Geldingagígur ekki lengur ræfill og kominn með félaga
Geldingagígur Eftir allt saman hefur gosið í Geldingadal verið gjöfulla og frjósamara en margir vísindamenn bjuggust við í upphafi, þegar það var kallað „ræfill“. Mynd: Jón Trausti Reynisson
Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 3 árum.

Geldingagígur ekki lengur ræfill og kominn með félaga

Gos­ið í Geld­inga­döl­um gæti ver­ið kom­ið til að vera til lengri tíma. Efna­sam­setn­ing bend­ir til þess að það komi úr möttli jarð­ar og lík­ist frem­ur dyngjugosi held­ur en öðr­um eld­gos­um á sögu­leg­um tíma.

Gígurinn í Geldingadölum við Fagradalsfjall hélt áfram að taka á sig mynd í dag. Þegar Stundin flaug yfir gossvæðið var enn fjöldi fólks á staðnum þótt rýma ætti vegna ótta við gasmengun.

Svo virðist sem gosið hafi verið vanmetið í upphafi.

Stundin flaug með Páli Stefánssyni ljósmyndara og Sölva Axelssyni flugmanni yfir gossvæðið skömmu áður en rýma átti svæðið vegna þess sem talið var að yrði lífshættulegr gasmengun. Þá voru enn hundruð manna við hraunjaðarinn. Þegar mest lét teygði bílaröðin á Suðurstrandarvegi sig um tvo kílómetra.

FjölmenniÁ milli klukkan sex og sjö í kvöld var fjöldi fólks viðstaddur steinsnar frá hraunjaðrinum.

„Ræfill“ rís

Sýn í gígKvikan mallar innan vel mótaðra gígbarmanna.

Þegar gosið hófst síðasta föstudagskvöld sagði Magnús Tumi Guðmundsson jarðfræðingur að það væri „óttalegur ræfill“ og Páll Einarsson jarðfræðingur taldi það ræfilslegt. Þótt það hafi látið lítið yfir sér fara í upphafi og verið spáð lítilli reisn og úthaldi er gígurinn nú orðinn tugir metrar að hæð og er komin upp umræða meðal jarðvísindamanna um að hugsanlega sé um afar sérstakt gos sé að ræða.

Það hefur ekki gosið á Fagradalssvæðinu í sex þúsund ár og samkvæmt Magnúsi Tuma Guðmundssyni jarðfræðingi hefur ekki gosið með svo frumstæðri kviku í sjö þúsund ár. Hún er talin eiga rót sína að rekja á 15 til 17 kílómetra dýpi, úr möttli jarðar, og er nú talið hugsanlegt að um langvarandi flæðigos geti verið að ræða, svokallað dyngjugos.

Í Kastljósinu á Rúv í kvöld ræddu Sæmundur Ari Halldórsson jarðfræðingur og Páll Einarsson um að efnasamsetning kvikunnar sem streymir upp í Geldingadölum líkist mun meira því sem gerist í stórum dyngjugosum en gosum á sögulegum tíma. Sæmundur sagði að „sláandi skyldleiki“ með stórum dyngjugosum, til dæmis Þráinsskildi sem teygir sig skammt frá Keili að Vogum á Vatnsleysuströnd, og Sandfellshæð vestast á Reykjanesi, sem runnu skömmu eftir ísöld, eða á nútíma. Einnig eru þó dæmi um smærri hraun með þennan skyldleika.

Þorvaldur Þórðarson jarðfræðingur segir í samtali við mbl.is í kvöld að líkindi séu með Geldingagosinu og eldgosi á Havaí, sem varði í 32 ár.

TvígígarTveir gígar sjást hér hlið við hlið.
Úr fjarlægðHér sést virknin í aukagígnum vel.

Geldingsbróðir myndast

Í dag urðu viðstaddir þess áskynja að kraftur færðist í annan gíg, skammt frá aðalgígnum. Ásýnd gíganna er hverful og ljóst að ef gosið heldur áfram mun núverandi mynd breytast. Ef um dyngjugos er að ræða myndast að líkindum víðfeðmt hraun með minna en 8 gráðu halla. Talið er að eina til tvær vikur taki að fylla dalinn af hrauni.

Seinast gaus á Reykjanesskaga fyrir um 780 árum og hafa gos komið í löngum hrinum. Eftir að hafa greint efnasamsetningu hraunsins eru jarðvísindamenn að endurmeta upphaflegt mat sitt á því að um smágos sé að ræða. „Þetta gæti orðið langt gos,“ sagði Freysteinn Sigmundsson jarðfræðingur í fréttum Rúv í kvöld.

Mikil flugumferð hefur verið um svæðið og bíða flugvélar í röðum eftir leyfi til að svífa yfir gossvæðinu.

Göngufólk ferGöngustígur hefur myndast og er um 7 kílómetra leið fram og til baka frá Suðurstrandarvegi.
FlugumferðinHér sést TF-DÍS svífa yfir gossvæðinu og sunnar sést þyrla.
Skammt frá höfuðborginniÁ myndinni sést gossvæðið með Keili í baksýn. Efst til vinstri sést álverið í Straumsvík. Gönguleiðin að eldstöðinni er til hægri og neðan við gíginn er hryggur þar sem björgunarsveitir lokuðu fyrir ferðum almennings, enda hafði fólk hætt sér að sprungum sem eru sýnilegar í jörðinni og rýkur upp úr.
Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Eldgos við Fagradalsfjall

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár