í ríkisstjórn, sendi formaður flokksins, bréf á eldri borgara þar sem sagði meðal annars orðrétt: „Fái Sjálfstæðisflokkurinn umboð til að leiða næstu ríkisstjórn munum við setja eftirfarandi mál í öndvegi: Við ætlum að afnema tekjutengingar ellilífeyris. Stjórnvöld eiga að hlúa að öldruðum en ekki að íþyngja þeim með ósanngjarnri skattlagningu. Finnst ykkur þið hafa staðið ykkur nægilega vel í þessu máli og staðið við það sem þið hafið boðað?
„Við getum alltaf gert betur og á þessu sviði eins og öðrum. Við hins vegar fórum árið 2016 í töluvert mikla endurskoðun á fyrirkomulagi eftirlaunakerfisins sem í raun og veru beindist fyrst og fremst að því að bæta kjör þeirra sem höfðu engar aðrar tekjur en greiðslur frá almannatryggingum. Það var sett í forgang á þeim tíma og leiddi til töluvert mikillar útgjaldaaukningar hjá ríkinu. Núna fyrir þessar kosningar segjum við; það er kominn tími til að taka skref aftur, skref í að endurskoða þetta kerfi og í því sambandi þá höfum við meðal annars lagt áherslu á það að draga enn frekar úr skerðingum sem við teljum að séu of stífar, það er að segja að mörkin séu of lág í skerðingar, þær bíta of snemma í skerðingunum. Þannig að við erum að hugsa um ákveðna kerfisbreytingu, sem felur í sér það sem við köllum lífeyrisuppbót sem felur í sér að þeir sem ekki hafa nægilega góða stöðu í lífeyrissjóðum, að þeir fái það bætt upp af hinu opinbera. Það sem menn fá annars staðar, það verði þá ekki skert. Við eigum eftir að útfæra þetta nánar. Og eigum eftir að eiga samtöl við aðra flokka og við hagsmunasamtök eldri borgara um þetta.“
Betri kjör þingmanna í æðri tilgangi
Horfum á þessi lífeyrismál aftur í tímann. Þú hefur verið á þingi frá árinu 2003 og ert þá einn reyndasti þingmaðurinn. Árið 2003 voru eftirlaunalög þingmanna samþykkt. Nú er það þannig að fyrrverandi formaður flokksins þíns, Davíð Oddsson, þiggur bæði full eftirlaun og fullar atvinnutekjur og er yfirleitt efstur á lista yfir tekjuhæstu fjölmiðlamenn landsins. Hvað finnst þér um þá stöðu út frá réttlæti og gildismati almennt?
„Án þess að maður vilji tala um einhver einstök dæmi þá náttúrlega er það þannig að kerfið sem var sett á 2003 fól í sér að það var vissulega verið að bæta eftirlaunakjör, sérstaklega þeirra sem höfðu verið ráðherrar og þeirra sem höfðu verið lengi í pólitík. Hins vegar höfum við farið í gegnum alla vega tvær ef ekki þrjár breytingar á þessu systemi síðan. Útkoman fyrir okkur í dag er sú að þingmenn og aðrir ráðamenn eru með sömu eftirlaunakjör og opinberir starfsmenn almennt, borga reyndar meira í lífeyrissjóðinn en fá það sama úr honum. Það voru mjög margir sem duttu inn í þetta kerfi á þeim tíma sem það var við lýði. En hugmyndin var auðvitað sú að það væri verið að búa til möguleika fyrir fólk að hætta í stjórnmálum án þess að það væri endilega verið að finna einhverjar opinberar stöður fyrir þá eða eitthvað annað þess háttar, eins og hafði kannski tíðkast.“
„Hugmyndin var auðvitað sú að það væri verið í raun og veru að búa til möguleika fyrir fólk að hætta í stjórnmálum án þess að að það væri endilega verið að finna einhverjar opinberar stöður fyrir þá“
Framlög til flokka og fjölmiðla orki tvímælis
Nú eruð þið sá flokkur sem talar mest fyrir minni ríkisútgjöldum og hafið mælt með aðhaldi í rekstri ríkisins og takmarkaðri skattheimtu og svo framvegis. Engu að síður ákváðuð þið, á þessu kjörtímabili, að framlög til stjórnmálaflokka yrðu aukin úr 286 milljónum árið 2017 í 728 milljónir í fyrra. Hvernig samræmist þetta þessari almennu stefnu?
„Þetta var niðurstaða af sameiginlegri vinnu allra flokkanna ...“
Þið komið ykkur saman um að auka framlög til ykkar sjálfra?
„Já, já, og það var gert með þeim hætti að það var horft til þeirrar stöðu sem var 2007 þegar það voru settar verulegar skorður við því hvaða styrkir flokkar gætu fengið frá öðrum aðilum. Hugmyndin var sú 2007 að gera flokkana minna háða framlögum frá fyrirtækjum og öðrum aðilum. Þegar þessi fjárhæð var fundin út á þessu kjörtímabili þá var horft til þess hver staðan var hjá flokkunum 2007, hvaða styrki þeir voru að fá á þess tíma verðlagi og það var reynt að jafna það upp í því með því móti.“
Ef við tökum annað sambærilegt dæmi, það eru fjölmiðlar. Nú var ákvæði í stjórnarsáttmálanum að styrkja einkarekna fjölmiðla með einhverjum hætti. En samflokksmenn þínir hafa lagst gegn því að greiða úr ríkissjóði til einkarekinna fjölmiðla. Samt samþykkja þeir þetta. Er einhver ástæða fyrir því að það er þessi munur á viðhorfi til fjárframlaga til stjórnmálaflokka, og þar með ykkar sjálfra?
„Ég get alveg sagt frá mínum bæjardyrum séð, að hvort tveggja orkar tvímælis. En hins vegar þá var horft á það á sínum tíma að með því að takmarka mjög möguleika flokkanna til að fjármagna sig með öðrum hætti, þá væri rétt með einhverjum hætti að koma til móts við þeirra kostnað með framlögum úr ríkissjóði. Það er verulegt umhugsunarefni en þetta var niðurstaðan varðandi fjölmiðlana til að greiða.“
Kemur til greina af þinni hálfu að lækka þessar greiðslur aftur til stjórnmálaflokka?
„Ég myndi ekki treysta mér til að svara því. Það hefur ekki átt sér stað nein umræða um það. En á hinn bóginn, ef við horfum á fjölmiðlana, þá er engin launung á því að við, margir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, vildum frekar, heldur en að fara í beina styrki til fjölmiðla, fara þá leið að bæta starfsumhverfið eða rekstrarumhverfið, meðal annars með því að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði og fleira þess háttar. Leita síðar leiða til að koma til móts við þá með skattalegum hætti eins og til dæmis hefur verið gert í bókaútgáfu.“
Áhyggjulaus yfir áhrifum hagsmunaaðila á fjölmiðla
Nú liggur til dæmis alveg fyrir að vel stæðir og auðugir hagsmunaaðilar hafa lagt milljarða króna í einkarekna fjölmiðla á síðustu árum, sem mætti horfa á sem niðurgreiðslur af einhverju tagi. Hefurðu engar áhyggjur af því að hagsmunaaðilar hafi áhrif á þjóðfélagsumræðuna þannig?
„Ég held að ég, ég held að alls staðar í öllum vestrænum ríkjum þá eru eigendur fjölmiðla af ýmsu tagi og ég held að það sé í sjálfu sér ekki ástæða til að hafa áhyggjur af því hér á landi frekar en annars staðar.“
En þú hafðir áhyggjur af stjórnmálaflokkunum?
„Ég reyndar sat hjá þegar þessi lög voru samþykkt á sínum tíma af því mér fannst þetta vera svona svolítið ómarkviss niðurstaða.“
„Ég gæti alveg hugsað mér að það væri með einhverjum hætti rýmkað fyrir styrki frá fyrirtækjum“
Þannig að þú gætir stutt að afturkalla ...
„Já, já, ég gæti alveg hugsað mér að það væri með einhverjum hætti rýmkað fyrir styrki frá fyrirtækjum en hins vegar er grundvallaratriði í sambandi við styrki til stjórnmálastarfsemi að það sé gagnsætt. Það var auðvitað líka breyting sem átti sér stað þarna 2006, 2007. Það var gerð krafa um að megindrættirnir í bókhaldi stjórnmálaflokka, þar á meðal um styrki, að það væri gert opinbert. Það finnst mér í raun og veru miklu mikilvægara heldur en að setja einhver fjárhæðarmörk eða eitthvað þess háttar. Að fólk viti hverjir eru að styrkja flokkana.“
Útgjöldin fjármagnist með hagvexti
Tölum aðeins um stefnu Sjálfstæðisflokksins. Augljóslega hefur flokkurinn verið meginvalkostur fólks sem hefur þá skoðun að ríkið ætti að vera með minni umsvif og skattar ættu að vera lágir, enda er flokkurinn að mælast með 24-25 prósent fylgi, tvöfalt meira en næstu flokkar, yfirleitt. En í stefnuskránni er tiltölulega opið hvernig eigi að útfæra þetta. Í nafni gagnsæis, hvers vegna birtið þið ekki hvernig þið ætlið að gera þetta og hvað eigi að skera niður á móti í kostnaði?
„Þetta eru kannski tvær spurningar. Fyrri spurningin er sú: hvers vegna erum við ekki með útfærðar tillögur að þessu leyti? Við höfum lagt áherslu á það að meginstefnan hjá okkur í þessum efnum er skýr. Við stefnum að því að lækka tekjuskatt einstaklinga. Við stefnum að því að lækka tryggingagjald. Við höfum náð ákveðnum árangri í því og við viljum halda því áfram. Þá kemur að hinni spurningunni, og hún snýst um það að það er ekki endilega þannig að það þurfi að skera niður á móti. Við náttúrlega byggjum okkar stefnu á því að hér verði áfram hagvöxtur, að hér verði öflugt atvinnulíf sem stendur undir skatttekjum til ríkissjóðs þannig að við auðvitað leggjum höfuðáherslu á það að stækka kökuna. Jafnvel þó að kakan stækki er ekki þar með sagt að hið opinbera þurfi að stækka sem því svarar.“
Núningur vegna heilbrigðismála
Þið ætlið að lækka skatta en þið eruð líka að lofa ýmsum útgjöldum sem eru ekki útfærð. Nú mætti grípa inn í heilbrigðisstefnuna ykkar þar sem segir: „Langir biðlistar og tvöfalt heilbrigðiskerfi eru þjóðarskömm í velferðarsamfélagi.“ Þið hafið náttúrlega verið við völd í átta ár, eini flokkurinn sem hefur verið samfellt við völd allan þennan tíma. Þið hafið verið með fjármálaráðuneytið nánast allan tímann. Hvernig stendur á því að þið hafið ekki náð að vinna á þessari þjóðarskömm?
„Á sviði heilbrigðismála hafa verið núningsfletir innan þessa stjórnarsamstarfs“
„Við höfum sagt sem svo og alveg viðurkennt það að á sviði heilbrigðismála hafa verið núningsfletir innan þessa stjórnarsamstarfs. Við skulum orða það þannig, til að vera sanngjörn í allra garð, að menn hafi ekki komið sér saman um aðferðina. Í okkar huga er það þannig að hið opinbera hlýtur áfram að verða – og við höfum ekki hugmyndir um annað – en að hið opinbera verði áfram leiðandi í því að reka heilbrigðisþjónustu. Við sjáum ekki fyrir okkur annað heldur en að það sé þörf á að efla Landspítalann og styrkja þá starfsemi sem þar er. Heilsugæslan er að stórum hluta og verður áfram í opinberum rekstri. Við höfum hins vegar sagt: Við þurfum að vera með opin augun fyrir öðrum rekstrarformum og þar þurfum við fyrst og fremst að hugsa um það hvernig við getum tryggt sem besta þjónustu við sjúklingana eða þá sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda og ef það er hægt að gera það með samningum við einkaaðila um að framkvæma aðgerðir eða að sinna tilteknum þáttum þjónustunnar, þá erum við fylgjandi því.“
Nú hafa verið takmarkanir á frelsi fólks vegna bágrar stöðu heilbrigðiskerfisins, allavega þannig að Landspítalinn hefur ekki náð að sinna verkefnum sínum. Hvernig mynduð þið leysa þetta ef þið fengjuð fullt umboð til?
„Ef við fengjum fullt umboð þá sé ég fyrir mér að við myndum reyna að efla fyrst og fremst Landspítalann.“
Með meira fjármagni?
„Já, við höfum aldrei hafnað því að það verði þörf á meira fjármagni.“
En hefur einhver staðið í vegi fyrir því?
„Nei, nei. En það sem við höfum hins vegar sagt er að við þurfum um leið að horfa á það hvernig fjármagnið er nýtt. Við þurfum að sjá það að þeir auknu peningar, sem er verið að setja í heilbrigðiskerfið, að þeir nýtist til að ná raunverulegum árangri.“
Þið hafið gagnrýnt að það sé ekki næg skilvirkni í kerfinu.
„Ekki bara við. Utanaðkomandi ráðgjafar sem hafa verið að fara yfir þetta, tala um að það mætti auka framleiðni og annað þess háttar. Við sjáum líka að það eru svona ákveðnar stíflur í kerfinu sem gera það að verkum að við erum hugsanlega að spara eyrinn en kasta krónunni í einhverjum tilvikum, eins og það þegar eldra fólk sem er búið að missa heilsuna, liggur í sjúkrahúsrúmum en ætti í raun og veru frekar að fara á hjúkrunarheimili. Það eru alls konar þættir í þessu sambandi sem þarf líka að skoða, samspil milli mismunandi kerfa og samspil milli mismunandi stofnana sem vinna á þessu sviði. Það hafa auðvitað verið aukin mjög verulega framlög til heilbrigðismála á þessu kjörtímabili. Það birtist í því að að laun heilbrigðisstarfsmanna hafa hækkað verulega. Það birtist í því að við erum að ráðast í stærstu framkvæmd á sviði heilbrigðismála, uppbyggingar heilbrigðismála, með byggingu nýs meðferðarkjarna og annarra bygginga og háskóla á Landspítalasvæðinu. En það hafa líka verið aukin framlög umfram það. Heilbrigðismálin eru annar stærsti útgjaldaliður ríkissjóðs á eftir bótakerfinu, eða tilfærslum í almannatryggingakerfinu, og það er auðvitað þannig að þörfin er þar, hún er ekkert að minnka, hún eykst, fólk lifir lengur og það þarf dýrari lyf þar, ný tæki og þess háttar.“
Höfum ekki staðið okkur nægilega vel
Ef við tökum bara stöðuna núna. Þá hafið þið verið við völd í átta ár. Og starfsmenn tala um að spítalinn sé eins og hamfarasvæði, þeir eru að hrekjast úr starfi, glíma við kulnun. Þið talið um þjóðarskömm. Finnst þér þið hafa staðið ykkur nægilega vel í þessum málaflokki?
„Nei, við höfum alveg örugglega ekki staðið okkur nægilega vel. Það má alltaf gera betur. En í þessari umræðu má hins vegar ekki gleyma því að það hefur þó verið bætt verulega í fjármuni á þessu sviði og við sjáum ekki annað fyrir okkur heldur en að það þurfi að gera áfram. Við viljum hins vegar, eins og ég sagði áðan, reyna að ganga þannig frá því að við sjáum það að við séum að nýta fjármunina með sem hagkvæmustum hætti. Í einhverjum tilvikum getur það þýtt það að það verði samið við einkaaðila um einhverja tiltekna þætti. Í öðrum tilvikum kann að leiða til einhverra kerfisbreytinga eða skipulagsbreytinga varðandi verkaskiptingu mismunandi þátta í kerfinu.“
Er eitthvað eitt sem þú myndir vilja breyta núna?
„Ég held að það sé alveg svigrúm til að auka einkarekstur og ég held að það sé eðlilegt að skoða möguleika á því. Við höfum líka, margir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnt að þjónusta sem hefur verið hjá einkaaðilum sé að færast til ríkisins. Þannig að þetta er ekki bara spurning um sókn heldur líka vörn hvað það varðar. Í dag eru gróft séð tuttugu prósent heilbrigðisstarfsemi í landinu í rekstri hjá einkaaðilum og það eru sérfræðilæknar, sjálfseignarstofnanir og einhver fyrirtæki sem eru að starfa á þessu sviði. Við getum alveg séð fyrir okkur að það sé hægt að auka þetta að því gefnu að það skili okkur betri þjónustu og aukinni hagkvæmni.“
Vilja vera á pari við Evrópuþjóðir í loftslagsmálum
Skiptum yfir í umhverfismálin, sem virðast vera eitt af meginkosningamálunum í ár, í það minnsta þegar maður horfir á stefnuskrá flokkanna. Hér hafa verið mótmæli ungs fólks vegna loftslagsbreytinga. Þið talið um að þið ætlið að „halda áfram að vera í forystu í loftslagsmálum“. Ungir umhverfissinnar gáfu ykkur 21 stig af 100 mögulegum fyrir loftslagsstefnu ykkar, á meðan Píratar eru með 81 stig og Vinstri græn 80. Finnst þér þetta vera til marks um að þið séuð í forystu í þeim málum?
„Ég held að eins og á mörgum sviðum þá geturðu fundið einhverja hjá öðrum flokkum sem eru tilbúin að yfirbjóða okkur í einhverjum efnum hvað þessa þætti varðar. Við hins vegar höfum verið að vinna ásamt öðrum flokkum í ríkisstjórn að ákveðinni loftslagsstefnu stjórnvalda sem við stöndum við og hún felur í sér að mínu mati raunhæf markmið, markmið sem er hægt að ná. Við erum að tala um að halda okkur á pari við Evrópuþjóðir hvað varðar losun fyrir annars vegar 2030 og hins vegar 2050. Þannig að við teljum okkur standa vel að vígi að þessu leyti, sérstaklega þegar horft er til þess að í alþjóðlegum samanburði verðum við að horfa til þess að stærstu losunarvandamálin í nágrannalöndunum eru mál sem leystust fyrir áratugum hér vegna nýtingar á umhverfisvænni orku. Þegar við erum að tala við kollega okkar, hvort sem er hérna, hvort sem er í Evrópu eða annars staðar, þá kemur alltaf þetta upp. Stóra málið er að hætta notkun kola. Stóra málið er að koma raforkuframleiðslu í umhverfisvænan eða grænan farveg og þá horfa menn til okkar og segja: Hvernig getum við lært af ykkur í þessum efnum? Án þess að ég vilji nokkuð slaka á metnaðarstiginu út af þessu er þetta samt sem áður ákveðinn veruleiki sem við verðum að horfa til.“
Tækni og meðvitund neytenda hjálpa í loftslagsmálum
Loftslagsstefnan hjá ykkur, eins og reyndar mörgum öðrum flokkum, er örlítið loftkennd. Það er ekki skýrt hvað þið ætlið raunverulega að gera. En þið talið sérstaklega um að þið viljið ekki skattleggja ykkur frá vandanum. Þið viljið nota hvata. Ef við tökum eitt atriði úr stefnuskránni ykkar: „Sjálfstæðisflokkurinn vill að Ísland stígi skrefið til fulls, sé leiðandi í orkuskiptum á heimsvísu, með metnaðarfullum aðgerðum, og verði fyrst þjóða óháð jarðefnaeldsneyti.“ En hvernig nákvæmlega ætlið þið að gera þetta án þess að beita boðum eða bönnum eða skattlagningu?
„Það sem við höfum séð gerast bara fyrir örfáum árum er alveg gríðarleg breyting til dæmis bara varðandi bílaflotann. Ég held að við getum haldið áfram á sömu braut. Hins vegar er bæði tæknin að hjálpa okkur og meðvitund neytenda. Ég heyri af því að í fluginu eru menn á fullu að hanna rafmagnsflugvélar og við vitum ekki hvenær þær verða yfirgnæfandi.“
En hvað er það sem þið ætlið að gera?
„Við ætlum að ýta undir nýsköpun á þessu sviði. Við höfum verið að beita alls konar skattalegu hagræði til þess að það væri auðveldara fyrir fyrirtæki að fjárfesta í nýrri tækni á þessu sviði.“
Eruð þið samþykk því að banna díselbifreiðar á einhverjum tímapunkti, eins og hefur verið talað um?
„Það er náttúrlega verið að tala um og í raun og veru búið að lögfesta það að bílar sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti verða ekki fluttar inn hérna eftir 2030. Við tókum þátt í því að samþykkja löggjöf þó að það væru vissulega skiptar skoðanir í okkar röðum um það hvort þetta væri eitthvað sem við ættum að gera með þessum hætti, hvort við ættum að beita banninu eða hvort við ættum að ýta frekar undir þá þróun sem raunverulega á sér stað í því að rafmagnsbílar, fyrst tvinnbílar en nú fullkomnir rafmagnsbílar, eru að taka við af bílum sem eru knúnir með jarðefnaeldsneyti.“
Enga meiri skatta á stóriðjuna
Nú eru samgöngurnar einn hluti af útblæstri Íslands. Og svo komum við að stóriðjunni, sem er náttúrlega verulegur hluti. Hvað eruð þið tilbúin að gera gagnvart stóriðjunni?
„Stóriðjan hefur auðvitað verið í sérstöku kerfi, þessu loftslagskvótakerfi og við sjáum ekki fyrir okkur að það verði neinar róttækar breytingar hvað það varðar.“
Þið viljið ekki setja henni neinar hömlur eða skattlagningu?
„Ekki neitt umfram það. En ég held hins vegar líka að maður verði að horfa á það að jafnvel í stóriðjunni þá eru tækniframfarir að valda því að útblástur er að minnka. Sama á við um mörg önnur svið, að tækniþróunin er að gefa okkur tæki til að draga úr þessu með með árangursríkum hætti.“
Þegar við tölum um græna skatta, eru einhverjir skattar sem þið eruð tilbúin til að hækka til að leiða til þess að hvatar til að menga verði minni?
„Við höfum auðvitað í dag skatta sem bíta í sambandi við eldsneyti. Við höfum ekki talað fyrir því að hækka þá en þeir eru býsna háir. Við erum með hæstu eldsneytissköttum í Evrópu. Menn gleyma því stundum í þessari umræðu. Við erum þegar í raun og veru, þó að tilgangurinn hafi kannski verið annar í upphafi, þá erum við í raun og veru að gera jarðefnaeldsneyti dýrara með mikilli skattheimtu. Síðan náttúrlega eru aðrir þættir. Ég meina, við sjáum að í greinum eins og landbúnaði eru menn líka að skoða möguleika á því hvernig er hægt að draga úr útblæstri. Við sjáum fyrir okkur að þar geti náðst töluverður árangur. En síðan er þetta spurning líka um mótvægisaðgerðir og þar eru Íslendingar að prófa sig áfram með nýja tækni sem getur skilað einhverju, bara eins og er verið að gera hérna í Carbfix uppi á Hellisheiði, að binda koltvísýring, og síðan eru auðvitað – og það er auðvitað umdeilt mál gagnvart landbúnaðinum – það að fylla í skurði hjálpar okkur í þessu sambandi. Það að endurheimta votlendi, eins ogg við tölum um. Það skiptir máli. Skógrækt skiptir líka máli. Við höfum verið jákvæðir gagnvart því að ýta undir skógrækt, meðal annars til að vega upp á móti kolefnissporinu.“
Ný rör fara í taugarnar
Ef við tökum stefnu ykkar gagnvart plastmengun, þá segið þið: „Ráðast þarf í markvissar aðgerðir til að draga úr plastmengun á landi sem og í sjó, án boða og banna. Hvatar til breyttrar umgengni um plast eru hvað áhrifaríkastir.“ Nú er búið að banna plaströr og svo framvegis ...
„Já, já. Það fer í taugarnar á mér í ljósi persónulegrar reynslu. Mér finnst hin rörin mjög léleg og ómöguleg. En nei, nei. Við erum að segja að það þurfi að leita leiða til þess að gera þetta.“
Yfirleitt eru hvatar skattar.
„Já, það er stundum hægt að nota gulrót líka. Það þarf ekki bara að nota vöndinn. Bæði framleiðendur hér og annars staðar eru líka að breyta sinni framleiðslu til að koma til móts við sjónarmið að þessu leyti. Það er auðveldara í dag að fá bara almennar neytendavörur í öðrum umbúðum heldur en plasti. Þó að plastið sé enn þá mjög mikið. Hins vegar er stóri ávinningurinn kannski sá, ef það er hægt að skoða hvað er að gerast í atvinnulífinu. Það er mjög mikið af plasti sem kemur í sjóinn frá sjávarútvegi, plastmengun í sjó, reyndar auðvitað alþjóðlegt vandamál og höfin eru alþjóðleg, þannig að við leysum kannski ekki allt en við getum lagt okkar af mörkum.“
Þið viljð ekki boð og bönn, en viljið jákvæða hvata, en kannski erfitt að festa fingur á það hverjir þeir hvatar eru, nema stefnan sé meira útfærð. Þið talið líka um að smásalar, framleiðendur og neytendur geti minnkað matarsóun um helming á næstu tíu árum með jákvæðum hvötum. Geturðu útskýrt hvernig það myndi eiga sér stað, hvernig þeir hvatar myndu myndast?
„Er það ekki bara að klára af diskinum? Nei, án þess að ég þekki það nákvæmlega hvernig menn vinna í því. Það þekkja það allir í sínu heimilishaldi hvað mikið af mat endar í ruslinu þannig að það er auðvitað æskilegt að reyna að draga úr því sem allra, allra mest.“
Fyrsta tilboð að Bjarni verði forsætisráðherra
Þið hafið verið í ríkisstjórn með Vinstri grænum sem er sá flokkur sem hefur mest gert út á umhverfismálin og margar þessar breytingar sem þú nefnir eru af þeirra hvötum. Þið hafið gefið eftir í einhverjum málum til þess að leyfa framgang slíkra mála. En ef við förum í ástand stjórnmálanna akkúrat núna: Þið eruð að mælast með 24 til 25 prósent fylgi nokkuð stöðugt á meðan samstarfsflokkurinn, sem var með 17 prósent í kosningunum síðast, hefur verið að mælast allt niður í 10 prósent. Finnst þér sanngjarnt ef kosningarnar færu svona að Katrín Jakobsdóttir verði áfram forsætisráðherra, með ykkar flokk tvöfalt stærri?
„Okkar fyrsta tilboð er auðvitað alltaf að formaður Sjálfstæðisflokksins sé forsætisráðherra.“
„Við auðvitað myndum alltaf segja: Okkar fyrsta tilboð er auðvitað alltaf að formaður Sjálfstæðisflokksins sé forsætisráðherra. Það er auðvitað okkar fyrsta útspil. Hins vegar þá höfum við ekki útilokað að taka þátt í þessu stjórnarsamstarfi undir forystu Katrínar og við myndum aldrei útiloka aðra slíka möguleika. Við þurfum hins vegar bara að vera raunsæ þegar það er talið upp úr kjörkössunum, hvers konar stjórnarform er raunhæft, hvaða flokkar geta unnið saman og hvaða flokkar eru líklegir til þess að geta unnið saman að þeim málum sem við leggjum mesta áherslu.“
Nú er ríkisstjórnin með 55% stuðning* í síðustu könnun Gallup. En flokkarnir sem mynda ríkisstjórnina ná ekki meirihluta lengur samkvæmt þeim könnunum. Kæmi að þínu leyti ekki mest til greina að fá Viðreisn inn í stjórnarsamstarfið, eða eitthvað slíkt?
*Ríkisstjórnin mældist síðar með 57% stuðning í nýrri könnun Gallup
„Ég vil ekki fara í þann samkvæmisleik. Við hljótum bara að meta það eftir kosningar.“
Hver er munurinn á ykkur og Viðreisn að þínu viti?
„Grundvallarmunurinn og grundvallarágreiningurinn liggur kannski á sviði Evrópumála. Mér finnst þau ekki vera á dagskrá. Viðreisn og Samfylking eru að reyna að taka þessi mál á dagskrá. Þessi ágreiningur stóð ekki í vegi fyrir því að þessir flokkar gætu tekið saman um að mynda ríkisstjórn 2016. Það er ekkert útilokað í því. Við auðvitað hljótum að meta stöðuna út frá því hvaða flokkar hafa annars vegar möguleika út frá frá þingstyrk til að vinna saman og svo hins vegar möguleika á að ná saman málefnalega. Ég dreg ekkert úr því að það er flókið mál þegar svona margir flokkar eru á vellinum.“
„Þessi ágreiningur stóð ekki í vegi fyrir því að þessir flokkar gætu tekið saman um að mynda ríkisstjórn 2016“
Nú vill hvorki Samfylkingin né Píratar mynda ríkisstjórn með ykkur, sérstaklega. Þau hafa bara gefið það út að Sjálfstæðisflokkurinn, hann komi ekki til greina í ríkisstjórn.
„Og Sósíalistaflokkurinn er á sömu línu líka.“
Já, það kemur kannski ekki á óvart ... Hvers vegna heldurðu að það sé?
„Ég held að þessir flokkar skilgreini sig svolítið út frá því að vera á móti okkur, það sé kannski grundvallar ... Þeir hafa kannski réttilega metið það þannig að sá kjósendahópur sem þeir eru helst að reyna að höfða til stendur tiltölulega langt frá Sjálfstæðisflokknum málefnalega, þannig að þeir eru auðvitað að reyna að höfða til einhverra kjósenda með þessu.“
„Þeir verða að svara fyrir það af hverju þeir vilja ekki vinna með okkur.“
Þetta eru umhverfisverndarsinnaðir flokkar. Þeir vilja hækka frítekjumark öryrkja og eldri borgara eins og þið.
„Þeir verða að svara fyrir það af hverju þeir vilja ekki vinna með okkur. Ég ætla ekkert að fara að taka það neitt persónulega. En ég hins vegar segi bara sem svo: Ef einhver vill ekki vinna með þér þá er það bara þannig. Þú spilar þá úr þeim spilum sem þú hefur á hendi. En ég held hins vegar að allir sem í raun og veru sko eru sæmilega raunsæir átti sig á því að ef það eru segjum níu flokkar, átta eða níu flokkar sem eiga fulltrúa á þingi, þá auðvitað er býsna flókið að raða saman brotunum. Frá mínum bæjardyrum séð þá verða menn að vera tilbúnir að skoða alla möguleika.“
Samfylkingin og Píratar hafa gagnrýnt ykkur fyrir ýmislegt og við komumst ekki yfir öll deilumálin, en ef við tökum sem dæmi að dómsmálaráðherrann ykkar var talinn hafa brotið lög, stjórnsýslulög, við skipan dómara. Hún sagði ekki af sér nógu fljótt af þeirra mati, hún var aftur valin dómsmálaráðherra eftir þessar ákvarðanir. Fannst þér hún hafa átt að segja af sér fyrr, hefði það gert eitthvað til að koma á móts við hina flokkana?
„Nei, ég held það hafi ekki verið tilefni til þess og ég veit ekki hvort þetta mál sem slíkt var neinn úrslitaþáttur þegar við horfum til samstarfs okkar, mögulegs samstarfs við Pírata eða Samfylkingu. Ég held að það sé ekki.“
Þykir gagnrýni á Kristján Þór óréttmæt
En það hafa komið upp álitamál varðandi ekki bara stefnumál heldur hagsmunaárekstra, siðferðisspursmál og svo fram eftir götunum. Sem annað dæmi: Langóvinsælasti ráðherrann í ríkisstjórninni er Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra. Nú hafa margir gagnrýnt að hann hafi ekki hreinlega sagt af sér vegna þess að hann er með tengsl við eitthvert stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins, Samherja, sem er til rannsóknar vegna mútugreiðslna. Hann hitti þessa meintu mútuþega á fundi, án þess að efni fundar hafi átt að vera eitthvað slíkt. Hann hringdi í forstjóra fyrirtækisins, sem er góður vinur hans, og spurði hann um líðan hans eftir að málið kom upp. Myndir þú, sem stjórnmálamaður, eiga svona símtal, vera áfram sjávarútvegsráðherra með tengsl við stærsta sjávarútvegsfyrirtækið sem er í þessum málum?
„Ég held að þarna verða menn bara að horfa á hvar raunverulega er fyrir hendi vanhæfi. Hvar er fyrir hendi vanhæfi? Kristján Þór var ekki að taka neinar ákvarðanir sem hafa neitt að gera með þetta mál.“
Þetta tiltekna mál. En aðrar ákvarðanir varðandi Samherja. Nánast allar ákvarðanir hans tengjast Samherja.
„Já, með sama hætti og öll önnur útgerðarfyrirtæki í landinu. Kristján Þór auðvitað var í stjórn Samherja og formaður stjórnar fyrir aldamót og tengsl hans eða kunningsskapur við Þorstein Má Baldvinsson hefur auðvitað legið lengi fyrir.“
En þetta hefur valdið töluverðu vantrausti á honum. Þér finnst hann ekki hafa átt að bregðast við vantraustinu sem slíku eða finnst þér vantraustið óréttmætt?
„Mér finnst hann í raun og veru hafa sætt mjög óréttmætri gagnrýni út frá þessu vegna þess að það sem er verið að gagnrýna hefur ekki með nokkrum hætti tengsl við neinar ákvarðanir sem hann hefur verið að taka á neinu stigi. Hann komst aldrei í þá stöðu að þurfa að taka afstöðu eða ákvörðun um eitt eða neitt sem snertir þessi mál. Og ekki gagnvart Samherja umfram önnur sjávarútvegsfyrirtæki í landinu.“
Enginn ásetningur í Ásmundarsal
Nú eru nokkur önnur mál sem stjórnarandstaðan og fleiri hafa rætt sérstaklega um varðandi ráðherrana. Ef ég nefni bara þrjú: Að dómsmálaráðherrann fær far með þyrlu Landhelgisgæslunnar í ákveðið einkaerindi. Ferðamálaráðherrann er á myndum í ákveðnu partístandi á sama tíma og almenningur er beðinn að halda fjarlægð og vera ekki í slíkum aðstæðum. Og Bjarni formaður var viðstaddur það sem hefur verið flokkað sem sölusýning á listaverkum og þar sem töluverð áfengisneysla var við hönd, á sama tíma og almenningur átti ekki að viðhafa slíka hegðun. Heldurðu að þessi umræða um siðferðismál eða gildismat hafi neikvæð áhrif á fylgi Sjálfstæðisflokksins og samstarfsvilja annarra flokka með honum?
„Ég veit ekkert um samstarfsvilja en neikvæð umræða auðvitað er alltaf neikvæð. Það segir sig sjálft. Þórdís Kolbrún baðst afsökunar á þessum mistökum sínum og sama gerði Bjarni. Ég held að allir geti sett sig í þau spor að þú getur lent í svona aðstæðum, að þetta gerist óvart og það er ekki einhver einbeittur brotavilji þar á bak við.“
„Ég held að allir geti sett sig í þau spor að þú getur lent í svona aðstæðum, að þetta gerist á óvart“
En er hægt að tala um að lenda í einhvers konar partístandi? Kemurðu þér ekki í það?
„Þú kemur á sölusýningu og það er fullt af fólki í húsinu. Það var opið þarna og það var ekki neinn ásetningur til þess að fara í nein brot þarna.“
Myndirðu segja að það séu gerðar of miklar kröfur til framkomu ráðherranna eða ertu bara sammála þessari gagnrýni?
„Ég held að í svona tilvikum þá verður bara hver að setja sig í þessi spor. Ég meina, það geta allir lent í þessu. Katrín Jakobsdóttir var inni á einhverjum fótboltaleik um daginn, grímulaus þar sem var einhver grímuskylda, þið vitið. Það er bara þannig að í þessu umhverfi þá geta menn misstigið sig og þegar menn biðjast afsökunar er málinu að mínu mati lokið.“
Vill selja meira í Íslandsbanka
Ef við förum yfir í efnahagsmálin. Eitt kjarnamál Sjálfstæðisflokksins er að ríkið eigi ekki að vera í samkeppnisrekstri. Núna í sumar kláruðuð þið að selja eða bjóða út 35% hlut í Íslandsbanka. Daginn sem viðskipti hófust hækkaði gengi bréfanna um 20%. Fannst ykkur þetta raunverulega vera vel heppnuð aðgerð að því leytinu til, fékk ríkissjóður og sameiginlegur sjóður almennings, fullt og besta verð fyrir eignina sína?
„Það að setja eignina með þessum hætti í sölu var náttúrlega til þess að reyna að kalla fram eitthvert verð. Reyna að átta sig á því hvert verðið væri. Það voru meðal annars notuð sem rök fyrir því að taka takmarkaðan hluta og selja í einu að það væri rétt að byrja með þessum hætti til að sjá hvaða gangverð væri á þessu. Það var auðvitað búið að fara í gegnum mat hjá fjöldamörgum óháðum aðilum hvað væri rétt að setja sem viðmiðun í þessu sambandi. Það eru einhverjar væntingar sem þetta sýnir. Þetta er náttúrlega bara eins og spurningin um það, ef þú selur íbúðina þína, þú getur metið það að þú sért að fá hæsta mögulega verð á einhverjum tímapunkti. Svo sérðu eftir mánuð að íbúðir hafa hækkað enn meira í verði.“
Þú myndir svekkja þig ef hún myndi koma aftur á sölu 20 prósent hærri. En þið ætlið að halda áfram sölu á hlutum í bönkunum og með sama hætti, þið teljið þetta vel heppnað svona.
„Já, já. Við teljum að þetta útboð hafi verið vel heppnað. Það var mikil eftirspurn eftir bréfunum og það voru lífleg viðskipti með þetta og ég held að það sé jákvætt. Ég held líka að það sé jákvætt að halda áfram sölu á hlutum í Íslandsbanka. Ég held að Landsbankinn, sem er seinni tíma mál og það er umdeildara, líka, pólitískt.“
Óttast bólu á fasteignamarkaði
En þessi gríðarlega hækkun hlutabréfa á Íslandi sem kemur í kjölfarið á vaxtalækkun Seðlabankans? Afleiðing vaxtalækkunarinnar er að innlánsreikningar eru ófýsilegri og hvað þá skuldabréf og svo framvegis. Peningar færast yfir í hlutabréfin. Hefurðu engar áhyggjur af bólumyndun í hlutabréfaviðskiptum á Íslandi?
„Ég held að það sé auðvitað alltaf ákveðin hætta á bólumyndun á öllum eignamörkuðum, hvort sem er í hlutabréfaviðskiptum eða þess vegna á fasteignamarkaðnum. Í raun og veru hef ég kannski meiri áhyggjur í dag af bólumyndun á fasteignamarkaðnum, bara ef við horfum á þróunina síðustu mánuði. Ræturnar þar eru kannski annars eðlis en ég held að það, þegar það er takmarkað framboð eigna sem er til sölu, það auðvitað ýtir undir verð þegar fjárfestingarmöguleikar eru takmarkaðir, hvort sem er í hlutabréfum eða í fasteignum eða hvaða eignum sem er, þá ýtir það undir verðhækkanir. Það er alveg ástæða til að allavega að hafa varann á hvað það varðar. Seðlabankinn lækkaði vexti í umhverfi þegar við sáum fram á mjög mikinn samdrátt og ég hugsa að það megi segja að partur af þeirri viðleitni Seðlabankans var að reyna að tryggja að það yrði áfram líf í þessum markaði, vegna þess að eitt af því sem við höfðum áhyggjur af í fyrravor, þegar við vorum byrjuð að sjá áhrif kórónuveirufaraldursins, var að það yrði einhvers konar skarpur samdráttur eða hrun eða hvað við köllum það.“
Skattalækkanir verði tímasettar rétt
Sem varð í raun ekki á þessum mörkuðum. En núna er heilmikið líf, óvenjulega mikið líf á hlutabréfamarkaðnum og fasteignamarkaðnum. En á sama tíma boðið þið skattalækkanir, sem myndu væntanlega hleypa enn meira lífi í þessa markaði. Þið boðið að skerðingar á tekjum öryrkjum og eldri borgara verði lækkaðar. Þannig að væntanlega, ef þið fáið fullt umboð, munu töluverðir peningar flæða inn á þessa markaði. Þannig að ef það er bólumyndun mun þetta ýta undir hana enn frekar.
„Þarna skiptir máli í hvaða tímaramma við erum að tala um hlutina. Erum við að tala um næstu mánuði eða erum við að tala um kjörtímabilið? Og ég er ekki viss um að skammtímabólumyndun á fasteignamarkaði eða skammtímabólumyndun á hlutabréfamarkaði sé eitthvað sem verður viðvarandi. Ég held hins vegar að forsenda þess að við getum staðið við fyrirheit okkar er að það verði aftur uppgangur í atvinnulífinu. Og uppgangur í atvinnulífinu, hann felur auðvitað með einhverjum hætti í sér þenslumyndun en það hins vegar skiptir máli að það sé verðmætasköpun sem er raunveruleg en ekki bara einhver pappírsgróði.“
Í forgangi að búa atvinnulífinu rétt umhverfi
Ef það væri eitthvað eitt sem þú gætir áorkað eða breytt með þátttöku þinni í stjórnmálum. Hvað væri það og hvernig myndirðu gera það?
„Þegar menn er búinn að vera lengi í pólitík þá náttúrlega hefur maður snert á ýmsum málum. Þannig að ég á bágt með að tiltaka eitthvað eitt í þessu sambandi. Ég hins vegar vil fyrst og fremst leggja mitt af mörkum til að það verði hérna forsendur til þess að getum náð efnahagnum upp og það er eitthvað sem ég álít að sé forgangsmál fyrir okkur. Að búa atvinnulífinu þannig umhverfi að það geti skapað meiri verðmæti, skapað fleiri störf og staðið undir öllu því góða sem við viljum gera á öðrum sviðum samfélagsins.“
Athugasemdir