Það fyrsta sem ég geri á morgnana er að líta út um gluggann og kanna hvernig veðrið er. Kannski skrýtið, því það er ekki eins og ég þurfi að fara á sjóinn eða vinni við að moka snjó. En veðrið hefur samt áhrif á daglegt líf okkar allra sem búum á Íslandi. Á það vorum við óþyrmilega minnt á dögunum þegar óveður olli gríðarlega umfangsmiklu og langvarandi rafmagnsleysi á Norðurlandi.
Nú er það ekki svo að ekki hafi komið óveður áður og það er ekki eins og þetta hafi verið síðasta óveðrið á Íslandi. En veðrið minnti okkur á hversu háð við erum náttúrunni, veðri og vindum og ýmsum öðrum náttúruöflum, um alla okkar tilveru. Við sækjum líf okkar til náttúrunnar en um leið getur hún sett líf okkar úr skorðum.
Loftslagsváin var mál málanna árið 2019. Hún skýrir ekki öll veður – svo það sé sagt skýrt – en hún á eftir að hafa ómæld áhrif á umhverfi okkar á komandi árum og áratugum. Um það eru vísindamenn sammála og það skiptir öllu hvernig við bregðumst við þeim viðvörunum sem vísindasamfélagið hefur birt okkur. Og þær eru raunar ekki huldar neinum. Í sumar kvöddum við jökulinn Ok sem nú er horfinn og eftir er fjallavatn í stað jökuls. Íslenskir sjómenn tala um breytingar á vistkerfi hafsins sem þeir sjá við vinnu sína. Súrnun sjávar er beintengd loftslagsbreytingum og verður ekki stöðvuð nema dregið verði úr losun.
Ég tók þátt í loftslagsfundi Sameinuðu þjóðanna í haust og var beðin að ræða þar aðgerðir Íslands í kolefnisbindingu. Þar höfum við Íslendingar ýmislegt fram að færa, hvort sem er í hefðbundnum aðgerðum á sviði landgræðslu, skógræktar og endurheimtar votlendis eða í nýsköpun á þessu sviði þar sem íslenskir aðilar hafa verið að þróa nýja tækni í kolefnisbindingu.
„Ég vonast til að við öll leggjumst á árar – framtíðin þarf á því að halda“
Ég vona að á næsta fundi muni ég geta rætt um árangur af orkuskiptum í samgöngum en ríkisstjórnin lagði þyngsta áherslu á samdrátt í losun með orkuskiptum og kolefnisbindingu í fyrstu fjármögnuðu aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum. Ný og uppfærð áætlun verður kynnt á nýju ári en við erum þegar farin að sjá merki þess að atvinnulíf og almenningur sé að taka mjög snarpt við sér, bæði hvað varðar kolefnisbindingu og orkuskipti í samgöngum. Mikil uppbygging er farin af stað í hleðslustöðvum og þá hefur ríkið ákveðið að stórauka fjárfestingu í almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu í gegnum Borgarlínuverkefnið. Ýmsar nýjar ívilnanir gagnvart umhverfisvænni samgöngumátum taka gildi um áramót, þar á meðal reiðhjólum og rafknúnum hjólum.
Þá vonast ég til þess að sem breiðust samstaða skapist á Alþingi um ný stjórnarskrárákvæði um auðlindir í þjóðareign og umhverfisvernd en í því síðarnefnda verður fjallað um réttinn til heilnæms umhverfis. Hvort tveggja er mikilvægur leiðarvísir til framtíðar.
Þjóðir heims verða að taka höndum saman til að árangur náist í baráttunni gegn loftslagsvánni. Það eru því vonbrigði að ekki hafi náðst samstaða á loftslagsfundinum í Madrid en við látum það ekki slá okkur út af laginu. Við höldum ótrauð áfram. Þrátt fyrir að við séum lítil þjóð getum við haft mikil áhrif ef við beitum okkur á alþjóðavettvangi og sýnum að hægt er að ráðast í aðgerðir en tryggja um leið velsæld og blómlegt efnahagslíf. Það höfum við einsett okkur að gera.
Ég hef miklar væntingar um árangur Íslands í loftslagsmálum. Við höfum viljann, kraftinn og samtakamáttinn til að lyfta grettistaki þegar á þarf að halda. Ég vonast til að við öll leggjumst á árar – framtíðin þarf á því að halda.
Athugasemdir