Sá fjöldi skammta af bóluefni við Covid-19 frá Pfizer og Moderna lyfjafyrirtækjunum, sem lengst eru komin í ferlinu, sem Ísland hefur tryggt sér mun ekki duga til að bólusetja nema hluta þjóðarinnar. Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnarlæknis á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í dag.
Þórólfur greindi frá því að Ísland myndi fá 180.000 skammta af bóluefninu, sem mögulegt væri að kæmi allt í einni sendingu þegar af yrði. Það dygði hins vegar ekki til og því yrði að vonast til að samningaviðræður ESB við fyrirtækin um fleiri skammta myndu skila árangri. Annars verði að vonast til að bóluefni frá AstaZeneca myndu koma á markað, en þar er um að ræða verulega mikið meira magn sem Ísland fengi, eða að önnur bóluefni myndu fá markaðleyfi sem við gætum þá fengið.
Þórólfur dró þá talsvert úr bjartsýnisröddum þess efnis að bólusetning geti hafist hér á landi fljótlega eftir áramót. Fólk þyrfti að hafa raunhæfar væntingar í þeim efnum. Lyfjastofnun Evrópu ætti enn eftir að klára mat sitt á bóluefni Pfizer fyrirtækisins og óljóst hvenær það myndi gerast. Þá megi ekki horfa fram hjá því að mánuður líði þar til bólefni fari að skila virkni. Því sé afar mikilvægt að fólk gæti enn og nú að persónubundnum sóttvörnum sínum, og fram til þess tíma að bólusetning hafi skilað hjarðónæmi hjá þjóðinni.
Lesa má helstu atriði sem komu fram á upplýsingafundinum hér að neðan eða horfa á hann í spilaranum efst í fréttinni.
Athugasemdir