Fílhraustir sjóarar halda til hafs að veiða fisk úr sjó. Nokkrar taugabilaðar kerlingar standa kveinandi á bryggjunni með sóttvarnarlækni í broddi fylkingar og vilja hefta för þeirra af því þeir séu með kórónuveiru og eigi að vera í rúminu. Einhvern veginn þannig sér þingmaður Sjálfstæðisflokksins fyrir sér atburðarásina í kringum veikindi skipverja á Júlíusi Geirmundssyni, þar sem sóttvarnartilmæli voru hundsuð en skipverjar sjálfir og verkalýðsfélagið sögðu að þeir hefðu verið látnir vinna, alvarlega veikir með mikinn hita og öndunarörðugleika.
Það er merkilegt að hann skuli taka þetta dæmi í grein sem fjallar um gagnrýni á sóttvarnaraðgerðir en mannréttindi útgerðarinnar virðast einhvern veginn alltaf vera liðsmönnum þessa flokks efst í huga, hvort sem um er að ræða sóttvarnir eða breytingar á stjórnarskrá en hvort tveggja var til umræðu í Kastljósinu í vikunni. Þar birtist formaður Sjálfstæðisflokksins okkur sem pirraður maður.
Hann er þreyttur á COVID (eins og við öll) og þreyttur á stjórnarskrármálinu (eins og við öll). Hann nennir ekki að þykjast vera að breyta stjórnarskránni og hann hefur djúpan skilning á því að hans eigin stjórnarþingmenn nenni ekki lengur að stunda sóttvarnir.
Allt þetta er ósköp skiljanlegt.
Okkur finnst öllum íþyngjandi að vera með grímu fyrir andlitinu, komast ekki í sund og klippingu, fara ekki í frí til útlanda eða að skjóta rjúpur.
Og auðvitað er líka leiðinlegt að ríkisstjórnin sé að verja tíma og fjármunum í að þykjast breyta stjórnarskránni þegar hún er í raun staðráðin í að breyta engu sem máli skiptir. Hvað sem okkur finnst um stjórnarskrána eru viðbrögðin hvorki hressileg, frumleg eða lýðræðisleg.
Þau eru eins og að ganga um í Kringlunni á COVID-19 tímum með götótta grímu og úða vatni á úthnerraðar hendurnar úr brúsa sem stendur á spritt. Af hverju að þykjast?
„Viðbrögð formannsins eru líka staðfesting á því sem við vitum að samstaðan er íþyngjandi“
Forysta ríkisstjórnarinnar hefur borið gæfu til að bregðast skynsamlega við veirunni, fylgja í mestu sóttvarnarráðleggingum og reyna að mæta tekjumissi fólks og fyrirtækja vegna aðgerðanna með því að beita rikissjóði fyrir sig. Fyrri hluti viðtalsins í Kastljósinu var því helgaður skynseminni og hinum viðfelldna Bjarna. En af því Sjálfstæðisflokkurinn er marghöfða þurs þurfti formaðurinn að stökkva í fleiri hlutverk og þegar þáttur Sigríðar Andersen og Brynjars Níelssonar kom upp í viðtalinu sagðist formaðurinn vera mjög ánægður með þeirra raddir en þau eru alveg að missa þolinmæðina og ætla ekki að vera meðvirk með sóttvarnaraðgerðum lengur, hræðsluáróðri og opinberri smánun á þeim sem ekki framfylgja þeim.
Viðbrögð formannsins eru líka staðfesting á því sem við vitum að samstaðan er íþyngjandi, það er betra að aka bara um á hraða sem manni sjálfum finnst þægilegur, með tónlistina í botni og keyra niður allt sem fyrir manni verður frekar en að hægja á ferðinni, samkennd er líka óþarfa skraut, það er ekki verri tími en hver annar, til að gagnrýna sóttvarnir þegar gamalt fólk er að deyja í hrönnum inni á sjúkrastofnun þar sem ekki voru gerðar ráðstafanir í samræmi við ráðleggingar um sótthólf.
Það er samt erfitt að hafa samúð með slíkri gagnrýni eða finnast hún uppbyggileg þótt við séum öll pirruð á því ástandi sem veiran hefur skapað.
Þeir sem fylgja ekki sóttvörnum eru ekki bara að setja sjálfa sig í smithættu heldur líka aðra. Þeir eru að taka sér frelsi til að smita aðra, til að þurfa ekki að fórna forréttindum sínum meðan á baráttunni við veiruna stendur.
Og það er vissulega mikilvægt að tapa ekki sjónum á mannréttindum og persónufrelsi en þarf virkilega að byrja á frelsinu til að vaða yfir aðra?
Formaðurinn staðfesti líka í viðtalinu að ekkert sameiginlegt frumvarp um breytingar á stjórnarskrá er væntanlegt enda enginn einhugur um málið meðal þingmanna. Og hann sagðist hafa „eytt“ miklum tíma í þetta mál eða „varið“ eins og hann leiðrétti sig síðan með.
Samt er málamiðlunarfrumvarp forsætisráðherra algerlega útvötnuð útgáfa af vilja þjóðarinnar sem birtist í tillögum að nýrri stjórnarskrá sem meirihluti þjóðarinnar samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslu að yrði lagður til grundvallar stjórnarskrárbreytingum. Götótt auðlindaákvæði í nýja frumvarpinu er samt of mikið fyrir útgerðina og þjónar hennar í ríkisstjórn og Alþingi hafa því tekið niður lýðræðisgrímuna.
Viðbrögð formannsins eru staðfesting á því sem drjúgur meirihluti Íslendinga veit. Sjálfstæðisflokkurinn berst vissulega fyrir réttindum sumra manna en sú barátta á þó ekkert skylt við mannréttindi samkvæmt þeim skilningi sem flest okkar leggja í hugtakið.
Réttindi sumra á kostnað annarra hafa ráðið nær öllu sem máli skiptir í íslensku samfélagi. Veiran kennir okkur hins vegar að til þess að lifa af þurfum við að taka ábyrgð hvert á öðru. Með því að opna samfélagið en loka af afmarkaða hópa erum við nánast að dæma þá sem eru veikastir fyrir til dauða eða dæma stóra hópa aðstandenda og umönnunarstétta til algerrar einangrunar en það getur aldrei gengið upp til lengdar. Auk þess sem heilbrigðiskerfið legðist á hliðina.
Það er sjálfsagt að ræða mannréttindi á veirutímum en ekki til þess að velta okkur upp úr því að þingmenn Sjálfstæðisflokksins megi ekki láta klippa sig eða skjóta rjúpu eða útgerðarmenn megi ekki láta fárveika sjómenn draga fisk úr sjó úti í ballarhafi. Það er í raun ömurlegt að umræðan um það sé orðin fyrirferðarmeiri en veruleiki þeirra sem hafa misst vinnuna og heilsuna.
Það er álíka fáránlegt og að mæta pirraður í sjónvarpsviðtal og kalla það tímaeyðslu ef reynt er að koma til móts við lýðræðislegan vilja mikils meirihluta þjóðarinnar til að breyta stjórnarskránni.
Gyrðið ykkur í brók!
Athugasemdir