Fyrir rúmri hálfri öld, nánar tiltekið árið 1965, kom út bókin The Logic of Collective Action: Public Goods and the Theory of Groups eftir bandarískan hagfræðing frá Norður-Dakótu, Mancur Olson Jr. Í bókinni setti Olson m.a. fram þá kenningu að talsmenn þröngra sérhagsmuna yrðu allt of oft ofan á en þeir sem berjast fyrir meiri en dreifðari hagsmunum fjöldans undir. Skýringin væri fyrst og fremst að tiltölulega fámennir hópar, þar sem hver og einn hefur mikilla hagsmuna að gæta, eru miklu líklegri til að berjast af hörku fyrir þeim en dreifðari og stærri hópar, þar sem hver og einn hefur tiltölulega lítilla hagsmuna að gæta.
Í raun væri um eins konar laumufarþegavandamál að ræða hjá síðari hópnum. Fáir sjá sér hag í að eyða tíma og orku í að berjast fyrir einhverju sem skilar þeim persónulega litlu, þótt þeir vildu gjarnan njóta ávinningsins af baráttu annarra. Sérhagsmunahópurinn á miklu síður við slíkt laumufarþegavandamál að stríða. Þar á hver og einn mikið undir og er til í að leggja sitt af mörkum. Þegar væntur ávinningur af baráttu er mikill og skýr og framlag hvers og eins í baráttunni skiptir miklu um niðurstöðuna er ríkur hvati til að leggja sitt af mörkum. Ef hins vegar bæði fer saman að ávinningurinn af baráttu dreifist á mjög marga og að framlag hvers og eins skiptir litlu er miklu meiri freisting að gera ekki neitt en vona kannski að aðrir taki baráttuna að sér.
Eins og öll líkön þá er líkan Olson vitaskuld einföldun. Hagsmunir og hagsmunabarátta geta átt sér margar og flóknar birtingarmyndir og stundum er erfitt að sjá skýrar línur. Í stórum dráttum hefur greining Olson þó staðist ágætlega tímans tönn. Dæmin sem Olson tók voru frá Bandaríkjunum og eru nú meira en hálfrar aldar gömul en það þarf ekki að leita langt til að finna fjölmörg skýr dæmi úr nútímanum um einmitt þá niðurstöðu sem hann spáði.
Skýrasta og jafnframt mikilvægasta dæmið úr íslenskum veruleika eru deilurnar um auðlindarentu í sjávarútvegi. Þar hafa tiltölulega fáir aðilar, þ.e. kvótaþegar, mikla hagsmuni af því að viðhalda núverandi kerfi, sem felur í grundvallaratriðum í sér að ríkið afhendir þeim aðganginn að auðlindinni, þ.e. fiskveiðikvótana, ókeypis eða gegn málamyndagjaldi. Þeir geta síðan gert það sem þeir vilja við hann, nýtt hann sjálfir eða leigt eða selt öðrum.
Mun eðlilegra væri vitaskuld að ríkið myndi selja eða leigja kvótann á markaðsverði, þannig rynni auðlindarentan til alls almennings. Engin haldbær hagkvæmnirök eru fyrir því að gefa slíka kvóta. Markaðsviðskipti eftir úthlutun tryggja að þeir lenda í höndunum á þeim sem geta búið til mest verðmæti úr þeim, hvort sem kvótarnir eru gefnir eða seldir í upphafi. Veitt yrði jafnmikið eftir sem áður ef ríkið seldi kvótana á markaði og með sömu tækni. Gjaldeyristekjur af útflutningi myndu ekkert breytast. Mjög lág auðlindagjöld nú, langt undir verðmæti þess sem er afhent, breyta myndinni lítið. Eftir sem áður rennur megnið af auðlindarentunni til annarra en almennings.
Um þetta hefur verið deilt áratugum saman á Íslandi. Niðurstaðan hefur alltaf verið sú sama. Harkaleg og einbeitt hagsmunabarátta hefur tryggt kvótaþegunum sigur. Þar er öllum ráðum beitt, skipulögðum áróðri í fjölmiðlum og gegndarlausum fjáraustri til útgáfu þeirra sem best nýtast og hatrammri baráttu gegn lítt leiðitömum fjölmiðlum. Ríkulegum styrkjum er beint til stjórnmálaflokka og einstakra frambjóðenda og haldið er úti öflugu félagsstarfi með fjölda manns á launum við að breiða út boðskapinn.
Þetta er kennslubókardæmi um hagsmunabaráttu sem margborgar sig fyrir þá sem standa í henni. Kostnaðurinn er vissulega verulegur en ávinningurinn miklu meiri. Kvótar að verðmæti milljarða eru afhentir ókeypis en þjóðin fær í sárabætur fiskisúpu fyrir nokkrar milljónir einu sinni á ári og auðlindagjald sem er e.t.v. svipuð upphæð og ríkið kostar til vegna þjónustu við greinina með rekstri stofnana eins og Landhelgisgæslu og Fiskistofu og sjávarútvegsráðuneytisins.
„Deilan kristallast í átökum um auðlindaákvæði nýrrar stjórnarskrár“
Deilan kristallast í átökum um auðlindaákvæði nýrrar stjórnarskrár, þar sem annars vegar er lagt til að ríkið geti veitt leyfi til hagnýtingar náttúruauðlinda sem eru sameiginleg eign þjóðarinnar gegn fullu gjaldi og hins vegar einfaldlega óbreytt fyrirkomulag. Fullt gjald er forsenda þess að jafnræðis þegnanna sé gætt, þ.e. örfáum ekki afhent sameiginleg verðmæti að gjöf á kostnað annarra. Það þarf ekki að lesa bók Olson til að sjá að síðari niðurstaðan mun hins vegar nær örugglega verða ofan á.
Það er auðvitað barist fyrir sérhagsmunum miklu víðar en bara í sjávarútvegi. Engin leið er að taka saman tæmandi lista yfir slíka baráttu. Raunar er iðulega ekki ljóst hvað telja má sérhagsmuni. Sem dæmi má nefna baráttu verkalýðsfélags fyrir hækkun launa sinna félagsmanna. Það eru vissulega sérhagsmunir þeirra en ef mörg og stór verkalýðsfélög hafa samflot þá fer það að líkjast meir baráttu fyrir almannahagsmunum, eða a.m.k. hagsmunum mjög margra. Olson skrifar reyndar heilmikið um verkalýðsfélög en það er erfitt að heimfæra þá umfjöllun á íslenskan veruleika enda bandarísk verkalýðsfélög og samningsumhverfi þeirra mjög frábrugðið því sem hér þekkist.
Hugtakið sérhagsmunir þýðir strangt til tekið einfaldlega hagsmunir tiltekins einstaklings eða einstaklinga, þ.e. hóps. Hvenær er hópurinn nógu stór til að geta talist almenningur?
Sem dæmi má nefna að stór hluti þjóðarinnar á bíl. Er þar með sagt að það séu almannahagsmunir að gera vel við bíleigendur, t.d. með því að lækka álögur á eldsneyti? Eða jafnvel hækka hámarkshraða á vegum? Nokkuð augljóslega ekki, það kunna að vera hagsmunir tiltekins bíleiganda að hann geti keypti ódýrt eldsneyti og keyrt eins hratt og druslan dregur, á Laugaveginum sem annars staðar. Lagt þar sem honum sýnist. Það eru hins vegar ekki hagsmunir allra, þótt ekki væri nema vegna mengunar og slysahættu sem leiðir af því að keyra hratt og nota mikið bensín.
Svo eru bíleigendur auðvitað ekki einsleitur hópur. Sumir bíleigendur á Seltjarnarnesi telja það til dæmis freklega skerðingu á frelsi sínu að rekast á hraðahindranir eða takmarkanir á hámarkshraða á götum í Vesturbænum. Þeir vilja hraðbrautir í gegnum Vesturbæinn svo þeir geti keyrt greitt út úr sínu rólega sveitarfélagi á sínum stóru og fínu bílum þangað sem leið þeirra liggur. Enga bévítans borgarlínu kyrja þeir á Rauða ljóninu og bæta við einkabílar eru okkar almenningssamgöngur. Nágrannar þeirra í Vesturbænum eiga flestir líka bíla en vilja hraðaksturinn ekki. Þeir vilja líka búa í friðsælu hverfi, með sem minnstri mengun og slysahættu. Hér rekast á sérhagsmunir tveggja hópa, ökuníðinga af Seltjarnarnesi (tek fram vegna gagnsæis að ég bý þar) og hins viðkvæma Vesturbæjaraðals (tek af sömu ástæðu fram að ég er fæddur og uppalinn þeim megin). Þegar tveir einbeittir og þverir sérhagsmunahópar takast á er alls óvíst hvor hefur betur. Olson sker ekki úr um það.
Þegar rætt er um þrönga sérhagsmunagæslu sjá þó flestir frekar fyrir sér baráttu tiltölulega auðugra fyrir því að halda sínu forskoti en nágrannakrytur um samgöngumál eða kjarabaráttu launþega. Oft tekst einbeittum hagsmunahópum að sveigja regluverk og eftirlit með því mjög að sínum þörfum. Það er kallað reglunám (e. regulatory capture) og um það hafa hagfræðingar og fleiri skrifað marga hillumetra.
Gjafakvótakerfið er sem fyrr segir skólabókardæmi um þetta en fleira má nefna. Slíkt reglunám var ein forsenda óhamins vaxtar íslenska fjármálakerfisins á fyrstu árum aldarinnar. Nýeinkavædd fjármálafyrirtækin og eigendur þeirra ruddu öllum hindrunum á braut með einum eða öðrum hætti. Slagkrafturinn var gríðarlegur og fjárhagslegir hagmunir miklir. Ísland átti að verða alþjóðleg fjármálamiðstöð. Ríkasta land í heimi!
Töluvert minna fjármagn er bakvið baráttu bænda fyrir sínum sérhagsmunum. A.m.k. eru bændur almennt hvorki hátekjufólk né auðmenn. Þeirra barátta hefur engu að síður verið afskaplega árangursrík, a.m.k. í þeim skilningi að þeir hafa náð að tryggja sér verulega styrki af almannafé og háa tolla og aðrar aðgangshindranir sem vernda innlenda framleiðslu fyrir samkeppni við innflutning. Þeir hafa m.a.s. náð fram alls konar undanþágum eða sérreglum um samkeppni innanlands. Þannig er verð á mörgum landbúnaðarafurðum ekki ákveðið á markaði heldur af dularfullum nefndum sem heita eftir fjölda nefndarmanna. Samkeppnislögin eru tekin úr sambandi þegar það þykir hægt. Lögin ítrekað brotin ef þess gerist þörf án nokkurrar iðrunar. Útkoman er eins og við er að búast, himinhátt verð, há ríkisútgjöld og einsleitar afurðir.
Fjölmargir aðrir hópar eða jafnvel einstök fyrirtæki hafa fundið sér sína kjötkatla og verjast með kjafti og klóm ásælni annarra. Sem dæmi má nefna úthlutun léna með .is endingu. Þar eru lénsherrarnir bara eitt fyrirtæki, ólíkt því sem almennt tíðkast í öðrum löndum, og verðskráin endurspeglar það. Mörgum slíkum matarholum var lokað með EES-samningnum, þegar svokölluðum einkaumboðum var rutt burt, en nokkrar lifa.
Eitt er að verja einkasölu af hörku, annað að koma svipaðri verðlagningu á bak við tjöldin með samráði eða öðrum samkeppnislagabrotum. Það er skýrt dæmi um sérhagsmunagæslu á kostnað almannahagsmuna. Oft tekst ágætlega til. Sem dæmi má nefna olíusamráðsmálið svokallaða. Þar var verði á eldsneyti haldið háu árum saman til hagsbóta fyrir gömlu olíufélögin þrjú, með skýrum og óskammfeilnum lögbrotum. Hafi einhver ekki áttað sig á því að samráð var ólögmætt með nýrri samkeppnislöggjöf, sem innleidd var samhliða inngöngu Íslands í EES, þá hefði olíumálið átt að slá því föstu. Það hefur hins vegar ekki komið í veg fyrir mýmörg samráðsbrot sem upp hefur komist um síðan og því miður að öllum líkindum fjölmörg sem ekki hefur komist upp um.
Olson ræðir einmitt samráð fyrirtækja sem gott dæmi um hagsmunabaráttu þeirra eða eigenda þeirra. Á markaði með fjölmörgum fyrirtækjum er erfitt að koma slíku samráði á. Það er laumufarþegavandinn aftur. Þegar fyrirtækin eru fá eru hvatar hvers og eins til að taka þátt miklu sterkari. Vegna þess er samkeppniseftirlit mikilvægara hérlendis en almennt í stærri löndum og er það þó líka mikilvægt þar. Á Íslandi eru fyrirtækin í flestum geirum fá og stjórnendurnir þekkjast yfirleitt vel, tengjast jafnvel með margvíslegum hætti. Það magnar upp hættuna á samráðsbrotum.
Það skýrir líka hvers vegna stjórnendum margra öflugra fyrirtækja og samtaka þeirra er svo í nöp við Samkeppniseftirlitið, úthúða því við hvert tækifæri og reyna hvað þeir geta til að grafa undan eftirlitinu. Jafnframt er stöðug viðleitni til að fá samkeppnislöggjöfinni breytt til að minnka slagkraft samkeppniseftirlits. Það er skýrt dæmi um sérhagsmunagæslu.
Slagkrafturinn er mikill þeim megin enda mikið fé undir hjá fáum aðilum. Þeir sem tala fyrir hagsmunum neytenda þurfa hins vegar yfirleitt að safna fé frá fjölmörgum sem getur verið þrautin þyngri. Það er t.d. umhugsunarvert að bera saman veltu (rúmar 80 milljónir á ári) og starfsmannafjölda (sex) Neytendasamtakanna annars vegar og þeirra stórfyrirtækja sem þau glíma iðulega við hins vegar. Geta samtaka neytenda til að hafa áhrif á þróun löggjafar virðist líka sáralítil í samanburði við samtök atvinnurekenda sem eru miklu fjársterkari. Viðskiptaráð stærði sig einu sinni (í miðri fjármálabólunni) af því að Alþingi færi eftir 90% tillagna þeirra! Þó eru hagsmunir neytenda af því hvernig til tekst í efnahagslífinu afar miklir, raunar meiri en fyrirtækjanna. Þeir hagsmunir dreifast bara svo víða og flestir vilja að aðrir standi í baráttunni. Laumufarþegar! Þess vegna eru neytendur almennt frekar veikur þrýstihópur þótt þeir hafi flestir atkvæðisrétt. Neytendamál kveikja bara ekki nógu mikið í þeim þegar þeir eru komnir í kjörklefann.
Skammlíf gremja neytenda yfir nýjasta hneykslinu breytir stundum einhverju til skamms tíma en svo fer athyglin annað. Þeir sem hafa ríka sérhagsmuni gleyma þeim hins vegar ekki auðveldlega. Það sagði Olson okkur.
Stundum þarf ekki mikla hagsmuni til að fá fólk í hatramma baráttu, jafnvel áratugum saman. Henry Kissinger, fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna, áttaði sig á þessu. Hann þekkti vel harðar deilur um mikla hagsmuni, enda var hann í innsta hring í miðju kalda stríðinu. Hann þekkti líka deilur innan háskóla enda byrjaði hann starfsferilinn sem háskólakennari. Hann sagði hörkuna í deilum háskólamanna skýrast af því hve lítið væri í húfi. Sérhagsmunagæsla er auðvitað heldur ekki bundin við einkageirann. Opinberir starfsmenn verja líka sitt af fimi þegar þeim þykir ástæða til.
Fólk berst líka oft af hörku fyrir einhverju sem geta varla talist hagsmunir þeirra. Sumir elska lúpínu. Aðrir hata hana. Eins með aspir, ketti, bingó á föstudaginn langa og svo mætti lengi telja. Sjálfum finnast mér dagaónefnin þriðjudagur, miðvikudagur og fimmtudagur ótæk. Þau eru ekki bara flatneskja heldur líka röng. Þriðjudagur er t.d. annar dagur vikunnar og fimmtudagur sá fjórði og því í miðju vikunnar. Ég hef engra hagsmuna að gæta en sterka skoðun á þessu. Vil taka aftur upp hin fornu dagaheiti. Það eru hins vegar takmörk fyrir því hve marga slagi er skynsamlegt að taka í einu.
Athugasemdir