Það virðast fáir eða engir möguleikar á því að stjórnmálamenn sem vilja einhverjar breytingar á núverandi skipan mála, geti komið sér saman um að stjórna í sameiningu.
Það er sorglegt því þar ræður ekki málefnalegur ágreiningur mestu heldur persónulegur ágreiningur, metnaður einstaklinga, samkeppni og óþol.
Þjóðin virðist eiga mun meiri samleið en fulltrúar hennar á þingi. Yfirgnæfandi meirihluti hennar vill sterkt opinbert heilbrigðiskerfi fyrir alla, flestir vilja breyta stjórnarskránni, kvótakerfinu og draga úr ójöfnuði með skattakerfinu og telja líka að við séum þess umkomin að sýna meiri mannúð í málefnum hælisleitenda og flóttamanna en við gerum og taka stærri skref í loftslagsmálum. Stóra undantekningin frá þessari reglu eru kjósendur Sjálfstæðisflokks og Miðflokks, þó ekki allir.
Það er því grátlegt að stjórnarráðið sé nánast frátekið fyrir Sjálfstæðisflokkinn með alla sína sérhagsmuni innanborðs og varðstöðu um auðmenn og misskiptingu.
Þótt meirihluti þjóðarinnar sendi önnur skilaboð í kosningum.
Heldur það versta en þann næstbesta
Það er áhyggjuefni hversu miklu auðveldara það er að hefja sig yfir málefni en persónur. Það er auðveldara að hlaupa í fangið á þeim sem maður á enga samleið með í stjórnmálum heldur en að þola fólk sem er þó nánast sammála manni í mörgu, því það er ekki sama sinnis í öllum atriðum.
Af því hinir eru of íhaldssamir, of róttækir, of hægri sinnaðir eða ekki nógu fínir og stofuhreinir til að starfa í ríkisstjórn.
Það er óþarfa lúxus að ríghalda í þennan ágreining stjórnarandstöðunnar þegar kemur að stjórnarmyndun. Það eru engar líkur á því að neinn flokkur nái þeirri stöðu að geta stjórnað að eigin geðþótta, allt er háð málamiðlunum en fólk virðist þrátt fyrir það frekar vilja vera hækjur Sjálfstæðisflokksins eða dorma með sannfæringu sinni í huggulegri stjórnarandstöðu en reyna að hafa raunveruleg áhrif.
Það er ekki boðlegt að það sé hægt að gleyma því hvað mann langar að breyta kvótakerfinu, af því þeir sem eru hugsanlega á sömu línu eru svo öfundsjúkir og óþolandi. Og það er alveg sama hvað mann langar mikið til að bæta kjör aldraðra og öryrkja, því það ekki hægt að vinna með Jóni af því hann var svo dónalegur þarna um árið. Og það er ekki hægt að stoppa í götin á heilbrigðiskerfinu því Gunna er svo mikil prímadonna og þakkar sjálfri sér allt sem gert er.
Þess vegna er bara hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum.
Þetta er eins og að vera sjö ára og vera treyst fyrir að fara í búðina fyrir mömmu sína. Hún lætur mann hafa innkaupapoka, peningabuddu og minnismiða og maður arkar af stað í rauðri kápu fullur af stolti yfir eigin mikilvægi og ábyrgð. Þegar í búðina er komið, stendur kaupmaðurinn bak við búðarborðið, hann tekur peningana, rífur minnisblaðið en lætur mann hafa lítinn sælgætispoka í staðinn. Og þá fer maður heim aftur og reynir að sannfæra mömmu sína um að þetta hafi verið góð viðskipti og nammið hafi bragðast vel. Og verður steinhissa að fá skammir. Nammið var gott á bragðið og fullt af nýjum krökkum vildu leika meðan það var eitthvað til. „Af hverju er það mér að kenna þótt hinir í fjölskyldunni fái engan kvöldmat?“
Mannúðlegt andlit óréttlætis
Samfylkingin og Viðreisn eru búin að draga ESB umsókn upp úr glatkistunni og Píratar ætla ekki í ríkisstjórn nema nýja stjórnarskráin verði lögfest. Sósíalistar sætta sig ekki við minna en byltingu. Og skeytin á milli eru eitruð. Kannski Vinstri græn nái að læðast aftur inn í stjórnarráðið með trúðsnef, brotinn skjöld og laskaða kórónu til að gefa nýrri hægri stjórn mannúðlegri ásjónu.
Samherji verður allavega glaður og aðrar „fátækar ekkjur“ Sjálfstæðisflokksins geta vel við unað í stórhýsunum sínum. Það verður nokkrum fallegum fossum fórnað og einhverjir flóttamenn þurfa að yfirgefa landið í skjóli nætur fyrir óvissuna.
Og Vinstri græn þurfa þá ekki að hafa áhyggjur af því að sólin skíni á hina smáflokkana og þeir flokkar geta haldið kosningastefnuskrá sinni óflekkaðri með því að gefa eftir drauminn um nýja vinstri/miðjustjórn sem byggir á málamiðlunum um löngu tímabærar kerfisbreytingar.
En er það þetta sem kjósendur þeirra vilja?
Nei.
Við erum sammála um margt sem gæti gert landið okkar að betri stað fyrir alla. Við viljum minni sjálfhverfu og meiri kjark á hinu pólitíska sviði. Við viljum stjórnmálamenn sem rísa undir ábyrgðinni og færa okkur raunverulegar breytingar.
Við eigum víst samleið.
Takið ykkur á eða fáið ykkur aðra vinnu.
Athugasemdir