Einu sinni var ekkert til. Ekki jörðin, ekki Mosfellsbær og ekki ég. Það var bara til myrkur og hnettir sem þutu um geiminn. Þetta hefur varla verið skemmtilegur heimur. Eins gott að ég birtist ekki fyrr en búið var að finna upp jörðina og Mosfellsbæinn. Og auðvitað afmælisdaga.
Bókin Iðunn og afi pönk eftir Gerði Kristnýju hefst á þessum hugleiðingum Iðunnar, aðalpersónu bókarinnar, daginn sem hún verður ellefu ára. Mamma hennar og pabbi eru á leiðinni í gönguferð úti á landi og afi hennar ætlar að gæta Iðunnar á meðan.
„Ég hlakka svo til að hitta afa,“ sagði ég.
„Ég get trúað því,“ sagði mamma.
„Hann ætlar að koma í fyrramálið með afmælisgjöf handa þér.“
Í fyrra gaf afi mér veiðiferð í afmælisgjöf. Þótt við veiddum ekkert var þetta frábær dagur því þar sem við dóluðum á bát og biðum eftir að fiskur biti á kenndi afi mér að blístra. …
Athugasemdir