Hvaða nafnfrægu persónu úr grísku goðafræðinni má sjá á myndinni hér að ofan?
Þetta var fyrri aukaspurningin.
Hin snýst um neðri myndina og er svona:
Hver er þetta?
En þá eru fyrst hinar sívinsælu aðalspurningar:
1. Hvað heitir höfuðborgin í Afganistan?
2. Samherjaskjölin svonefndu snúast um meintar mútugreiðslur fyrirtækisins til stjórnmála- og áhrifamanna í fyrst og fremst einu Afríkuríki. Hvaða ríki er það?
3. Í Færeyjum kallast sá „lögmaður“ sem á Íslandi er nefndur „forsætisráðherra“. Hver hefur lengst allra í nútíma gegnt þessu starfi?
4. Jóhann Jónsson orti frægt ljóð sem hefst svo: „Hvar hafa dagar lífs þíns lit sínum glatað?“ Hvað heitir ljóðið?
5. Vivianne Miedema heitir ung fótboltakona sem nú spilar með Arsenal. Hún er ógurlegur markaskorari og skorar nálega eitt mark í leik, bæði með félagsliði sínu og landsliði. Fyrir hvaða landslið spilar hún?
6. Rosalind Franklin var breskur vísindamaður sem lést úr krabbameini aðeins 37 ára. Það var árið 1957. Hún var harmdauði sínu fólki en annars var hún ekki sérlega þekkt. Löngu síðar kom í ljós að hún hafði átt mjög mikilvægan þátt í stórkostlegri vísindauppgötvun, en heiðurinn af þeirri uppgötvun féll fyrst og fremst í skaut tveggja karla. Á síðustu árum hefur hlutur Rosalind Franklin þó verið dreginn fram í dagsljósið. Um hvað snerist hin umrædda vísindauppgötvun?
7. Árið 1958 börðu bandarískir ráðamenn saman svokallaða „Áætlun 119A“ sem snerist um að sprengja kjarnorkusprengju á ákveðnum stað til að sýna mátt og megin Bandaríkjanna. Sem betur fer var áætlunin lögð á hilluna en hvar átti að sprengja sprengjuna?
8. Árið 2016 hófust á Netflix sýningar á sjónvarpsþáttaröð um Elísabetu Englandsdrottningu og fjölskyldu hennar. Röðin heitir The Crown og sló í gegn. Í fyrstu tveimur þáttaröðunum var Elísabet leikin af ... ja, hvað hét hún, leikkonan sú?
9. Á árunum 1799-1837 var uppi skáld eitt í Rússlandi. Skáldið hefur verið talinn holdgervingur rómantísku stefnunnar í Rússlandi og fyrsta sannkallaða stórskáldið þar í landi. Verk skáldsins eru fjölmörg en ætli verk eins og Leitin að Ljúdmílu fögru, Spaðadrottningin og Evgení Onegín séu ekki þekktust hér? Skáldið lét lífið í asnalegu einvígi. Hvað hét þetta skáld?
10. Hvaða breska hljómsveit sló í gegn árið 1992 með laginu Creep?

Svör:
1. Kabúl.
2. Namibíu.
3. Atli Dam.
4. Söknuður.
5. Hollands.
6. DNA.
7. Á tunglinu.
8. Claire Foy.
9. Alexander Púsjkin.
10. Radiohead.
Svör við aukaspurningum:
Prómeþeifur.
Coco Chanel.
Athugasemdir