Enn eru 57 einstaklingar strandaglópar víða um heim, sem ekki hefur tekist að koma aftur heim til Íslands eftir að ferðatakmarkanir skullu á vegna covid-19. Þeir voru 211 um mánaðamótin mars/apríl en síðan þá hafa tæplega 150 manns fengið aðstoð við að komast til landsins frá borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins. Flestir þeirra sem ekki hafa komist heim eru á Spáni en einnig eru einstaklingar í nokkrum ríkjum Afríku, í Mið-Austurlöndum, Austur-Asíu, Suður-Ameríku og víðar. Þetta kemur fram í svari frá Maríu Mjöll Jónsdóttur, deildarstjóra hjá Utanríkisráðuneytinu.
Á meðal þeirra sem vilja komast heim eru hjónin Birta Árdal Nóra Bergsteinsdóttir og Othman Karoune. Þau hafa verið búsett á víxl á Íslandi og Marrokkó, þaðan sem hann er. Þau eiga fjórar ungar dætur og hafa verið í ströngu útgöngubanni frá því 15. mars. „Það var björgunarflug frá Marokkó 17. apríl sem við hefðum getað farið með, en við fengum að vita af því með tveggja daga fyrirvara og það var of margt sem við þurftum að greiða úr til að geta stokkið á það. Við ákváðum því að fara ekki í flugið, enda héldum við að útgöngubannið væri við það að klárast. Sama dag og flugið fór var hins vegar tilkynnt að það yrði að minnsta kosti mánuður í viðbót í útgöngubanni hér,“ segir Birta. Hún bætir þó við að aðrir Íslendingar hafi komist að í þeirra stað sem hafi verið gott, því sjálf búi þau við góðar aðstæður, hafi meðal annars garð út af fyrir sig þar sem börnin geta leikið sér.
„En okkur langar að komast heim“
Óvissan er hins vegar farin að reyna á, segir Birta, og ekki sér fyrir endann á henni. Landamærunum hafi verið lokað 19. mars og síðan hafi ekki verið hægðarleikur að komast úr landi. Af og til séu flug á áætlun en þeim sé alltaf frestað þegar nær dregur brottfarardegi. „Við vitum ekki hvernig þetta verður, hvort við kaupum flug þegar útgöngubanninu lýkur eða hvort það verði yfir höfuð einhver flug að hafa þá. Við erum í sambandi við danska sendiráðið hér og starfsfólkið þar ætlar að láta okkur vita af það verður flug á þeirra vegum héðan, en það er í raun og veru ólíklegt. Það fer vel um okkur þó það sé að verða ansi heitt, um 40 gráður í dag. En okkur langar að komast heim.“
Hjálpuðu elskendum og mataráhugafólki
Frá og með deginum í dag, 4. maí, er hefðbundið snið komið á starfsemi borgaraþjónustunnar en hún er opin árið um kring, allan sólarhringinn. Hlutverk hennar alla jafna er að gæta hagsmuna og öryggis Íslendinga erlendis en að undanförnu hefur starfsemin verið mun umgangsmeiri en vanalega og úrlausnarefni er tengjast Covid-19 verið fyrirferðarmikil. Í það heila hafa um 550 manns í 56 ríkjum fengið úrlausn sinna mála. Yfir áttatíu manns hafi komið heim með borgaraflugum Norðurlanda, Eystrasaltslanda og annarra Evrópuríkja, auk þess sem á annað hundrað manns hafi nýtt sér sér fjögur flug frá Varsjá í mars og apríl, á vegum pólskra stjórnvalda.
María Mjöll segir að þó að starfsemi sé nú aftur orðin hefðbundin hjá borgaraþjónustunni sé það enn í forgangi að aðstoða þá sem vilja komast heim. Áfram verði fylgst með stöðu mála og upplýsingum, ráðgjöf og aðstoð miðlað til þeirra sem enn þurfa á því að halda. Hún segir að almennt virðast að flestir þeirra sem enn eru séu í aðstöðu til að vera áfram erlendis þar til flugframboð eykst að nýju og ferðatakmörkunum verði aflétt.
Borgaraþjónustan veitti almenna ráðgjöf í yfir 6 þúsund símtölum og tölvupóstum sem henni bárust og þúsundum skilaboða við nær 600 einstaklinga í gegnum Facebook. Auk þess var haft beint samband að fyrra bragði við 5.750 manns sem skráðir voru erlendis, þar af á þriðja þúsund í síma, til að kanna stöðu þeirra.
María segir að meðal þeirra þúsunda hjálparbeiðna sem borist hafi að undanförnu hafi nokkrar eftirminnilegar slæðst með, eins og sú sem barst frá bandarískum ferðamanni, sem hafði fengið úrlausn sinna mála hjá borgaraþjónustunni. „Um leið og hann þakkaði fyrir sig spurði hann hvort við gætum kannski aðstoðað hann við að hafa uppá uppskrift að fiskisúpu sem hann hafi fengið á Íslandi fyrir nokkrum árum.“ Vel hafi verið brugðist við því og uppskriftinni verið flett upp fyrir manninn. Þá hafi ást og rómantík oft komið til sögunnar, enda hafi elskendur, sem staddir voru hvor í sínu landinu, fengið ráðgjöf um hvernig þeir gætu náð saman á þessum skrýtnu tímum.
Athugasemdir