Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 8 árum.

Svona eignastu náttúruperlu og græðir milljarða

Saga Bláa lóns­ins er saga mann­gerðr­ar nátt­úruperlu sem varð til fyr­ir slysni en er í dag einn fjöl­sótt­asti ferða­mannastað­ur Ís­lands. En sag­an hef­ur einnig að geyma póli­tísk átök og af­drifa­rík­ar ákvarð­an­ir sem færðu eig­end­um Bláa lóns­ins nátt­úruperluna end­ur­gjalds­laust á sín­um tíma. Mað­ur­inn sem tók veiga­mikl­ar póli­tísk­ar ákvarð­an­ir um fram­tíð Bláa lóns­ins, bæði sem for­seti bæj­ar­stjórn­ar í Grinda­vík og stjórn­ar­formað­ur Hita­veitu Suð­ur­nesja, er í dag næst­stærsti ein­staki hlut­hafi Bláa Lóns­ins.

Hvernig eignast maður náttúruperlu? Í flestum tilfellum er svarið ósköp einfalt; einhver annaðhvort erfði eða keypti jörð sem hefur að geyma stórbrotinn foss, leyndardómsfullan helli eða goshver. Tilfelli Bláa lónsins er hins vegar einstakt, bæði vegna þess að hér er um manngerða náttúruperlu að ræða, umhverfisspjöll sem óvart urðu eitt helsta aðdráttarafl Íslands, og fyrir þær sakir að núverandi eigendur náttúruperlunnar fengu hana í raun og veru pólitískt afhenta á sínum tíma. 

En það er ekki nóg að eiga náttúruperlu. Dæmin sanna að óvirðing fyrir náttúrunni og skammtímagróðasjónarmið geta spillt jafnvel hinni fegurstu náttúru, á meðan uppbygging og sómi geta breytt náttúruperlu í óstöðvandi peningavél. En hvernig græðir maður milljarða á náttúruperlu? Grímur Sæmundsen á svarið við þeirri spurningu. 

Umhverfisspjöll verða baðstaður

Bláa lónið varð til þegar gufuaflsstöð Hitaveitu Suðurnesja hóf starfsemi sína við Svartsengi árið 1976. Þegar fyrstu boranir eftir heitu vatni í Svartsengi hófust árið 1971 varð ljóst að vatnið sem úr borholunni kom var salt, en það inniheldur um það bil þriðjung af seltu sjávar auk fjölmargra uppleystra efna. Jarðsjórinn kemur upp á yfirborðið sem 240 gráðu heit gufa og er hún notuð til að hita ferskvatn fyrir Hitaveitu Suðurnesja. Þegar þessu ferli lýkur þéttist gufan og frá orkuverinu kemur um 80 til 100 gráðu heitt affallsvatn sem er leitt út í hraunið við stöðina. Í rauninni má segja að um náttúruspjöll sé að ræða. Við kólnunina fellur meðal annars út kísilleir sem þéttir botn hraunsins og myndar heitt uppistöðulón úr jarðsjó. Bláhvíti liturinn er talinn stafa af kísilnum í vatninu.

Það var síðan árið 1981 að ungur Keflvíkingur og psoriasis-sjúklingur, Valur Margeirsson, hóf að baða sig í útfallsvatninu með leyfi forstjóra Hitaveitu Suðurnesja. „Ég minnist þess að mér kom þessi ósk á óvart, ég vissi að vísu af lóninu, en hafði ákveðna meiningu um að þar væri ekki hentugur staður til almenningsbaða, enda vísast að slys, sem af því hlytust, myndu skapa hitaveitunni skaðabótaskyldu,“ rifjaði Ingólfur Aðalsteinsson, þáverandi forstjóri Hitaveitu Suðurnesja, upp í blaðagrein nokkrum árum síðar. „Það þarf ekki að orðlengja það, að viðmælandi minn sannfærði mig um að hann tæki á sig allar skyldur, aðeins ef hann fengi að gera tilraunir með að baða sig í þessu litfagra lóni.“ 

Valur vildi láta reyna á hvort vatnið myndi draga úr einkennum sjúkdómsins. Eftir að hafa farið í lónið í þrjá daga hvarf allur kláði og pirringur sem myndast þegar hrúðrið kemur á psoriasis-blettina. Viku seinna fór hann til húðsjúkdómalæknis, sem sá að honum var að batna og hvatti læknirinn hann til að halda áfram og taldi í lagi að hann færi tvisvar á dag, sem hann gerði. Eftir þrjár vikur var hann svo til alveg laus við útbrotin. Síðar þegar Valur sagði frá lækningamætti lónsins í samtali við blaðamann mun Valur hafa kallað staðinn „Bláa lónið“ og var nafnið strax gripið á lofti.

Lækningamáttur lónsins spurðist fljótt út og hófu fleiri psoriasis-sjúklingar að baða sig í lóninu. Samtök psoriasis- og exemsjúklinga létu í framhaldinu koma upp skúr við lónið svo félagarnir gætu klætt sig úr og í, farið í steypibað og ljósaböð. Aðstaðan fyrstu árin var hins vegar ekki upp á marga fiska, en um var að ræða kaldan og þröngan fyrrverandi vinnuskúr sem Ístak hf. lánaði samtökunum, og varð sífellt fyrir barðinu á skemmdarvörgum.  

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár