Æðsti yfirmaður fjölmiðla á Íslandi var valinn í skjóli leyndar. Leyndin átti að tryggja að hæft fólk fengist til starfans. Svo mikil var leyndin að maður furðar sig á því að við fáum yfirleitt að vita hver varð fyrir valinu á endanum. Af hverju situr nýi útvarpsstjórinn ekki bara bak við skilrúm og ræðir við okkur með aðstoð talgervils?
Óþarfa leynd yfir upplýsingum og spuni eru óvinir fjölmiðla og þess vegna er óboðlegt að stjórn Ríkisútvarpsins skuli gera sig seka um hvort tveggja við að ráða í stöðu útvarpsstjóra. Stjórnin, sem situr í umboði stjórnmálaflokkanna, ætlaði að ráða ópólitískan útvarpsstjóra. Þar sem hún er sjálf pólitískt skipuð var henni eðlilega nokkur vandi á höndum.
41 sótti um starfið. Og nokkrir umsækjendur þorðu jafnvel að gangast við að hafa sóst eftir þessari vegtyllu, flestir úr heimi fjölmiðla, þar af nokkrar konur, flestar með mikla reynslu af fjölmiðlum að baki.
Capacent var fengið það hlutverk að ræða við flesta umsækjendur og velja úr þá sem gátu komið til greina í starfið. Eftir þá yfirferð var eftir um fjórðungur umsækjenda en þá settist hluti stjórnarinnar við og valdi burt þá umsækjendur sem henni líkaði ekki við. Þá stóð eftir úrvalssveit „ópólitískra“ umsækjenda. Þrír karlar og ein kona, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, fyrrverandi þingmaður VG, sveitarstjórinn í Skútustaðahreppi og fyrrverandi lögreglustjórinn í Reykjavík og núverandi borgarritari. Þrír karlar og ein kona. Eftir fyrstu umferð í stjórninni voru einn karl og ein kona eftir. Atkvæði voru greidd og féllu á jöfnu, stjórnarformaðurinn réð úrslitum og karlinn var ráðinn. Og þá komum við að spunanum. Til að láta líta svo út að einhugur væri um málið í stjórninni, var búið svo um hnútana að allir hefðu viljað karlinn, þetta hefði verið einróma niðurstaða, enda hefði hann verið „langhæfastur“.
Og konurnar sem þóttu „ekki hæfar“ og komu aldrei til álita eru meðal annars fyrrverandi ritstjóri, lagaprófessor og sérfræðingur í tjáningarfrelsi fjölmiðla, fyrrverandi ritstjóri og útgáfustjóri fjölmiðlafyrirtækisins 365 sem var fréttamaður á RÚV til margra ára, fyrrverandi fréttastjóri á RÚV og fyrrverandi ritstjóri Kastljóssins. Fjórum konum í stjórn RÚV og fulltrúum margra flokka sem hafa kynjajafnrétti í stefnuskrá sinni, þóttu þær ekki nógu merkilegar til að fara í lokaúrslit um stöðuna. Það var því ákveðið að tala frekar við löggu.
Þegar gengið var á stjórnina og hún spurð af hverju gengið var framhjá fjölmiðlareynslu umsækjenda var svarið að lögreglustjórinn hafi haft betur vegna frumkvöðlastarfs síns við að efla Facebook-síðu lögreglunnar. Síðunni var ætlað það hlutverk á sínum tíma að koma í stað hefðbundinnar upplýsingagjafar lögreglu til fjölmiðla, þar sem hægt var að spyrja gagnrýninna spurninga og fá svör.
„Þegar valdið treður á borgurunum er það útlitshönnunin og yfirklórið sem er mest óþolandi“
Eins og oft þegar valdið treður á borgurunum er það útlitshönnunin og yfirklórið sem er mest óþolandi. Það er ekki nóg að troða enn einum hægri sinnuðum karli í embættið og senda fjölmiðlastéttinni fingurinn, niðurlægja konurnar sem sóttu um í þeirri góðu trú að loksins fengju þær tækifæri. Klappstýrur valdsins ruku líka fram á ritvöllinn til að mæra þessa frábæru, lýðræðislegu og ópólitísku niðurstöðu og allir sem setja eitthvert spurningarmerki við framkvæmdina eru á móti lögreglustjóranum sem er sagður vera afbragðsmaður.
En þetta snýst hins vegar ekki um það.
Flestum stendur eflaust á sama um hver er útvarpsstjóri, það embætti er ekki upphaf og endir alls. Þar hafa setið tíu karlar frá stofnun og sá ellefti breytir ekki miklu. Á tímum upplýsingaóreiðu, þar sem falsfréttir eru vaxandi ógn, skiptir hins vegar miklu að fjölmiðill eins og Ríkisútvarpið sýni gott fordæmi og sé gagnsæ og góð heimild sem hægt sé að treysta.
Fjölmiðlar á Íslandi eru veikari en nokkru sinni fyrr, blaða- og fréttamönnum er að fækka og sú þróun kemur til með að halda áfram ef miðað er við stöðuna í nágrannalöndunum.
Það eru ekki bara öfgar og hatursáróður sem eiga greiða leið inn í umræðuna vegna upplýsingaóreiðu. Yfirvöld á hverjum tíma gera út á óreiðuna þegar það þarf að sópa óþægilegum málum undir teppið. Þeir sem starfa við að pakka íslenskum yfirvöldum í stjórnmálum og hjá opinberum stofnunum í huggulegar neytendaumbúðir eru bráðum orðnir fleiri en starfsmenn fjölmiðla. Þeir reiða sig á spuna og gleymsku kjósenda og eru sífellt að finna upp á einhverju nýju og sniðugu til að passa að við lesum eitthvað annað en umbúðalausan sannleikann, heyrum eitthvað annað en umbúðalausan sannleikann, sjáum eitthvað annað en umbúðalausan sannleikann.
Ríkisútvarp ætti að vera kjölfesta í þessum ólgusjó og krefjast gagnsæis á öllum stigum stjórnsýslunnar en kýs fremur að ráða æðsta embættismann sinn í skjóli leyndar og segja ósatt um hvernig það fór fram.
Við hin getum svo valið um að halda með vinningsliðinu og látast ekki sjá að það fer ekki eftir leikreglunum, eða halda með tapliðinu sem hefur enn sem komið er varla staðið með sjálfu sér.
Fyrir flesta er valið einfalt.
Með augun full af ryki og eyrun full af skít geta þeir glaðst með glaða fólkinu á Kaffi Vest yfir nýja lögreglu-útvarpsstjóranum í Efstaleiti.
Athugasemdir