„Þessi manneskja hefur aldrei verið ráðin til starfa á Radio Iceland. Meira vil ég ekki segja um það mál,“ segir Adolf Ingi Erlingsson, eigandi Radio Iceland, í samtali við Stundina. Í Fréttablaðinu í dag er sagt frá ásökunum sem Wiktoria Joanna Ginter fer fram með á hendur Adolfi.
Wiktora lýsir því að hún hafi starfað launalaust á útvarpsstöðinni síðan í apríl. Hún hefur krafist tveggja milljóna króna fyrir vinnuframlag sitt. Samkvæmt heimildum Stundarinnar mun hún hafa fengið laun á móti atvinnuleysisbótum fyrir að sinna einu og öðru á útvarpsstöðinni. Ágreiningurinn liggur í því hvort hún eigi að fá meira.
Tilkynnt var um fyrirhugaða sölu fyrirtækisins fyrir nokkru. Síðan rofaði til í rekstrinum. Wiktoria segir að þá hafi hún viljað fá laun fyrir störf sín en var svarað með skætingi á borð við það hvað hún hafi verið að reykja.
Þá hafi hann sagt henni að troða reikningnum á ótilgreindan stað. Þá segir Wiktoria að ekki hafi fengist svör við ítrekuðum spurningum um framtíð fyrirtækisins. Adolf vill ekki svara ávirðingunum efnislega. Hann segist heldur engu geta svarað um framtíð stöðvarinnar.
„Ég á ekki kristalskúlu og veit ekkert um framtíðina“
„Þetta er nýr fjölmiðill sem þarf að berjast á markaðnum eins og aðrir. Ég á ekki kristalskúlu og veit ekkert um framtíðina,“ segir Adolf Ingi.
„Það komu aldrei skýr svör við neinu,“ sagði Wiktora við Fréttablaðið í dag. „Ég sat heima og sá þá skyndilega tilkynningu á Facebook um að stöðinni ætti að loka á miðnætti. Mér þótti það mjög skrítið vegna þess að þeir létu ekki neinn starfsmannanna vita.“
Athugasemdir