Það er ekki seinna vænna að koma upp hefðum. Nú er að komast á sú hefð að tíunda hver spurningaþraut fjalli öll um eitt tiltekið efni. Þessi fertugasta spurningaþraut fjallar því öll um Íslandssögu.
Aukaspurningarnar eru þessar, og líka úr Íslandssögunni:
Hvaða atburður á sér stað á myndinni hér að ofan?
Og hvaða karlmaður er á myndinni hér að neðan?
1. Samkvæmt fornum heimildum á Ingólfur Arnarson að hafa verið fyrsti landnámsmaður Íslands. Hvað hét fóstbróðir hans, sem kom hingað með honum og týndi hér lífinu? Fornafn hans dugar.
2. Hver var fyrsta konan sem varð ráðherra á Íslandi?
3. Hvar var háð eina sjóorrustan á Sturlungaöld við Íslandsstrendur?
4. Hvaða dag var Ísland hernumið af Bretum í síðari heimsstyrjöld?
5. Í stríðinu komu Bretar og síðar Bandaríkjamenn sér upp flotastöð í Hvalfirði og flotar þeirra höfðu einnig mikil umsvif á Akureyri og ... hvar? Hvar var þriðja helsta flotabækistöð þeirra á Íslandi í stríðinu?
6. Haustið 2008 stóð til að ríkið kæmi til aðstoðar íslenskum banka og er sá atburður talinn marka upphaf efnahagshrunsins. Hvaða banki var það?
7. Hvað hét fyrsta eiginlega sólóplata Bjarkar Guðmundsdóttur, sú sem sló í gegn úti í hinum stóra, stóra heimi?
8. Hver var fyrsti Íslendingurinn sem gerðist atvinnumaður í fótbolta úti í hinum sama stóra heimi?
9. Árni Magnússon fór um landið í erindum Danakóngs í byrjun 18. aldar, gerði manntal, skoðaði aðstæður allar og rannsakaði stjórnarfar og dómaframkvæmdir. Hann var reyndar ekki einn á ferð. Hvað hét félagi hans í þessum leiðangri?
10. Bjarni Valdemar Tryggvason fæddist í Reyjavík 21. september 1945. Hvað er tilkall hans við frægðar?

Svörin:
1. Hjörleifur.
2. Auður Auðuns.
3. Á Húnaflóa.
4. 10. maí 1940.
5. Á Seyðisfirði.
6. Glitnir.
7. Debut.
8. Albert Guðmundsson.
9. Páll Vídalín.
10. Hann gerðist geimfari, reyndar undir kanadískum fána en til Kanada fór hann með fjölskyldu sinni aðeins 7 ára.
Og aukaspurningarnar:
Efri myndin er frá þeirri athöfn þegar Ísland varð fullvalda 1. desember 1918.
Neðri myndin er af Guðmundi Kjærnested skipherra í þorskastríðum tvö og þrjú.
Hér er svo næsta spurningaþraut á undan.
Athugasemdir