„Þetta var niðurlægjandi og henni leið eins og hún væri fyrir,“ segir Ásdís, barnabarn konu sem á síðasta ári var í nær viku höfð í einangrun í sturtuklefa á Landspítalanum sökum plássleysis. Nokkrum dögum eftir að hún var útskrifuð af spítalanum lést hún af völdum illkynja krabbameins. Af tillitssemi við aðra aðstandendur konunnar birtum við ekki nafn hennar og notum einungis eiginnafn Ásdísar.
Amma Ásdísar greindist með krabbamein síðasta sumar og lést um fimm vikum eftir greiningu. „Fyrst lá hún á stofu með manni sem síðar fékk niðurgang. Þau voru bæði sett í einangrun, þó svo að hún hafi aldrei veikst. Þegar ekki var laus einangrunarstofa var hún sett inni í þetta sturtuherbergi, sem er í raun aðstaða fyrir hjúkrunarfræðinga til að baða rúmliggjandi sjúklinga. Þarna lá hún ein og var orðin hálfmállaus af kvölum. Þetta voru eins og nasistabúðir,“ segir Ásdís.
Klefanum lýsir Ásdís með eftirfarandi hætti: „Þetta var pínulítið herbergi, en hægt var að koma fyrir sjúkrarúmi og hjúkrunarfræðingarnir gátu athafnað sig í kringum það. Fyrir glugganum var plastfilma og því ekki hægt að sjá út. Það fór mjög illa í ömmu. Þetta voru síðustu dagarnir í lífi hennar og við vorum gjörsamlega máttvana gagnvart þessu ástandi. Við getum hins vegar huggað okkur við það að hún fékk að vera heima og fá heimahjúkrun síðustu vikuna í hennar lífi.“
Athugasemdir