Kostnaður íslenska ríkisins vegna skipunar dómara við Landsrétt nemur 141 milljón króna. Vegur þar þyngst kostnaður vegna settra dómara í fjarveru fjögurra dómara í leyfi frá Landsrétti en kostnaður vegna þess nam í árslok 2020 rúmum 73 milljónum króna. Sérfræðiráðgjöf til dómsmálaráðuneytisins í aðdraganda og kjölfar niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu og yfirdeildar dómsins nema 36 milljónum króna.
Þetta kemur fram í svari Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra við fyrirspurn Helgu Völu Helgadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar. Sem kunnugt er lagði Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, fram tillögur um skipan fimmtán dómara við réttinn árið 2017 en vék frá niðurstöðu nefndar um hæfi dómararefnanna. Alþingi samþykkti tillögu Sigríðar 1. júní 2017 með atkvæðum þáverandi meirihluta flokka, Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.
Tveir umsækjendanna fjögurra sem verið höfðu í fimmtán manna hópnum sem nefndin hafði talið hæfasta en Sigríður hafði skipt út stefndu síðan íslenska ríkinu, þeir Ástráður Haraldsson og Jóhannes Rúnar Jóhannsson. Ríkið var sýknað af kröfu þeirra um skaðabótaskyldu í Hæstarétti en þeim voru hins vegar dæmdar bætur vegna ólögmætrar málsmeðferðar. Hinir umsækjendurnir tveir, Jón Höskuldsson og Eiríkur Jónsson stefndu ríkinu einnig og var íslenska ríkið dæmt skaðabótaskylt í málum þeirra.
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður fór fram á það að Arnfríður Einarsdóttir, ein dómaranna fjögurra sem Sigríður hafði bætt inn á fimmtán manna listann, viki sæti í dómsmáli á hendur skjólstæðingi hans, Guðmundar Andra Ástráðssonar, vegna vanhæfis. Þegar ekki var fallist á það skaut Vilhjálmur málinu til Mannréttindadómstóls Evrópu sem kvað upp þann úrskurð í mars árið 2019 að skipun dómara í Landsrétt væri andstæð mannréttindasáttmála Evrópu. Yfirdeild dómsins staðfesti þá niðurstöðu í desember síðastliðnum. Eftir dóm Mannréttindadómstólsins sinntu dómararinir fjórir sem Sigríður bætti inn á listann yfir dómaraefnin að sinna ekki dómstörfum og fóru í leyfi, á launum.
Enn gæti bæst við kostnaður
Í svörum dómsmálaráðherra við fyrirspurn Helgu Völu kemur fram að dæmdur málskostnaður vegna kærumála sem tapast hafa fyrir íslenskum dómstólum, það er í málum Ástráðar, Jóhannesar Rúnars, Jóns og Eiríks nemi 10,6 milljónum króna. Þá er dæmdur málskostnaður vegna dóms Mannréttindadómstólsins 20 þúsund evrur sem eru um 3,1 milljón króna á gengi dagsins í dag.
Þá voru dæmdar miska- og skaðabætur til umsækjenda um dómarastörfin samtals rétt tæpar 11 milljónir króna. Hæsta upphæðin eru skaðabætur til handa Jóni Höskuldssyni, 8,5 miljónir og miskabætur honum til handa upp á eina milljón og eru þá ótaldir vextir og dráttarvextir. Þá viðurkenndi Hæstiréttur skaðabótaskyldu í máli Eiríks Jónssonar en enn á eftir að ákvarða hverjar þær kunna að verða. Þá var jafnframt gerð sátt við Eirík um greiðslu miskabóta upp á 700 þúsund krónur.
Sem fyrr segir vega greiðslur vegna settra dómara við Landsrétt þyngst, sem og sérfræðiráðgjöf vegna málarekstursins fyrir Mannréttindadómstólnum. Ofan á það bætist við þýðingakostnaður, bæði vegna málaresktursins og vegna dómsins, alls 6,4 milljónir króna. Þá segir í svari dómsmálaráðherra að ótalinn sé kostnaður vegna dómnefndar um hæfni umsækjenda um embætti dómara, kostnaður vegna auglýsinga og annar tilfallandi kostnaður.
Athugasemdir