Þekktar þverstæður í ákvarðana- og kosningafræðum leiða í ljós að það hvernig kostum er stillt upp í vali getur haft afdrifarík áhrif á niðurstöðuna og jafnvel haft í för með sér að kostur sem minnihluti kjósenda styður fari með sigur af hólmi. Sumum þessara þverstæðna er hægt að granda með hugvitssamlegu kosningafyrirkomulagi – t.d. raðvali eða sjóðvali sem Björn Stefánsson talaði um fyrir daufum eyrum áratugum saman á Íslandi – en almenningur virðist mjög íhaldssamur á kosningafyrirkomulag og kýs einfaldleika fram yfir nákvæma samsvörun við eigin vilja.
Þjóðaratkvæðagreiðslan um brottför Bretlands úr Evrópusambandinu (Brexit) árið 2016 er gott dæmi um þverstæðukennda niðurstöðu í kosningum. Aðeins voru tveir kostir í boði á kjörseðlinum – fara eða vera – en „fara“-kosturinn sameinaði ósamrýmanlegar skoðanir þeirra sem vildu áfram sterk tengsl við Evrópusambandið og aðild að innri markaði þess, með einhvers konar EES-fyrirkomulagi, og hinna sem vildu harðan aðskilnað. Af þeim tæplega 52% kjósenda sem völdu Brexit var a.m.k. helmingur fylgjandi áframhaldandi tengslum með norsk-íslensku aðferðinni. Aðeins um fjórðungur kjósenda vildi „hart Brexit“ – sem er þó sá kostur sem verður að veruleika í janúar 2021 í kjölfar samningsins sem Boris Johnson hefur nú undirritað. Það sem meira er: Þessi hlutföll hafa lítið breyst frá 2016. Með öðrum orðum: Mikill minnihluti breskra kjósenda í lok árs 2020 er sáttur við eðli samningsins sem nú hefur verið gerður. Á sama tíma sýna viðbrögð á samfélags- og ljósvakamiðlum umtalsverðan létti við að þessu máli hefur loks verið „landað“, eins og fjölmiðlar orða það. Hér er enn ein þverstæðan á ferð, en hún er fremur sálræn en rökleg. Óbærileg þreyta á Brexit-orðræðunni skapar léttleika í sálarfylgsnum, þegar loks sér fyrir endann á henni, þó að niðurstaðan sé á margan hátt óbærileg út frá röklegu sjónarmiði. Það virðist t.d. þverstæðukennt að nokkur þjóð kjósi yfir sig allt að 5% lækkun þjóðartekna af hugsjónaástæðum einvörðungu. En hvílíkur léttir að götublöðin geti nú loks snúið sér á ný að framhjáhaldi fótboltamanna fremur en nýjustu fréttum af næturfundum í Brussel!
„Hvílíkur léttir að götublöðin geti nú loks snúið sér á ný að framhjáhaldi fótboltamanna“
Áróðurs- og spunameistarar geta margt lært af hugmyndabaráttunni fyrir og eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna 2016. Brexit-andstæðingar gerðu sig seka um endurtekin taktísk mistök sem í baksýn virðast hrapalleg. Í fyrsta lagi háðu þeir kosningabaráttuna að langmestu leyti á grundvelli efnahagsraka og hræðsluáróðurs um þau („Project Fear“), eins og ef til vill hefði hrokkið til á ofanverðri 20. öld. En á sama tíma daufheyrðust þeir við hugmyndastraumum sem hafa fjölgað víddum í stjórnmálabaráttunni úr einum eða tveimur í a.m.k. fimm, eins og ég skýrði í eldri Stundar-grein (5. sept., 2020), en einn af þeim er m.a. togstreita alþjóða- og þjóðernishyggju. Þeir vanmátu einnig framlag stórra hópa meðal breskra kjósenda sem Brexit-sinnar ræktuðu tengslin við, s.s. innflytjendur af suður-asískum uppruna er talin var trú um að rýmkað yrði fyrir frekari fólksflutninga frá þeirra heimshluta eftir Brexit, þar sem allar umsóknir útlendinga yrðu metnar á jafnréttisgrundvelli. Ég skrifaði Stundar-pistil (29. júní, 2016) m.a. um þessi vanmetnu „Tandoori-áhrif“ á atkvæðagreiðsluna.
Ekki bætti svo úr skák að eftir tapið tóku andstæðingarnir einnig rangan pól í hæðina. Í stað þess að einbeita sér að því að styðja við EES-leiðina, og þar með mjúkt Brexit, gengu þeir lengi vel fram í þeirri dul að hægt væri að afturkalla þjóðaratkvæðagreiðsluna, þegar ljóst var að útgöngusamningur var ekki „tilbúinn í bakaraofninn“ eins og Boris hafði lofað, t.d. með annarri þjóðaratkvæðagreiðslu í ljósi breyttra aðstæðna. En þjóðaratkvæðagreiðsla um þjóðaratkvæðagreiðslu skapar hættu á endalausri vítarunu kosninga; og öll rökfærslan lyktaði af tapsárindum sem stangast á við inngróinn íþróttaanda Breta. Mjúkt Brexit hefði tryggt Bretum ýmiss konar réttindi, hverra brotthvarf mun koma við kaunin á þeim á næstu mánuðum og árum, ekki síður en fjárhagstjónið: Útilokun frá vísindasamstarfi í Evrópu, Erasmus-stúdentaskiptum, rétti eftirlaunaþega til að eyða vetrarmánuðunum (umfram 90 daga á ári) í suður-evrópsku sólskini, o.s.frv. En það þýðir ekki að gráta Björn bónda; Boris hefur komið honum fyrir kattarnef og nú er eini kosturinn sá að laga sig að nýjum aðstæðum.
Þó að meirihluti Breta sé ósáttur, í grundvallaratriðum, við lokaniðurstöðu Brexit er samt mikill léttleiki ríkjandi hér í landi með að þessu máli skuli nú lokið. Bólu-Hjálmar orti um að tekinn væri „ljótur leppur og löðrinu þurrkað öllu í hann“. Of miklu pólitísku löðri hefur verið þurrkað á undanförnum árum í þennan eina ljóta lepp, Brexit, og önnur ágreiningsefni hafa orðið útundan. Félagslegur hreyfanleiki hefur t.d. minnkað á undanförnum árum í Bretlandi fremur en hitt – og mátti þjóðin þó alls ekki við slíku – fyrir utan hvernig þrengst hefur að millistéttinni úr báðum áttum. Covid-fárið hefur farið verr með Breta en flestar aðrar þjóðir; og svo er stór hætta á að fyrst Skotar og svo Norður-Írar vilji rjúfa tengslin við England. Það eru ótal stór málefni í deiglunni hér sem knýja á um frekari orðræðu þegar Brexit-leppurinn er horfinn.
Það má heita aðdáunarvert jafnaðargeð hve vel hörðustu Brexit-andstæðingar hafa tekið lokatapinu sem innsiglað var með nýgerðum útgöngusamningi, svo að ekki sé minnst á þann helming Brexit-sinna sem vildi áframhaldandi aðild að innri markaði Evrópusambandsins. Ég skýrði þetta jafnaðargerð að ofan með léttleika yfir því að óbærilega leiðinlegu umræðuefni hafi loks verið komið í einhverja höfn fremur en enga. En það eru fleiri ástæður sem vert er að nefna. Samningsfólk Evrópusambandsins sýndi umtalsverða þvermóðsku í samningaviðræðunum og skort á vilja til að skilja aðrar víddir umræðunnar en hina efnahagslegu. Þvermóðska andstæðings þéttir oft fylkingu mótherjanna þó að hún hafi áður verið klofin.
„Þekkt kaldhæðni Breta nær til alls nema eigin sögu“
Svo má ekki gleyma fílnum í herberginu. Það þarf ekki nema nokkurra mánaða dvöl á meginlandi Evrópu annars vegar og í Bretlandi hins vegar til að átta sig á hve hinn menningarlegi staðblær er ólíkur. Ég nefni aðeins tvennt hér. Í fyrsta lagi er sýn Breta á eigin sögu og menningu miklu jákvæðari en sýn meginlandsbúa, ekki síst Þjóðverja. Í þýsku er langt og mikið hugtak, Vergangenheitsbewältigung, notað um uppgjörið við fortíðina. Bretar eiga ekkert sambærilegt hugtak í máli sínu; og það segir sína sögu. Þeir hafa aldrei gert upp fortíðina, síst af öllu heimsveldistímann og þrælaverslunina, og sambandið við liðnar aldir einkennist af rómantískri þátíðarþrá. Það er því jafnfráleit hugsun fyrir Breta og hún er sjálfsögð fyrir Þjóðverja að aðild að stærri heild geti greitt fyrir fortíðaruppgjöri og komið í veg fyrir endurtekningu sögulegra mistaka. Þekkt kaldhæðni Breta nær til alls nema eigin sögu. Í öðru lagi er skilningur Breta og meginlandsbúa á félagslegu frelsi talsvert ólíkur. Bretar styðjast að mestu við það sem Isaiah Berlin kallaði „neikvætt frelsishugtak“ þar sem frelsi er skilið sem lausn undan beinum hömlum og það er talinn kostur út af fyrir sig að geta verið öðruvísi en hinir (sbr Frelsið eftir John Stuart Mill). Meginlandshefðin er hins vegar meira í anda „jákvæðs frelsishugtaks“ (sbr. Rousseau eða Hegel) þar sem samheldni, samvinna og samræming eru taldar birtingarmyndir frelsis fremur en hömlur á frelsi.
Þessi einföldu sannindi um ólíkan staðblæ og hugsunarhátt minna okkur á að jafnvel þótt meirihluti Breta sé, í orði, ósammála hinum harða skilnaði við Evrópusambandið sem Boris Johnson hefur nú knúið í gegn þá einkenndist vera Breta í sambandinu aldrei af ástum samlyndra hjóna. Evrópa er, fyrir Breta, hinum megin við Ermarsundið, og Brexit er því í einhverjum skilningi lítið annað en „de jure“ staðfesting á „de facto“ veruleika.
Athugasemdir