Jóna Hlíf Halldórsdóttir, forstöðumaður Gerðarsafns í Kópavogi, sagði í gær upp starfi sínu eftir aðeins þrettán mánaða starf. Ástæðan fyrir uppsögn Jónu Hlífar er upplifun hennar á samskiptaörðugleikum við sinn nánasta yfirmann og embættismenn Kópavogsbæjar, samskiptaörðugleikum sem hún lítur á sem einelti í sinn garð.
„Yfirmaður minn, Soffía Karlsdóttir, forstöðumaður menningarmála í Kópavogi, stóð ekki með mér í deilum við rekstraraðila veitingasölu í Gerðarsafni, sem komu fram af vanvirðingu við mig og starfsfólk mitt og sýndu af sér ógnandi hegðun. Þvert á mót þá dró hún taum þess aðila. Þegar ég upplýsti um lögbrot sem verið væri að fremja við veitingasölu í Gerðarsafni, sölu á áfengi án þess að vínveitingaleyfi væri fyrir hendi, ýjaði hún að því að ég hefði brotið persónuverndarlög. Hún hefur hunsað faglegt álit mitt og sjónarmið, haldið frá mér upplýsingum og tekið ákvarðanir með geðþóttakenndum hætti og ekki í samræmi við góða stjórnsýsluhætti. Soffía hefur gert lítið úr líðan minni og aðstæðum starfsfólks Gerðarsafns og komið af stað um mig orðrómi og slúðri. Ég lít á þetta sem einelti í minn garð. Ég get ekki setið undir slíku lengur og mér blöskrar satt að segja þessi vanhæfni, sem leiðir nú til þess að ég er annar safnstjórinn á tveimur árum sem geng út úr Gerðarsafni.“ Þessum ásökunum hafnar Soffía í yfirlýsingu sem hún sendi Stundinni.
Fyrri forstöðumaður segir starfsaðstæður hafa verið óbærilegar
Þetta segir Jóna Hlíf í viðtali við Stundina. Jóna Hlíf tók við störfum sem forstöðumaður Gerðarsafns 1. ágúst 2019. Forveri Jónu Hlífar í starfi hætti skyndilega, í janúar 2019, vegna ágreinings við yfirmann sinn, Soffíu Karlsdóttur, forstöðumann menningarmála í Kópavogi.
Jóna Hlíf sótti um starfið þegar það var auglýst, og fékk. Hún segist ekki hafa vitað af því að brotthvarf forvera hennar hafi verið vegna samskiptaörðugleika. „Auðvitað er myndlistarheimurinn lítill og ég var búin að heyra að hún hefði ekki verið sátt. Ég ákvað hins vegar að vera ekkert að grafast fyrir um hvað hefði legið þar á bak við og ákvað bara að hefja störf með opnum huga.“
Kristín Dagmar Jóhannesdóttir, forveri Jónu Hlífar í starfi forstöðumanns Gerðarsafns, staðfestir í samtali við Stundina að hún hefði sagt upp starfi sínu í mars í kjölfar langvarandi samskipta- og samvinnuörðugleika og óyfirstíganlegs ágreinings við Soffíu, forstöðumann menningarmála í Kópavogi. „Við ráðningu mína árið 2014 var lagt uppi með mikla uppbyggingu Gerðarsafns. Lýsir það sér meðal annars í auknum sýnileika og aðsókn í safnið, sem fjórfaldaðist á tæplega 5 ára tímabili. Kalla slíkar breytingar á fjölda áskoranna en þótti mér sérstaklega drífandi að takast á við stofnun á slíkum umbeytingatímum. Tók ég þó þá ákvörðun að segja starfi mínu lausu þegar starfsaðstæður urðu óbærilegar vegna þess ágreinings og erfiðleika sem einkenndi starfsumverfið síðusta eitt og hálfa árið í samskiptum við þá nýráðinn forstöðumann menningarmála, Soffíu Karlsdóttur,“ segir Kristín.
Upplifði óvirðingu og ógnanir
Þegar Jóna Hlíf tók til starfa var rekstraraðili fyrir í Gerðarsafni sem sinnti veitingasölu þar, fyrirtækið Pure Deli. Á fyrstu dögum í starfi hófust samskipti Jónu Hlífar við eigendur Pure Deli. Hún lýsir því að þau samskipti hafi ekki byrjað vel. „Frá fyrsta degi sýndu þau mér óvirðingu. Samskiptin snerust um að setja þeim ákveðin mörk því þau voru búin að færa starfsemina að hluta inn í rými safnsins. Ég kom þarna inn með ákveðna listræna sýn, um hvernig ég vildi nýta rými safnsins og hvernig ég vildi byggja upp starfsemi Gerðarsafns. Við fórum mjög fljótt að deila um afnot af rými sem er kallað gangurinn. Umrætt rými, gangurinn, er mjög mikilvægur í starfsemi safnsins. Þaðan er aðgengi að listaverkageymslu safnsins, lyftu og að flóttaleið, og það hefur um margra ára skeið hýst fræðslustarfsemi. Ég vildi búa til enn betra fræðslurými sem myndi slá í gegn, þar sem fjölskyldur gætu komið saman og skapað, ég taldi það vera safninu í hag og rekstri þess.“
Jóna Hlíf lýsir því að í samtölum við starfsfólk Gerðarsafns, þegar hún var nýtekin við stöðu safnstjóra, hefði starfsfólkið lýst því að samskipti við forsvarsfólk Pure Deli hefðu ekki gengið vel fram að því. „Tveir starfsmenn lýstu meðal annars ógnandi hegðun af hálfu eiganda Pure Deli. Starfsfólk lýsti því að þeim hefði verið sýndur dónaskapur og óvirðing. Ég varð fljótt vör við samskonar hegðun á eigin skinni.“
„Í þessu samtali sýndi eigandinn mér mjög ógnandi hegðun og hótaði mér“
Erfiðleikar í samskiptum við eigendur Pure Deli undu upp á sig að sögn Jónu Hlífar og 8. nóvember 2019 varð atvik sem Jóna Hlíf lýsir sem alvarlegu. „Ég ræddi þá við eiganda Pure Deli á veitingastaðnum þar sem ég fór fram á að ekki væri kveikt á kertum á veitingastaðnum, því samkvæmt öryggisreglum safnsins er það ekki leyfilegt. Ég óskaði eftir því að þau myndu passa upp á að aðgengi væri óhindrað að lyftu og listaverkageymslu, sem ítrekað hafði verið misbrestur á. Í þessu samtali sýndi eigandinn mér mjög ógnandi hegðun og hótaði mér. Hann hótaði því að hann myndi sjá til þess að ég fengi ekki mínu fram, hann væri með Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóra með sér í liði og hann væri líka með Soffíu með sér í liði. Þetta gerðist fyrir framan hóp af leikskólabörnum og starfsfólki leikskólans sem var brugðið fyrir vikið, enda hækkaði maðurinn röddina mjög mikið. Ég upplifði þetta sem algjört virðingarleysi og andlegt ofbeldi af hans hálfu.“
Tveir starfsmenn Gerðarsafns staðfesta upplifun Jónu Hlífar af samskiptunum. Þeir lýsa því að eigandi Pure Deli hafi talað háum rómi og sýnt bæði Jónu Hlíf og öðrum viðstöddum virðingarleysi og hefði þetta skapað mjög óþægilegt andrúmsloft, svo mjög að börnum og leikskólakennurum hefði augljóslega verið mjög brugðið og hefðu viljað komast út úr aðstæðunum.
Sat undir ásökunum
Eftir þetta atvik hafði Jóna Hlíf samband símleiðis við Soffíu Karlsdóttur, yfirmann sinn, og lýsti sinni upplifun. „Hennar viðbrögð voru fyrir mína parta vonbrigði, mér fannst hún ekki styðja við mig og ekki taka málið alvarlega. Ég heyrði síðan í henni aftur og þá fannst mér hún bara gera lítið úr upplifun minni.“
„Mér blöskraði að á þessum fundi var ég ekki beðin afsökunar“
Jóna Hlíf skrifaði eftir þetta yfirlýsingu sem hún sendi yfirmanni sínum, Soffíu, ásamt yfirlýsingum starfsmannanna tveggja sem nefndir eru hér að framan. Því hafi Soffíu, að mati Jónu Hlífar, vel átt að vera ljóst hver staða mála væri. Á fundi Jónu Hlífar með rekstraaðilunum og Soffíu skömmu síðar hafi verið reynt að leysa ýmis ágreiningsmál. „Mér blöskraði að á þessum fundi var ég ekki beðin afsökunar. Ég bjóst við því að forstöðumaður menningarmála í Kópavogi, minn yfirmaður, myndi standa með mér og óska eftir því en það gerði hún ekki.“
Í nóvember á síðasta ári kynnti Jóna Hlíf sýn sína á starfsemi Gerðarsafns fyrir lista- og menningarráði Kópavogs, og þar á meðal hvernig hún hyggðist nýta rými safnsins. Þá stefnu kynnti hún einnig rekstraraðilum Pure Deli. Breytingar sem því fylgdu áttu að taka gildi í janúar á þessu ári og fólu meðal annars í sér endurhönnun á fræðslurýminu og aukið fræðslustarf sem fara ætti fram í svokölluðum gangi sem áður hefur verið nefndur. „Nokkrum dögum fyrir opnun er ég skyndilega boðuð á fund með Soffíu þar sem hún tilkynnir mér að hún hafi verið boðuð á neyðarfund milli jóla og nýárs með rekstraraðilum Pure Deli og þau verði að fá meira rými fyrir hópa. Á fundinum var ég meðal annars sökuð um að hafa tekið rými af þeim. Ég var auðvitað ekki sammála því, þetta rými hefur alltaf verið safnsins. Ég benti henni á að ég hefði eytt miklum fjármunum í að endurhanna fræðslurýmiðið, í samræmi við áherslur sem voru samþykktar af lista- og menningarráði Kópavogsbæjar.“
Jóna Hlíf segist hafa reynt að benda rekstraraðilum Pure Deli á að aukin ásókn í safnið hlyti að vera rekstri þeirra til góða. Hún hafi þegar verið búin að samþykkja fjölgun á borðum svo veitingastaðurinn gat þjónustað um 60 manns í garðskálanum og meðfram stiganum en krafa rekstraraðila var að fá enn meira rými fyrir hópa.
Var neitað um fundi
Eftir þetta segist Jóna Hlíf hafa farið markvisst að skoða hvernig samskiptin hafi verið eftir að hún tók við störfum. Hún hafi því sett saman minnisblað þar sem hún tiltók ýmsa þætti sem vert væri að skoða áður en Pure Deli fengi enn meira rými í Gerðarsafni, eins og farið hafði verið fram á. „Meðal þess voru öryggismál. Það var búið að brjótast þrisvar sinnum inni safnið á þessum tíma. Ég tengi það við rekstur Pure Deli í húsinu, meðal annars læsti starfsmaður veitingastaðarins ekki hurð að safninu þegar hann fór heim að lokinni vinnu og inn um þá hurð var farið. Þá höfðu rekstraraðilar ítrekað brotið samning um rekstur í safninu, með því að láta mig sem safnstjóra ekki vita að haldnar væru veislur eftir lokun safnsins. Með því var enginn á staðnum til að gæta safneignar safnsins og ekki var hægt að tryggja að gestir veitingastaðarins færu ekki inn í sýningarsali Gerðarsafns.“
„Hvernig á ég að geta komið mikilvægum upplýsingum til minnar stjórnar ef ég má ekki eiga samskipti við hana?“
Jóna Hlíf óskaði þá eftir fundi með Ármanni Kr. Ólafssyni bæjarstjóra, Pálma Þór Mássyni, bæjarlögmanni og bæjarritara, Karen Elísabetu Halldórsdóttur, formanni lista- og menningarráðs, og Soffíu Karlsdóttur, forstöðumanni menningarmála, til að fara yfir málin. „Minn yfirmaður, Soffía, neitar mér um þann fund. Ég hafði samband við hennar yfirmann, Pálma, og óska skýringa. Hann segir mér að Soffía sé minn yfirmaður og hún sé búin að taka þessa ákvörðun og við hana verði staðið. Svo skammaði hann mig í tölvupósti fyrir að hafa haft samband við formann lista- og menningarráðs, með því væri ég að brjóta samskiptareglur. Mér brá verulega við þetta, mér höfðu aldrei verið kynntar slíkar samskiptareglur. Samkvæmt stofnskrá Gerðarsafns er mín stjórn, sem ég heyri undir, lista- og menningarráð en hvergi kemur fram í stofnskránni að forstöðumaður menningarmála sé minn yfirmaður. Hvernig á ég að geta komið mikilvægum upplýsingum til minnar stjórnar ef ég má ekki eiga samskipti við hana? Ég verð þá að treysta því að minn yfirmaður komi mínum athugasemdum og umkvörtunum á framfæri, sem ég tel að ekki hafi verið gert.“
Ráðgjafarnefnd sagt að henni kæmi málið ekki við
Jóna Hlíf fékk þá upplýsingar um að fallist hefði verið á kröfur Pure Deli um aukið rými þeim til handa, að henni forspurðri. Taka ætti hluta af umræddu fræðslurými, sem nýbúið var að endurhanna, og setja undir starfsemi veitingastaðarins. Var henni gerð grein fyrir að teikna ætti upp veggi til að hólfa það svæði af og taka undir veitingarekstur. Eftir þetta fundaði Jóna Hlíf með ráðgjafarnefnd Gerðarsafns, sem á að vera leiðbeinandi um sýningahald og safnkaup, enda taldi hún það eðlilegt þar eð breytingar sem slíkar hefðu áhrif á sýningarhald safnsins. Að hennar sögn var nefndarmönnum brugðið og ákváðu að senda sjálf erindi á lista- og menningaráð, þar sem óskað var eftir því að hið minnsta yrði þeim framkvæmdum frestað til hausts.
Stundin ræddi við nefndarmenn í ráðgjafarnefnd Gerðarsafns sem staðfestu frásögn Jónu Hlífar. Nefndarmenn hafi fengið þau svör við erindi sínu að það yrði ekki tekið til greina þar eð rekstrarleg málefni safnsins kæmu nefndinni ekki við. Í samtölum lýstu nefndarmenn áhyggjum af því að nú í annað skipti á stuttum tíma hafi safnstjórar hrakist frá störfum í Gerðarsafni vegna samskiptaörðugleika við forstöðumann menningarmála. Þá báru þau Jónu Hlíf afar vel söguna sem forstöðumanni Gerðarsafns.
Kom upp um ólöglega áfengissölu
Í framhaldinu fór Jóna Hlíf að kanna málið betur, meðal annars að athuga hvort rekstrarleyfi Pure Deli í Gerðarsafni heimilaði allan þann fjölda gesta sem rekstraraðilarnir vildu koma þar fyrir. „Ég hringi í sýslumann sem tilkynnir mér að Pure Deli hafi ekki rekstrarleyfi í Gerðarsafni.“
„Ég taldi þetta mjög alvarlegt, þarna var verið að fremja lögbrot undir merkjum Kópavogsbæjar“
Í lögum og reglugerð um veitingastaði eru veitingastaðir flokkaðir í þrjá flokka. Í fyrsta flokki teljast staðir án áfengisveitinga og slíkir staðir þurfa ekki rekstrarleyfi, aðeins veitingaleyfi. Selji hins vegar veitingastaðir áfengi er þeim skylt að hafa gilt rekstrarleyfi. „Allan tímann frá því að ég tók til starfa hafði Pure Deli selt áfengi í Gerðarsafni, og fyrir þann tíma einnig, það getur starfsfólk Gerðarsafns staðfest. Ég tilkynnti þetta til lögreglu og síðan með tölvupósti til minna yfirmanna og til innri eftirlitsaðila í Kópavogi. Ég taldi þetta mjög alvarlegt, þarna var verið að fremja lögbrot undir merkjum Kópavogsbæjar og í húsi sem ég ber ábyrgð á. Ég óskaði eftir því að samningi við rekstraraðilana yrði rift samstundis.“
Lögregla mætti á svæðið degi síðar og eftir það linnti áfengissölu hjá Pure Deli. Jóna Hlíf segir að í framhaldinu hafi hún haft samband við bæði heilbrigðiseftirlit og Slökkvilið til að kanna hvort rekstur Pure Deli í Gerðarsafni samræmdist lögum og reglum. Raunin er sú að Pure Deli hefur hætt rekstri í Gerðarsafni, frá 12. ágúst síðastliðnum, að sögn vegna ástandsins sem skapaðist vegna Covid-19 faraldursins.
Lítur á framkomu Soffíu sem einelti
En hafi Jóna Hlíf haldið að það yrði talið henni til tekna að benda á að verið væri að fremja lögbrot í Gerðarsafni var það öðru nær. „Viðbrögðin sem ég fékk voru ótrúleg. Ég fæ tölvupóst frá mínum yfirmanni, Soffíu, þar sem hún fer fram á að ég skrifi greinargerð um við hverja ég hafi talað í sambandi við rekstur Pure Deli í Gerðarsafni. Tölvupóst þar sem hún ýjar að eða hreinlega sakar mig um að hafa brotið persónuverndarlög. Í sama tölvupósti var mér og mínu starfsfólki bannað að tala við rekstraraðila og starfsfólk Pure Deli, öll samskipti ættu að fara í gegnum Soffíu. Ég lít á þessa framkomu, og ítrekuð sambærileg atvik sem hluta af einelti gegn mér.“
Jóna Hlíf segir að þessi framkoma sé því grátlegri vegna þess að hún hafi verið mjög ánægð með starfið er lýtur að safnastarfinu sjálfu. „Ég hef alltaf haft listrænt frelsi við sýningarhald Gerðarsafns og er mjög þakklát fyrir það. Ég er líka mjög þakklát fyrir að ná flestum mínum markmiðum, meðal annars verulega aukna aðsókn að safninu, að hafa komið á nýrri safnbúð og þá hefur safnið aldrei fengið jafn mikið af veglegum styrkjum á einu ári, alls 17 milljónir króna. Starfsfólk Gerðarsafns er frábært og ég er þakklát fyrir að hafa kynnst því og vinna með því. En þegar ákveðið er að taka af safninu þetta rými er auðvitað verið að vega að minni sýn á rekstri og starfsemi safnsins. Ég er ekki bara að berjast um eitthvað rými, eitthvað herbergi, þetta er listasafn, fyrst og fremst. Ef Kópavogsbær vill breyta Gerðarsafni, arfleifð Gerðar Helgadóttur, í veitingastað þá skal hann bara gera það. En ég sem safnstjóri listasafnsins Gerðarsafns ætla ekki að sitja hljóð undir því, eða taka þátt í því.“
Skömmu eftir þetta átti Jóna Hlíf starfsmannaviðtal með Soffíu en undir lok fundarins kynnti Soffía fyrir henni að hún hyggðist gera breytingu á starfslýsingu hennar, og að út úr henni ætti að taka setningu þar sem tiltekið væri að forstöðumaður Gerðarsafns sinnti samskiptum við rekstraraðila veitingasölu. „Ég samþykkti það, en viðurkenni að það voru mistök, ég var bara svo kjaftstopp yfir þessu. Eftir á að hyggja hefði ég átt að heyra í lögfræðingi hjá BHM. En þegar þetta er orðið svona langt gengið þá er maður bara orðinn vanmáttugur. Stuttu eftir starfsmannaviðtalið var undirritaður nýr viðauki við samninginn við Pure Deli án minnar vitundar og þar stendur eftirfarandi: Þar sem er vísað er til forstöðumanns Gerðarsafns í aðalsamningi mun með samningi þessum vera vísað til forstöðumanns menningarmála. Hvernig á ég að geta borið ábyrgð á safnkosti Gerðarsafns ef ég hef ekkert um það að segja hvaða rekstraraðili er inn í safninu, svo og ég tali nú ekki um að ég megi ekki eiga samskipti við rekstraraðila?“
Krafa um að sjónarmið Jónu Hlífar kæmu fram hunsuð í bæjarráði
Í lista- og menningarráði Kópavogs var haldinn fundur 12. mars síðastliðinn og kynnt tillaga að skiptingu á rými Gerðarsafns til að aðgreina rekstur veitingastaðar frá safninu. Í fundargerð kemur fram að Margrét Tryggvadóttir nefndarmaður í ráðinu óski eftir því að sjónarmið safnstjóra Gerðarsafns kæmu fram. „Þrátt fyrir það fékk ég aldrei að koma mínum sjónarmiðum á framfæri. Þessi ósk var einfaldlega hunsuð. Síðan var þetta tekið fyrir á fundi bæjarráðs í maí án þess að minn yfirmaður gerði mér grein fyrir því. Þar var uppskiptingin samþykkt án þess að ég fengi neitt um það að segja og mér heldur ekki tilkynnt það eftir á.“
Margrét Tryggvadóttir segir í samtali við Stundina að það sé rétt að aldrei hafi verið leitað eftir sjónarmiðum Jónu Hlífar varðandi málið. Ein ástæða þess hafi verið að fyrri Covid-19 faraldurinn hafi þarna skollið á. „Þessu var ekki fylgt eftir. Mér hefði fundist eðlilegt að þessu hefði verið fylgt eftir áður en ákvörðun var tekin í bæjarráði, en málið hefur kannski verið í skiljanlegri biðstöðu vegna kórónuveirunnar.“
Segir um alvarlega vanhæfni að ræða
Spurð hvers vegna hún hafi ekki leitað til BHM og kært einelti í sinn garð segir Jóna Hlíf að hún hafi leitað þangað og fengið álit. „Ferlið sem fer af stað þegar maður kærir einelti innan stjórnsýslunnar er hins vegar langt og strembið, það er kvíðavaldandi og yfirleitt skilar það ekki þeim árangri sem maður óskar eftir, að sá sem beitir ofbeldi verði áminntur eða rekinn. Ég gat því ekki séð á þeim tímapunkti að það væri farsæl lausn.“
„Ég get bara ekki setið undir þessu lengur“
Eins og fyrr segir hefur Pure Deli hætt starfsemi í Gerðarsafni og auglýst hefur verið eftir nýjum rekstraraðila. Jóna Hlíf fær ekki að fara yfir þær umsóknir heldur bæjarlögmaður. Þá hefur Gerðarsafni verið bannað að nýta rými sem standa auð nú á meðan enginn veitingarekstur er í þeim. „Ég finn ekki fyrir trausti og þar með er forsendan fyrir þessu starfi farin. Eftir að hafa setið undir þessu ástandi í heilt ár hef ég fengið nóg. Það er ekki starfandi mannauðsstjóri í Kópavogsbæ sem stendur og því hef ég ekki getað leitað til hans. Menningarhúsin í Kópavogsbæ hafa engan trúnaðarmann og því er ekki hægt að leita til hans. Faglegt álit mitt og sjónarmið hafa verið hunsuð. Yfirmaður minn, Soffía Karlsdóttir, hefur haldið frá mér upplýsingum, hún hefur svipt mig ábyrgð án þess að upplýsa mig um það og hún hefur komið af stað orðrómi og slúðri um mig. Hún hefur tekið geðþóttakenndar ákvarðanir sem snúa meðal annars að verksviði mínu og grafið undan trausti á faglegri hæfni minni og frammistöðu. Þá hefur Soffía gert lítið úr líðan minni og aðstæðum starfsfólks. Ég get bara ekki setið undir þessu lengur. Mér blöskrar líka að ég sé annar safnstjórinn á tveimur árum sem gengur út úr safninu vegna óyfirstíganlegs ágreiningings við Soffíu. Mér finnst þetta allt vera alvarleg vanhæfni og þess vegna segi ég upp störfum sem forstöðumaður Gerðarsafns.“
Neitar ásökunum um einelti
Soffía Karlsdóttir, forstöðumaður menningarmála svaraði fyrirspurn Stundarinnar um ásakanir á hendur sér í skriflegu svari. Þar sagði hún að engin ásökun um einelti af hennar hálfu væri til rannsóknar hjá bænum og kæmi fullyrðing Jónu Hlífar þess efnis henni á óvart.
„Hjá Kópavogsbæ eru eineltismál unnin eftir viðurkenndu ferli og réttur hvers starfsmanns sem telur sig beittan einelti að virkja þann feril. Forstöðumaður Gerðarsafns á að þekkja þann feril en hún mun einnig fá upplýsingar um hann í dag.
Að öðru leyti tjái ég mig ekki um málefni einstakra starfsmanna.
Hvað varðar starfsemi Pure Deli í Gerðarsafni þá var samið við rekstraraðila staðarins um rekstur í húsnæði Gerðarsafns haustið 2018. Lista- og menningarráð lagði svo til í mars 2020 að húsnæði undir rekstur veitingastaðarins yrði stækkað meðal annars til að aðgreina betur rekstur veitingarstaðarins og safnsins. Sú tillaga var samþykkt einróma í bæjarráði. Pure Deli hætti rekstri í safninu í ágúst og hefur reksturinn verið auglýstur laus til umsóknar.
Hvað varðar ásakanir á mínar hendur um slæma stjórnsýsluhætti þá vísa ég þeim á bug. Ég hef langa reynslu af því að vinna í stjórnunarstöðu í menningarmálum hjá hinu opinbera, alls 20 ár. Í störfum mínum hef ég haft fagmennsku og metnað að leiðarljósi, auk þess fara eftir þeim lögum sem gilda um opinbera stjórnsýslu. Í góðri stjórnsýslu felst meðal annars að fara eftir viðurkenndum boðleiðum og eftir því fer ég.“
Athugasemdir