„Þið eruð ekki í fríi,“ segir kennari dóttur minnar á ruglingslegum fjarfundi tuttugu níu ára barna að morgni dags. Ég rifja upp brotareikning og aðferðir við deilingu. „Hvert er samheiti orðsins fyrnast?“ spyr sonur minn. Hmmm.
Bjargráð gegn leiðindum, áhyggjum og aðgerðarleysi berast úr öllum áttum. Hreyfibingó berst frá íþróttakennurum skólans og körfuboltaþjálfarinn biður um myndir af börnum að æfa sig heima. Dóttir mín dansar hip hop í beinni á Instagram og minn danskennari hristir sig líka á netinu – það hefur aldrei verið eins mikið dansað í stofunni minni og í þessari viku.
Píanónám barna fer líka fram í fjarkennslu, eins og vinnufundir mínir og mannsins míns í sóttkví. Hann fær ekki að stíga fæti inn í eldhús. Sem þýðir að munnarnir eru fimm sem ég þarf að passa að fái sína fylli þessa viku. Allir fá D-vítamín. Það styrkir ónæmiskerfið.
Mér finnst erfitt að einbeita mér. Ákveð að prófa róandi tíma frá fyrrverandi jógakennara sem býður hverjum sem er að vera með. Það hefur víst aldrei verið mikilvægara, bæði að horfa inn á við og hlúa að líkamlegri heilsu. Ætti ég líka að taka armbeygjuáskorun? Gæti að því að sitja bein í baki á heimaskrifstofunni, svo ég fari ekki í bakinu. Heyrði sjúkraþjálfara segja: „Toga rasskinnarnar aftur!“
Svo þarf að auðga andann. Ljóð fyrir þjóð frá Þjóðleikhúsinu og Kúltúr klukkan 13. Blaðamannafundur í beinni klukkan 14 er þó hápunktur dagsins. Börnin sjá afa í Þórólfi, enda fá þau ekki að hitta sína eigin afa. En þau hitta þá á netinu í staðinn. Líka ömmurnar, langömmurnar, vinina, frænkurnar, frændurna. Má ekki gleyma fjarafmæli í vinahópnum í lok dags.
Bangsaveiðar standa yfir í hverfinu. Við tökum þátt, fyllum gluggakistur af böngsum áður en við förum í langan göngutúr til að telja mjúkdýr í gluggum hverfisins. Ég reyni að halda huganum við talninguna og láta það ekki trufla mig að ég er að missa af fréttatímanum. Börnin mega ekki finna að ég er með veiruna á heilanum. Vil ekki að þau verði kvíðin svo ég hleð niður hugleiðslu fyrir börn sem leikskólinn mælir með þegar við komum heim. Hlustum á hana eftir að við höfum sungið nokkur af kvæðunum sem við fengum send í tölvupósti frá borginni.
Allan tímann hef ég samt haft þessa tilfinningu að ég sé að gleyma einhverju. Kannski að láta mér leiðast?
Athugasemdir